Skip to main content
1. nóvember 2024

Tækifæri um allan heim kynnt á Alþjóðadögum HÍ

Tækifæri um allan heim kynnt á Alþjóðadögum HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Kynningar á möguleikum á námi erlendis, Alþjóðatorg, happdrætti, barsvar, karaókí og margt fleira er á boðstólum á Alþjóðadögum Háskóla Íslands sem fram fara dagana 6.-8. nóvember.

Alþjóðadagar eru árviss viðburður í Háskóla Íslands en markmið þeirra er að vekja athygli á alþjóðlegu samstarfi Háskólans og þeim fjölmörgu tækifærum sem standa nemendum og starfsfólki til boða um allan heim.

Kynningar á skiptinámi og starfsþjálfun, sem eru opnar nemendum HÍ, verða í gangi alla dagana. Þá verða styttri námsdvalir kynntar en þeim er ætlað að gera enn fleirum kleift að taka hluta af náminu erlendis.

Þá fer fram hringspjall um þvermenningarvitund og inngildingu innan Háskólans, Intercultural Awareness and Inclusive Practices: Enhancing the Wellbeing of the University’s International Community. Markmiðið er að skoða saman, sem lærdómssamfélag, nokkrar af þeim áskorunum og tækifærum sem alþjóðlegir nemendur, þar á meðal innflytjendur, flóttamenn og skiptinemar, standa frammi fyrir daglega þegar kemur að því að aðlagast háskólamenningu á Íslandi. Fjölmenningarfulltrúi Háskólans mun m.a. kynna hluta af starfsemi og rýmum sem hafa verið útbúin til að stuðla að þátttöku og þvermenningarlegri vitund innan skólans.

Nemendur sem nú eru í skiptinámi og starfsþjálfun taka yfir Instagram Alþjóðasviðs og Háskólans og veita innsýn í námsdvöl erlendis og svara spurningum áhugasamra.

Nemendur og starfsfólk geta einnig tekið þátt happdrætti og unnið til veglegra verðlauna.

Stúdentakjallarinn verður jafnframt einn af miðpunktum Alþjóðadaga þar sem fjörið mun ráða ríkjum.

ALÞJÓÐATORGIÐ

Fimmtudaginn 7. nóvember er svo komið að hápunkti Alþjóðadaga á Háskólatorgi, Alþjóðatorginu, milli kl. 11.30-13.30. Þar geta nemendur kynnt sér skiptinám, starfsþjálfun og styttri dvalir erlendis auk náms á eigin vegum. Fyrrverandi og núverandi skiptinemar, fulltrúar frá sendiráðum og fjölmörgum íslenskum stofnunum og félögum verða til viðtals á torginu. Svið og deildir innan HÍ og starfsfólk Alþjóðasviðs verðir einnig á staðnum og veitir upplýsingar um námsdvöl erlendis.

Starfsfólk Háskólans getur enn fremur kynnt sér möguleika á kennara- og starfsmannaskiptum og öðrum kostum sem bjóðast innan Erasmus+.

Nánari upplýsingar og dagskrá Alþjóðadaga

""