Metþátttaka í starfsþjálfunardögum við HÍ

Á sjöunda tug starfsmanna við erlenda samstarfsskóla tóku þátt í starfsþjálfunardögum við Háskóla Íslands sem lauk í dag. Þátttakendur komu frá 26 þjóðlöndum, þar á meðal frá Suður-Afríku, Kína og Taiwan.
Fjölbreytt dagskrá var í boði sem m.a. samanstóð af kynningum, vinnustofum, heimsóknum á fræðasvið og móttöku. Þá var þáttakendum boðið í leiðsögn um háskólasvæðið og Íslandssöguna í hnotskurn. Hluti dagskrár var sameiginlegur en síðan var þátttakendum skipt upp í tvo hópa eftir starfssviði. Dagskránni lauk svo með ferð í Hellisheiðarvirkjun, Krýsuvík og Strandakirkju.
Skrifstofa alþjóðasamskipta og markaðs- og samskiptasvið stóðu fyrir starfsþjálfunardögunum en dagskráin var sniðin að þeim sem vinna við alþjóðamál og markaðs- og kynningarmál.












