Skip to main content
12. nóvember 2024

Nýtt hlaðvarp um ferðamál á Íslandi á vegum fræðafólks HÍ

Nýtt hlaðvarp um ferðamál á Íslandi á vegum fræðafólks HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ferðamál á Íslandi – Rannsóknir og raunheimar er heitið á nýju hlaðvarpi sem þrír fræðimenn í ferðamálafræði við Háskóla Íslands hafa hleypt af stokkunum. Markmið þess er að efla faglega umræðu um þessa mikilvægu atvinnugrein.

Eins og flestum sem fylgst hafa með íslensku samfélagi er kunnugt hefur ferðaþjónusta á Íslandi vaxið afar ört á undanförnum árum og um leið hefur Ísland breyst úr því að vera frumvinnslusamfélag í þjónustumiðað hagkerfi. Samhliða þessu hefur rannsóknum, nýsköpun og þróunarstarfi í ferðamálafræði fleygt fram og endurspeglast það vel í umfjölluninni í þáttunum. 

Umsjónarmenn hlaðvarpsins eru þau Gunnar Þór Jóhannesson prófessor, Magnús Haukur Ásgeirsson, aðjunkt og doktorsnemi, og Magdalena Falter, nýútskrifaður doktor í ferðamálafræði, en þau eru öll kennarar og rannsakendur við námsbraut í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands.

Markmið þeirra með hlaðvarpinu er að styrkja umræðu um ferðamál á faglegum grundvelli og kveikjan að þeim er ekki síst sú að gera rannsóknir í greininni sýnilegri og aðgengilegri. Þátttastjórnendur fjalla hins vegar ekki aðeins um rannsóknir sínar og kollega sinna heldur taka þau á móti fjölbreyttum hópi fólks úr ferðaþjónstu, sem starfar t.d. í stoðkerfi ferðaþjónustunnar eða vinnur að nýsköpunarverkefnum í geiranum, og ræðir við það um viðfangsefni eins og sjálfbærni og menningu í ferðaþjónustu, náttúruna sem auðlind í ferðaþjónustu, nýsköpun í ferðaþjónustu á landsbyggðinni, samstarfsvettvang til að efla rannsóknir í greininni og nærandi ferðaþjónustu.

Fimm þættir hafa þegar litið dagsins ljós  og hér að neðan má kynna sér efni þeirra og nálgast upptöku af þeim. 

Inngangsþáttur: Kynning á umsjónarmönnum og hlaðvarpinu

Í inngangsþætti hlaðvarpsins kynna þáttastjórnendur sig sjálf og ræða bakgrunn sinn og hvernig þau hófu starf á sviði ferðamálafræði ásamt því að fjalla um tilgang og markmið hlaðvarpsins.

Þáttur 1: Sjálfbærni í ferðaþjónustu

Í þessum þætti er rætt um víðtækt efni, sjálfbærni í ferðaþjónustu, með Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra Íslenska ferðaklasans. Við fáum að vita meira um verkefni sem verið er að vinna að á vettvangi Ferðaklasans þar sem glímt er við áskoranir sem fylgja sjálfbærri þróun. Þá ræðir Ásta Kristín um leið sína inn í ferðamálin og við kynnumst skoðunum, framtíðarsýn og hugleiðingum hennar um þróun ferðaþjónustunnar til framtíðar.

Þáttur 2: Menning í ferðaþjónustu

Gestur þessa þáttar er Katrín Anna Lund, prófessor í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Hún ræðir við þáttastjórnendur um hlutverk menningar í ferðaþjónustu, bæði á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi, hvernig menningarferðaþjónusta getur birst í framkvæmd og hvort öll ferðaþjónusta sé í grunninn menningarferðaþjónusta. 

Þáttur 3: FIERI – Fostering Innovation Ecosystems in Rural Iceland
Í þessum þætti kynnumst við FIERI-teyminu. FIERI stendur fyrir Fostering Innovation Ecosystems in Rural Iceland og í teyminu eru Arnar Sigurðsson, Matthias Kokorsch, Sigurborg Kr. Hannesdóttir og Magdalena Falter. Við ræðum um nálgun FIERI-teymisins á nýsköpun í dreifbýli á Íslandi og áskoranir og möguleika frumkvöðlastarfs og nýsköpunar í ferðaþjónustu.

Þáttur 4: Regenerative Tourism as a driving Force for Community Development (á ensku)
Gestur dagsins er  Jessica Aquino, dósent við Háskólann á Hólum. Við ræðum við hana um nærandi (e. Regenerative) ferðaþjónustu og tengsl hennar við samfélagsþróun. Jessica, sem á ættir að rekja til Brasilíu og Costa Rica, tengir þessa nýlegu þróun við heimsmynd frumbyggja og og stöðu í ferðamálum á Íslandi.

Þáttur 5: Trúnó – Hvernig er ad vera doktorsnemi?
Trúnóviðvörun! Í þessum 5. þætti leiða doktorsnemarnir Elva Björg Einarsdóttir og Tinna Gunnarsdóttir okkur í sannleikann um hvernig það er að vera doktorsnemi. Ef þú ert mögulega að íhuga doktorsnám eða ert að skrifa doktorsritgerð mælum við eindregið með þessum þætti um drauma, sorgir og upprisu doktorsnema.

Fleiri þættir bætast svo við á næstu vikum á hlaðvarpsrás Ferðamála á Íslandi á YouTube.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Umsjónarmenn hlaðvarpsins eru þau Magdalena Falter, nýútskrifaður doktor í ferðamálafræði, Gunnar Þór Jóhannesson prófessor og Magnús Haukur Ásgeirsson, aðjunkt og doktorsnemi en þau eru öll kennarar og rannsakendur við námsbraut í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands.