Nóbelshátíð Heilbrigðisvísindasviðs 2025

Miðvikudaginn 10. desember voru Nóbelsverðlaun í læknisfræði afhent í Stokkhólmi. Verðlaunin að þessu sinni féllu í skaut Japananum Shimon Sakaguchi og Mary Brunkow og Fred Ramsdell frá Bandaríkjunum fyrir uppgötvanir þeirra á tilurð T stýrifrumna og hlutverki þeirra í útvefjaþoli (Peripheral immune tolerance). Þessar T stýrifrumur taka þátt í að verja líkamann fyrir sjálfsónæmi, sem myndast þegar ónæmiskerfið fer að ráðast á eigin sameindir og vefi. Verið er að þróa leiðir til að nota T stýrifrumur sem meðferð við sjálfsónæmi og til að koma í veg fyrir vefjahöfnun í kjölfar líffæraígræðslna.
Að þessu tilefni boðaði forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ, Unnur Anna Valdimarsdóttir, til Nóbelshátíðar sviðsins í Læknagarði þar sem Jóna Freysdóttir prófessor flutti erindi þar sem hún tæpti á því helsta í uppgötvunum Nóbelsverðlaunahafanna.
Að erindi Jónu loknu veitti Eiríkur Steingrímsson, prófessor og formaður Vísindanefndar Heilbrigðisvísindasviðs, viðurkenningar fyrir áhrifamestu vísindagreinar ársins á sviðinu. Eftirfarandi vísindagreinar hlutu viðurkenningar og voru í framhaldinu kynntar í stuttu máli fyrir gestum.
Klínísk vísindi:
New Definition of Light Chain Monoclonal Gammopathy of Undetermined Significance - Þórir Einarson Long og Sigurður Yngvi Kristinsson
Lífvísindi:
In utero rescue of neurological dysfunction in a mouse model of Wiedemann-Steiner syndrome - Tinna Reynisdóttir og Hans Tómas Björnsson
Lýðheilsuvísindi:
Exploring ultra-processed food consumption: adherence to food-based dietary guidelines, nutrient intake and the associated greenhouse gas emissions in Iceland - Steina Gunnarsdóttir og Bryndís Eva Birgisdóttir
Verðlaunahöfum er öllum óskað til hamingju og velfarnaðar í sínum störfum.
Að athöfn lokinni voru veittar léttar veitingar auk þess sem Háskólakórinn undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar söng nokkur jólalög.





