Skip to main content
2. júlí 2025

Ólympíuliðin í raungreinum æfa sig af kappi í HÍ

Ólympíuliðin í raungreinum æfa sig af kappi í HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ólympíulið Íslands í raungreinum standa í ströngu þessa dagana en þau æft sig fyrir þátttöku í alþjóðlegum mótum í húsakynnum HÍ undanfarnar vikur. Líkt og undanfarin ár litu þau inn á rektorsskrifstofu og ræddu við Jón Atla Bendiktsson, þáverandi rektor, um verkefni sumarsins.

Alls eru liðin fjögur, í eðlisfræði, efnafræði, líffræði og stærðfræði. Hvert lið skipa þeir framhaldsskólanemar sem náð hafa bestum árangri í árlegum landskeppnum í greinunum sem fram fara á hverju skólaári. Liðin nýta sér ekki aðeins aðstöðu Háskóla Íslands heldur njóta þau öll leiðsagnar nemenda og starfsfólks skólans í undirbúningi fyrir mót sumarsins.

edlisfraedi

Ólympíuliðið í eðlisfræði skipa þau Anna Koziel, Davíð Smith Hjálmtýsson, Fannar Grétarsson, Isor Smári Gurung, Sigurður Baldvin Ólafsson, Andrea Erla Guðmarsdóttir, Elvar Magnússon og Hrafn Ingi Gunnarsson. Þau hafa að undanförnu stundað stífar æfingar í VR I og VR II en auk þess var liðið eina viku í Háskólanum í Reykjavík.

Þjálfun liðsins er í höndum stórs hóps nemenda og kennara við Háskóla Íslands auk starfsfólks við Menntaskólann í Reykjavík, Flensborg og Háskólann í Reykjavík. Matthias Harksen, doktorsnemi í eðlisfræði við HÍ, fer fyrir hópnum sem annast þjálfun liðsins, og Unnar Bjarni Arnalds, prófessor í eðlsifræði, hefur umsjón með verklegri þjálfun.

Landsliðið í eðlisfræði tekur þátt í tveimur mótum í sumar. Hluti hópsins tók þátt í Alþjóðlegu ólympíuleikunum í eðlisfræði (IPhO) 18.-24. júlí í París og hluti Evrópsku ólympíuleikunum í eðlisfræði (EuPhO) 13.-17. júní í Sofia í Búlgaríu.

Italian Trulli

Ólympíuliðið í stærðfræði er skipað þeim Álfrúnu Haraldsdóttur, Jóakim Una Arnaldarsyni, Magnúsi Thor Holloway, Tómasi Friðrik Þorbjörnssyni, Val Einari Georgssyni og Þorsteini Snæland.

Stór hópur innan og utan HÍ kemur að þjálfuninni en það eru þeir Atli Fannar Franklín, Matthías Hrafnkelson, Marteinn Þór Harðarson, Elvar Wang Atlason, Viktor Már Guðmundsson, Benedikt Vilji Magnússon og Sigurður Jens Albertsson.

Liðið hefur verið við æfingar í VR II en heldur út til Sorö í Danmörku í byrjun júlí og tekur þátt í samnorrænum æfingabúðum ásamt tveimur æfingakeppnum sem nefnast Viking Battle. Hvort tveggja er undirbúningur fyrir Ólympíukeppnina í stærðfræði sem sem fer fram í Sunshine Coast í Ástralíu 10.-20. júlí.

Liffraedi

Ólympíuliðið í líffræði hefur verið við æfingar í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ, en liðið skipa þau Ása Dagrún Geirsdóttir, Jóakim Uni Arnaldarson, Merkúr Máni Hermannsson, Muhammad Shayan Ijaz Sulehria.

Þau hyggja á langt ferðalag í sumar enda fer Ólympíumótið í líffræði fram í Quezon á Filippseyjum að þessu sinni dagana 20.-27. júlí.

Þjálfararliðsins eru þeir Ólafur Patrick Ólafsson, Magnús Máni Sigurgeirsson, og Viktor Logi Þórisson sem jafnframt gegna hlutverki dómnefndarfulltrúa Íslands í keppninni.

efnafraedi

Ólympíuliðið í efnafræði skipa þeir Bergur Fáfnir Bjarnason, Kristján Geir Hirlekar, Tryggvi Kormákur Hávarðarson og Erik Yngvi Brannan en þeir voru allir að útskrifast úr framhaldsskóla í vor.

Liðið nýtur leiðsagnar fimm þjálfar en það eru þau Katrín Lilja Sigurðardóttir, Þorsteinn Hálfdánarson, Már Björgvinsson, Sigurður Guðni Gunnarsson og Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson.

Ólympíuliðið í efnafræði hefur verið við stífar æfingar í byggingunum VR I og VR II á háskólasvæðinu en það heldur svo til Gautaborgar í Svíþjóð til þátttöku í Norrænu efnafræðikeppninni (NChO) í júlí og tekur svo þátt í Alþjóðlegu Ólympíukeppninni í efnafræði (IChO) í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þau Katrín Lilja, Þorsteinn og Sigurður Guðni fara utan með liðinu.

Ólympíuliðin fjögur ásamt fyrrverandi rektor og forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.