Rektor heimsótti Fróðskaparsetur Færeyja

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, heimsótti í liðinni viku Fróðskaparsetur Færeyja og flutti þar erindi um Háskóla Íslands í fortíð, nútíð og framtíð.
Þetta er fyrsta heimsókn rektors til Færeyja en starfsbróðir hans, Sigurð í Jákupsstovu, heimsótti Háskóla Íslands á síðasta ári í tengslum við undirritun viðauka við samstarfssamning skólanna og ráðstefnuna Frændafund.
Í erindi sínu, sem haldið var í Hjúkrunarfræði-, sagnfræði- og samfélagsvísindahúsi skólans, fór Jón Atli yfir sögu Háskóla Íslands og skipulag, nýja stefnu skólans til ársins 2021 og þá samfélagslegu ábyrgð sem Háskólinn leggur áherslu á í starfi sínu. Þá fór hann yfir það á hvernig skólinn hefði eflst sem alþjóðlegur rannsóknaháskóli á síðustu árum en það skilaði sér m.a. í auknum tækifærum nemenda til rannsókna og náms við erlenda samstarfsskóla. Rektor vék sérstaklega að íslenskri tungu og þeirri ógn sem stafaði að henni í heimi stafrænnar tækni og fór yfir þau skref sem Háskólinn hefði stigið til þess að styðja við þessa frændtungu færeyskunnar.
Í heimsókn sinni í Færeyjum átti rektor m.a. fund með starfsbróður sínum, Sigurð í Jákupsstovu, rektor Fróðskaparsetursins og deildarforsetum skólans. Einnig heimsótti hann nýsköpunarmiðstöðina iNova í Þórshöfn og ræddi m.a. við forstöðumann hennar, Janus Vang. Mikill áhugi á auknu samstarfi við Háskóla Íslands kom fram í heimsókninni.
Háskóli Íslands og Fróðskaparsetur Færeyja hafa átt afar gott samstarf í gegnum sérstakan samstarfssamning allt frá árinu 2009. Skólarnir standa jafnframt saman að ráðstefnunni Frændafundi sem haldin er þriðja hvert ár til skiptis á Íslandi og í Færeyjum. Þar hittast fræðimenn af öllum sviðum skólanna og ræða efni og kynna rannsóknir sem snerta Ísland og Færeyjar.






