Sögulegt mann- og bæjatal opnað

Opnuð hefur verið ný útgáfa af stafræna sögulega mann- og bæjatalinu á slóðinni smb.mshl.is. Gagnagrunnurinn er eitt af verkefnum Miðstöðvar stafrænna hugvísinda og lista sem er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og fjölda annarra stofnana.
Tilgangur mann- og bæjatalsins er að búa til gagnagrunn með tímasettum upplýsingum um bæja- og staðanöfn annars vegar og mannanöfn hins vegar, svo langt sem heimildir ná til. Gagnagrunnurinn nýtist sérstaklega rannsakendum en í boði er að nálgast öll gögn úr honum og vista á csv-sniði, sem hentar vel til notkunar í töflureiknum og gagnagrunnum. Pétur Húni Björnsson, umsjónarmaður sögulega mann- og bæjartalsins, segir að almenningur geti flett upp hvaða bæ á landinu sem er og fengið upplýsingar um fólk sem bjó á bænum. Þannig nýtist gagnagrunnurinn fólki sem vilji fræðast um forfeður sína, búferlaflutninga þeirra og félagslega stöðu.
Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista er samstarf fimmtán stofnana um uppbyggingu stafrænna innviða til rannsókna í hugvísindum og listum. Innan MSHL er mikil þekking og reynsla í vinnslu og meðferð stafrænna gagna. Saman standa aðildarstofnanirnar að bættu aðgengi að rannsóknagögnum og þróun stafrænna rannsóknaaðferða.
Hægt er að hlusta á viðtal Hugvarps, hlaðvarps Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, við Pétur Húna Björnsson í spilaranum hér að neðan.
Pétur Húni Björnsson, umsjónarmaður sögulega mann- og bæjartalsins.