Ný bók um sjónarmið barna um tengsl skóla og frístundaheimila
Út er komin bókin Listening to Children’s Advice about Starting School and School Age Care í ritstjórn Sue Dockett prófessors við Charles Sturt háskóla í Ástralíu, Jóhönnu Einarsdóttur prófessors við Háskóla Íslands, og Bob Perry prófessors emeritus einnig við Charles Sturt háskóla.
Bókin skiptist í ellefu kafla sem allir leggja áherslu á mikilvægi þess að hlusta á sjónarmið barna á mótum skólastiga og frístundaheimila. Umfjöllunin er greinandi og gagnrýnin og veltir upp aðferðafræðilegum álitamálum í rannsóknum með börnum og hvernig bregðast megi við sjónarmiðum barna á þeim mikilvægum tímamótum þegar þau flytjast milli skólastiga.
Kaflarnir greina frá rannsóknum í sjö löndum sem veita hagnýta jafnt sem fræðilega innsýn í sjónarmið barna og hvetja kennara til að ígrunda starf sitt. Leitast er við að tengja kenningar og fræðilega umfjöllun við starfshætti í skólum og frístundaheimilum.
Í kynningu á bókinni kemur fram að hún eigi mikilvægt erindi við fræðimenn, nema í menntunarfræðum, sem og kennara og tómstundafræðinga á vettvangi. Auk Jóhönnu skrifa þær Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, og Sara M. Ólafsdóttir, verkefnisstjóri við sama svið, kafla í bókina.
Hið þekkta bókaforlag Routledge gefur bókina út.