Skip to main content
26. september 2025

Risastyrkur til rannsóknarverkefnis um gagnkvæmni í vísindum

Hrefna Dögg Gunnarsdóttir

Hrefna Dögg Gunnarsdóttir, lektor við Lagadeild Háskóla Íslands, hefur hlotið tæplega þriggja milljóna dollara styrk, jafnvirði rúmlega 360 milljóna króna, frá alþjóðlega rannsóknarsjóðnum Wellcome Trust. Styrkur Hrefnu rennur til rannsóknarverkefnis sem ber heitið „Fostering Reciprocity in Environmental DNA science through Yielded stewardship, Just benefit, and Accountability“ (FREYJA). FREYJA miðar að því tryggja betur gagnkvæmni í vísindarannsóknum, m.a. sanngjarna skiptingu ávinnings sem verður til í kjölfar hagnýtingar vísindaniðurstaðna og gagnavinnslu í tengslum við umhverfiserfðafræði. Sérstök áhersla er á samvinnu vísindamanna og frumbyggjasamfélaga í verkefninu.

Umhverfiserfðafræði snýst m.a. um að safna nútíma eða fornu erfðaefni lífvera úr umhverfi, eins og jarðvegi, sjó og lofti, í stað þess að sækja það í lífveruna sjálfa. Hagnýting umhverfiserfðavísinda er talin geta umbylt matvæla-, lyfja- og snyrtivöruframleiðslu og þannig stuðlað að velferð bæði jarðarinnar og mannkyns. Ein af forsendunum fyrir FREYJU er að til þess að svo geti orðið þurfa rannsóknir og hagnýting vísindaniðurstaðna að vera gagnkvæmar í nálgun sinni gagnvart samfélögum sem fara með stjórn yfir þeim landsvæðum þar sem rannsóknirnar fara fram. Ætlunin með FREYJU er því að rannsaka hvernig tryggja megi slíka gagnkvæmni, m.a. sanngjarna skiptingu ávinnings sem verður til í kjölfar gagnavinnslu og hagnýtingar vísindaniðurstaðna, t.d. í þeim tilvikum þar sem frumbyggjar veita aðgang að landi.

Reynslumikill hópur rannsakenda

Hrefna Dögg Gunnarsdóttir er aðalrannsakandi og styrkhafi í verkefninu en hún hefur undanfarin ár rannsakað lögbundnar kröfur til vísindarannsókna á heilbrigðissviði, m.a. gagnkvæmni gagnvart samfélögum í tengslum við aðgang að heilbrigðisgögnum. Þá kom hún að undirbúningi og setu í fagráði vísindarannsóknarinnar Ancient Environmental Genomics Initiative for Sustainability (AEGIS) á sviði fornumhverfiserfðafræði við Kaupmannahafnarháskóla. Í þeirri vinnu hefur Hrefna tekist á við þær áskoranir sem þessar nýju vísindaaðferðir hafa í för með sér úr frá sjónarhóli lögfræðinnar.

FREYJA er verkefni til tveggja ára og að því koma fjórir vinnuhópar á sviði lögfræði, samvinnurannsókna og samfélagsþátttöku, þekkingarmiðlunar og hæfniuppbyggingar. Hrefna leiðir þann fyrstnefnda en hina þrjá leiða sérfræðingar á þremur mismunandi stöðum í heiminum. Það eru þau:

  • Sonia Haoa Cardinali, sjálfstætt starfandi fornleifafræðingur við Mata Ki Te Rangi vísindastofnunina á Páskaeyju, sem hefur stundað fornleifarannsóknir á eyjunni í yfir 50 ár. Sonia er vísindaráðgjafi Öldungaráðs Páskaeyju og leiðir vinnuhóp FREYJU um þekkingarmiðlun frá frumbyggjum til vísindanna.
  • Maui Hudson, fræðimaður við Waikato-háskólann á Nýja-Sjálandi og forstöðumaður Ta Kotahi rannsóknarstofnunarinnar, sem hefur stýrt fjölda rannsókna þar sem frumbyggjasamfélög taka virkan þátt í umræðu um vísindi, siðfræði, erfðafræði og tækni. Maui leiðir vinnuhóp FREYJU um samvinnurannsóknir og samfélagsþátttöku.
  • Janet Jull, vísindamaður við Carleton-háskólann í Kanada, starfar með fjölbreyttum hópum, þar á meðal frumbyggjum og frumbyggjasamfélögum. Rannsóknir hennar beinast að samstarfsaðferðum í rannsóknum sem styðja við áherslur og þátttöku fólks sem rannsóknum er ætlað að gagnast. Jull leiðir vinnuhóp um hæfniuppbyggingu.

Auk þess mun rannsóknarteymi FREYJU vinna náið með samfélögum frumbyggja bæði á Páskaeyju og í Kanada auk vísindamanna og fagráðs AEGIS-verkefnisins við Kaupmannahafnarháskóla.

Hrefna Dögg Gunnarsdóttir, lektor við Lagadeild Háskóla Íslands, kynnti rannsóknarverkefnið FREYJU í fyrirlestrarsal Eddu föstudaginn 26. september. MYND/Gunnar Sverrisson

Fjölbreyttar rannsóknaraðferðir og -afurðir

Rannsóknaraðferðir í verkefninu spanna allt frá lögfræðigreiningu til rannsóknarviðtala á vettvangi þar sem byggt er á þekkingu, gildum og hefðum frumbyggja. Þá verður grunnheimildavinna FREYJU styrkt með notkun gervigreindarlíkana sem þróuð verða í samstarfi við Hafstein Einarsson, dósent í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, og Gervigreindarsetur Háskóla Íslands sem stofnsett verður innan tíðar.

Afurðir FREYJU verða bæði í formi vísindagreina, sem nýtast til að byggja undir frekari akademískar rannsóknir á þessu nýja sviði, hagnýtra áætlana um gagnkvæmni í vísindarannsóknum sem mótaðar verða með þátttöku frumbyggja og vísindamanna og þróun leiðbeininga og regluverks um gagnkvæmni í rannsóknum, m.a. aukið jafnræði við skiptingu ávinnings af hagnýtingu vísindarannsókna.

Styrkurinn mikil viðurkenning á gæðum og mikilvægi rannsóknarinnar

„Í FREYJU erum við í fyrsta sinn að samþætta lögfræðilega greiningu á gagnkvæmni í vísindarannsóknum, samfélags- og menningarsjónarmið um sama efni og prófun og þjálfun af hálfu vísindamannanna sjálfra. Á meðan umhverfiserfðavísindum fleygir fram hefur alþjóðasamfélagið ekki getað brugðist við með viðeigandi regluverki um gagnkvæmni og skiptingu ávinnings af hagnýtingu vísindanna. Rannsóknarmarkmið FREYJU eru því tímabær enda hönnuð til að bregðast við áskorunum sem eru bæði raunverulegar og brýnar. Við væntum þess að í nánu samstarfi við frumbyggjasamfélög og vísindamenn sem stunda rannsóknir í umhverfiserfðafræði muni niðurstöður FREYJU verða flaggskip fyrir rannsóknir á þessu sviði til framtíðar og stuðla að auknu jafnræði og nýjum viðmiðum fyrir tengsl samfélags og vísinda, m.a. þegar kemur að hagnýtingu vísindarannsókna,“ segir Hrefna Dögg Gunnarsdóttir.

Aðspurð segir hún styrkinn frá alþjóðlega rannsóknarsjóðnum Wellcome Trust skipta sköpum fyrir bæði fjárhagslega og faglega hlið verkefnisins. „Í FREYJU er lögð áhersla á þverfræðilegt samstarf og beina þátttöku bæði frumbyggjasamfélaga og vísindamanna og það hefði ekki verið mögulegt nema fyrir þennan rausnarlega styrk frá Wellcome Trust. Það er sömuleiðis mikil viðurkenning á gæðum og mikilvægi rannsóknarinnar og fræðilegu framlagi rannsóknarteymisins að fá svo svo stóran styrk frá virtum vísindasjóði á alþjóðavettvangi. Fyrir mig sem höfund og aðalrannsakanda FREYJU og teymið sem stendur að verkefninu felur styrkurinn því jafnframt í sér faglega viðurkenningu sem styrkir einnig stöðu Lagadeildar og HÍ á alþjóðavettvangi,“ segir Hrefna.

Hrefna Dögg Gunnarsdóttir,