Þrjú ritgerðasöfn eftir Camus gefin út

Háskólaútgáfan og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum gáfu nýverið út þýðingu á þremur ritgerðasöfnum eftir franska Nóbelsverðlaunahafann Albert Camus. Ritgerðasöfnin nefnast Rangan og réttan, Brúðkaup og Sumar.
Albert Camus var einn af þekktustu rithöfundum Frakka á 20. öld. Hann hóf rithöfundarferil sinn sem blaðamaður og ritgerðasmiður og fyrsta útgefna verk hans var ritgerðasafnið Rangan og réttan (L’envers et l’endroit) sem kom út í Algeirsborg árið 1937. Brúðkaup (Noces) kom út tveimur árum síðar en Sumar (L’été) árið 1954. Í þessum þremur verkum sem hér birtast í íslenskri þýðingu má finna skáldlegustu skrif Camus. Þar fléttar höfundurinn saman endurminningar og hugleiðingar um manninn og veröldina sem hann er hluti af.
Bókin er þriðja verkið sem út kemur í einmála ritröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Þýðandi verksins er Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönsku máli og bókmenntum, og ritstjóri er Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt við Deild erlenda tungumála, bókmennta og málvísinda.

