Rektor ræddi stöðu tungunnar í Humboldt-háskóla

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, flutti í vikunni erindi í Humboldt-háskóla í Berlín í Þýskalandi þar sem hann fjallaði um Háskóla Íslands í fortíð og framtíð og stöðu íslenskunnar á tímum hnatt- og tæknivæðingar.
Erindi sitt nefndi Jón Atli „The past, present and future of the University of Iceland “ en það var hluti af svokallaðri Henrik Steffens fyrirlestraröð sem Stofnun um norðurevrópsk fræði (Nordeuropa-Institut) við Humboldt-háskóla stendur fyrir. Í erindinu fór hann m.a. yfir hvernig saga Háskólans væri tengd sögu Íslands á 20. og 21. öld órofa böndum enda hefði skólinn átt sinn þátt í að breyta Íslandi úr fátæku fiskimanna- og bændasamfélagi í velferðarþjóðfélag með sterku heilbrigðis- og menntakerfi í alþjóðlegum samanburði og lýðræðissamfélag sem jafnframt drægi til sín alþjóðlega strauma. Háskólinn hefði sjálfur á þeim rúmlega hundrað árum sem hann hefði starfað breyst úr embættismannaskóla í alþjóðlegan rannsóknarháskóla þar sem 13 þúsund stúdentar stunda nú nám, þar af um 1200 erlendir nemar.
Þjóðverjar hafa um langt skeið haft mikinn áhuga á íslenskum bókmenntum og tungu og til merkis um það leggur töluverður fjöldi nemenda stund á íslensku við Nordeuropa-Institut. Rektor ræddi um tungumálið í erindi sínu og benti m.a. á að íslenska málsamfélagið teldist til þeirra minnstu í heiminum. Hröð tækniþróun samtímans og aukin áhrif enskunnar í samfélaginu hefðu í för með sér fjölmargar áskoranir fyrir varðveislu tungumálsins. Háskóli Íslands hefði ríkar skyldur í þeim efnum enda helsti vettvangur íslenskurannsókna og -náms á Íslandi.
Í heimsókninni skoðaði rektor einnig háskólabókasafn Humboldt-háskóla og þá sérstaklega Grimm-bókasafnið en þar er að finna sex milljónir titla, þar á meðal einkasafn bræðranna Jakobs og Wilhelms Grimm sem ævintýrin frægu eru kennd við.
Í ferðinni til Þýskalands fundaði Jón Atli fundaði með Martin Eyjólfssyni, sendiherra Íslands í Berlín. Þeir ræddu m.a. samstarf Háskóla Íslands við þýska háskóla og stofnanir en þess má geta að Þjóðverjar eru fjölmennastir erlendra nemenda við Háskóla Íslands.

