Þing Heilbrigðisvísindasviðs HÍ skorar á stjórnvöld

Þann 16. september 2025 sl. fór fram árlegt þing Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands undir yfirskriftinni Framtíðarsýn HVS: Mannauður, gervigreind og rannsóknir.
Í ávörpum Silju Báru Ómarsdóttur, rektors Háskóla Íslands, Runólfs Pálssonar, forstjóra Landspítala og Sigrúnar Brynju Einarsdóttur, ráðuneytisstjóra menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytis, var lögð áhersla á að menntun, rannsóknir og heilbrigðisþjónusta séu órjúfanlegir hlekkir í því að tryggja velferð og framfarir.
Í kjölfar mikilvægrar umræðu um mönnunarvanda í heilbrigðisvísindum samþykkti þingið ályktun um nauðsyn þess að fjárfesta í mannauði, rannsóknum og vísindum til að tryggja sjálfbært heilbrigðiskerfi. Heilbrigðisvísindaþing skorar þannig á stjórnvöld að forgangsraða menntun heilbrigðisstétta og rannsóknum í heilbrigðisvísindum í fjárlögum 2026. Í ályktuninni er einnig hvatt til þess að ráðuneytin taki höndum saman um að móta sameiginlega stefnu um framtíðarfjármögnun á sviði heilbrigðisvísinda, í stað þess að málaflokkurinn sé látinn liggja á milli ráðuneyta án skýrrar niðurstöðu.
Á þinginu var gervigreind einnig til umfjöllunar og frumniðurstöður starfshóps á vegum háskólaráðs kynntar af þeim Hafsteini Einarssyni sem leiddi vinnu hópsins og Heiðu Maríu Sigurðardóttur sem var fulltrúi Heilbrigðisvísindasviðs í verkefninu. Þau ræddu tækifæri og áskoranir sem fylgja aukinni notkun gervigreindar í háskólastarfi, m.a. frá sjónarhóli rannsókna, kennslu og stjórnsýslu. Eiríkur Kúld Viktorsson og Viktoría Tea Vökudóttir ræddu sérstaklega sjónarmið nemenda í þessu samhengi og tóku þátt í pallborðsumræðum.
Að lokum var rætt um hlutverk og framtíð Heilbrigðisvísindastofnunar. Unnur Anna Valdimarsdóttir kynnti tillögur Vísindanefndar um eflingu stofnunarinnar sem leiðandi miðju rannsókna og nýsköpunar. Sædís Sævarsdóttir fjallaði um samstarfsvettvang einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu og rannsókna og Erna Magnúsdóttir lagði áherslu á mikilvægi samstarfs um öfluga innviði í lífvísindum. Katrín Jakobsdóttir greindi að síðustu frá hugmyndum um framtíðarsýn stofnunarinnar en hún hefur tekið að sér að leiða áfram samtal við starfsfólk sviðsins um þróun hennar.





