Skip to main content
28. mars 2025

Prófa nýja fótapressu til að verja eldra fólk gegn vöðvatapi

Prófa nýja fótapressu til að verja eldra fólk gegn vöðvatapi - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Ef fólk er ekki með nægan vöðvamassa til þess að halda sér uppi þá næstum því skiptir ekki máli hvað ég lækna marga sjúkdóma,“ segir Anna Björg Jónsdóttir, aðjunkt við Háskóla Íslands og öldrunarlæknir á Landspítalanum. Hún vinnu ásamt samstarfsfólki að rannsókn sem miðar að því að verja aldrað fólk gegn vöðvatapi með nýrri tegund fótapressu. 

Anna Björg segir mikilvægt að eldra fólk sem er veikt hreyfi sig þar sem rannsóknir hafa sýnt að skortur á hreyfingu leiði til þess að fólk tapi vöðvamassa. Hugmyndafræðin á bak við rannsóknina snúist því um að sýna fram á að það að auka vöðvamassann hjálpi viðkomandi til þess að ná heilsu aftur og flýti fyrir batanum.

Taka allan hópinn á Landakoti til rannsóknar

Rannsóknin fer fram á Landspítalanum á Landakoti þar sem finna má veika einskaklinga sem eru 67 ára og eldri sem er helsti markhópur rannsóknarinnar. Anna Björg segir helsta styrkleika rannsóknarinnar þann að þau taki allan þann hóp til rannsóknar og útiloki ekki neinn frá rannsókninni.

„Í rannsókninni erum við að hugsa um veikasta hópinn. Mjög oft þegar er verið að gera rannsóknir eru þeir allra elstu teknir út fyrir sviga og eru ekki með. Eins ef fólk er með mjög marga sjúkdóma eða ef viðkomandi er með heilabilunarsjúkdóm þá eru þeir ekki með í rannsókn. Í okkar rannsókn erum við með alla þessa hópa undir. Við erum að taka hópinn eins og hann er. Þetta er bara raunveruleikinn,“ segir Anna Björg. Hún nefnir þó að að eini hópurinn sem þau geti ekki tekið inn í rannsóknina séu einstaklingar sem hafi farið í aflimun á fótum þar sem rannsóknin byggist á því að prófa ákveðin tæki til þess að auka vöðvamassa í neðri útlimum.

„Þegar ég var að byrja að vinna sem öldrunarlæknir hugsaði maður rosa mikið um sjúkdómana, maður var mjög fókuseraður á lyfin og sjúkdómana. Svo lærir maður og sér að það þarf að hugsa um þetta líka. Þetta er því svona eðlilegt framhald af mínu faglega lífi,“ segir Anna Björg. MYND/Kristinn Ingvarsson

Vilja bæta heilsu og líðan eldra fólks

Anna Björg nefnir að öldrunarlæknar horfi heildrænt á einstaklinginn en ekki bara þann sjúkdóm sem hrjái hann. Einnig horfi þeir á félagslegar aðstæður, hvernig fólk býr og heildarlífsskilyrði þess, en þar skipti næring, hreyfing og styrktarþjálfun miklu máli. „Ef þú hefur ekki vöðvana til þess að standa sjálfur á fætur þá gengur allt hitt svo illa, það er ekki hægt að horfa fram hjá þessu hluta,“ bendir hún á.

Anna Björg og teymið sem sér um rannsóknina hefur mikinn áhuga á að bæta heilsu og líðan eldra fólks og trúa því að það skipti máli að auka vöðvamassann. Þessi áhugi hafi verið kveikjan að rannsókninni og hann hafi kviknað eftir að hún byrjaði að vinna sem öldrunarlæknir.
„Þegar ég var að byrja að vinna sem öldrunarlæknir hugsaði maður rosa mikið um sjúkdómana, maður var mjög fókuseraður á lyfin og sjúkdómana. Svo lærir maður og sér að það þarf að hugsa um þetta líka. Þetta er því svona eðlilegt framhald af mínu faglega lífi,“ segir Anna Björg.

Teymisvinna lykilatriði í rannsókninni

Anna Björg segir að í rannsókninni felist mikil teymisvinna en auk hennar koma þeir Arnar Hafsteinsson, íþróttafræðingur og doktorsnemi, og Alfons Ramel, prófessor í næringarfræði, að rannsókninni. „Ég er ekki ein í þessu og það er ekki hægt að gera þetta nema að það sé gott teymi með, ég væri ekkert án teymisins. Í raun og veru allt sem snýr að hinum aldraða sem er veikur krefst þess að fólk komi að með mismunandi fagþekkingu. Í þessari rannsókn eru íþróttafræðingur, næringarfræðingur og öldrunarlæknir og hvert okkar kemur með sína fagþekkingu að borðinu,“ segir hún.

Vonir um nýjar áherslur í endurhæfingu aldraðra

Ekki eru komnar niðurstöður úr rannsókninni þar sem hún er enn á byrjunarstigi en Anna Björg vonast til þess að geta sýnt fram á með rannsókninni að í endurhæfingu eldra fólks þurfi að leggja áherslu á það að sporna gegn vöðvatapi, sérstaklega fyrir eldra fólk sem er veikt eða er að stíga upp úr veikindum.

„Það skiptir máli að þetta komist inn í almenna praxís. Nú er ég ekki bara rannsakandi heldur starfa ég líka sem læknir. Ég er því að vinna við þetta þannig að fyrir mig skiptir svo miklu máli að við getum svo innleitt þetta inn í starfið og að það leiði til góðs fyrir einstaklinginn. Það er það sem skiptir máli og þess vegna erum við að þessu.“ segir Anna Björg.

Höfundur greinar: Theódóra Guðný Vilhjálmsdóttir, nemi í blaðamennsku.

anna Björg Jónsdóttir

„Ef fólk er ekki með nægan vöðvamassa til þess að halda sér uppi þá næstum því skiptir ekki máli hvað ég lækna marga sjúkdóma,“ segir Anna Björg Jónsdóttir, aðjunkt við Háskóla Íslands og öldrunarlæknir á Landspítalanum. MYND/Kristinn Ingvarsson