Skip to main content
7. nóvember 2016

Ný bók um siðfræði og samfélagsábyrgð

""

Siðfræðistofnun og Háskólaútgáfan hafa gefið út bókina „Siðfræði og samfélagsábyrgð“ í íslenskri þýðingu Jóns Ólafssonar prófessors.

Af því tilefni flytur höfundur bókarinnar, Øyvind Kvalnes, dósent í viðskiptasiðfræði við Handelshøyskolen í Osló, fyrirlestur í Þjóðminjasafninu miðvikudaginn 9. nóvember kl. 16. Øyvind mun fjalla um siðareglur starfstétta og þá tilhneigingu að fylgja þeim bókstaflega og líta svo á að það sem ekki er sérstaklega nefnt í þeim sé siðferðilega heimilt. Bókin verður til sölu á sérstöku tilboðsverði að fyrirlestri loknum.

Bókin „Siðfræði og samfélagsábyrgð“ fjallar á aðgengilegan hátt um siðfræði í atvinnulífi. Hún nýtir helstu kenningar siðfræðinnar til að sýna hvernig takast megi á við siðferðileg álitamál. Auk þess að kynna lesandann fyrir leiðum siðfræðinnar, skýrir höfundurinn sálfræðilega og hagfræðilega þætti sem koma við sögu í daglegum ákvörðunum.

Øyvind Kvalnes hefur langa reynslu af ráðgjöf og stýrði um árabil heimspekilegri ráðgjafastofnun, Humanistisk Akademi, í Ósló. Øyvind lauk doktorsprófi í heimspeki frá Háskólanum í Ósló 1998. Hann er höfundur fjölda bóka og ritgerða um hagnýtta siðfræði og siðfræði í atvinnulífi eða viðskiptasiðfræði.

Øyvind Kvalnes
Øyvind Kvalnes