Miðað við að gjaldtaka á bílastæðum HÍ hefjist um áramót
Vinna við innleiðingu gjaldtöku fyrir bílastæði á háskólasvæðinu hefur tekið lengri tíma en ætlað var og miðað er við að gjaldtaka hefjist um áramót. Henni verður stillt í hóf. Málið verður rætt á næsta fundi háskólaráðs, þar á meðal hvernig tímalína innleiðingar gæti litið út.
Gjald verður almennt tekið fyrir notkun bílastæða frá kl. 8-16 á virkum dögum. Bílastæðum verður skipt í tvö gjaldsvæði (sjá mynd neðst í fréttinni):
- Á svæði A eru valin stæði næst byggingum þar sem alltaf verður tekið gjald líkt og hefur verið í Skeifunni við Aðalbyggingu og við Gimli. Þessum stæðum verður fjölgað og verða þau rúmlega 200 af um 1.700 bílastæðum á háskólasvæðinu. Á meðfylgjandi mynd eru slík svæði merkt með rauðum lit.
- Önnur stæði eru á svæði B þar sem einnig verður tekið almennt gjald, en nemendur og starfsfólk geta skráð bifreiðir sínar til að fá heimild til að leggja á þeim stæðum án annarrar þóknunar en hóflegs skráningargjalds. Slík stæði eru merkt bláum lit á myndinni. Unnt verður að afskrá ökutæki hvenær sem er og gildir uppsögn frá og með næsta mánuði á eftir.
Handhöfum stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða verður eftir sem áður heimilt að leggja ökutæki í gjaldskylt bifreiðastæði án sérstakrar greiðslu skv. gildandi umferðalögum.
Haft hefur verið náið samráð við Landspítalann og aðrar nágrannastofnanir við undirbúning málsins og verður þess m.a. gætt að nemendur og starfsfólk í heilbrigðisgreinum, sem eiga erindi bæði á lóð Háskóla Íslands og Landspítalans, greiði ekki tvisvar.
Þetta verkefni er fyrsta skref HÍ í að hvetja fólk til að ferðast til og frá háskólasvæðinu með vistvænum hætti og er jákvætt framlag til öruggari og umhverfisvænni umferðar við Háskóla Íslands.
Samhliða innleiðingunni er unnið markvisst að uppbyggingu vistvænna samgöngumáta, s.s. með gerð hjólaskýla og annarrar aðstöðu fyrir hjólreiðafólk. Þá er áætlað að fyrsti leggur Borgarlínu muni liggja um háskólasvæðið og verði tekin í gagnið innan fárra ára.
Nýtt fyrirkomulag verður kynnt nánar þegar nær dregur.
Frétt hefur verið uppfærð