Metfjöldi námskeiða í Háskóla unga fólksins í vikunni

Afbrotafræði, edfjallanámskeið, leirsmiðja, listfræði, lífsleikni, rússneska, steinsteypusmiðja, umhverfis- og auðlindafræði og vefsmíði er meðal nýrra námskeiða sem í boði verða í Háskóla unga fólksins sem stendur yfir dagana 12.-16. júní í Háskóla Íslands. Uppselt er í skólann líkt og undanfarin ár og munu 350 nemendur á aldrinum 12-16 ára sækja metfjölda námskeiða sem eru í boði að þessu sinni, eða 55 námskeið sem tengjast öllum fræðasviðum Háskóla Íslands.
Háskóli unga fólksins er nú starfræktur í fjórtánda sinn í Háskóla Íslands en hann hefur notið gríðarlegra vinsælda meðal ungu kynslóðarinnar undanfarin ár og hlaut m.a. Fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar á síðasta ári. Nemendur í skólanum kynna sér ótal greinar sem kenndar eru við Háskóla Íslands og skemmta sér þess á milli í skipulögðum leikjum á túninu fyrir framan Aðalbyggingu. Þessi stóri hópur mun því sannarlega lífga upp á háskólasvæðið í vikunni.
Fyrirkomulag kennslunnar í ár verður með þeim hætti að nemendur sækja þrjú námskeið sem standa yfir í tvo daga, einn þemadag og fimm örnámskeið og bjuggu nemendur til sína eigin stundatöflu í umsóknarferlinu. Nemendur þurftu að vanda valið enda fjölmörg námskeið í boði sem fyrr segir, t.d. Biophilia-tónvísindasmiðjur, eðlisfræði, endurlífgun, forritun, hugmyndasaga, lyfjafræði, Miðausturlandafræði, skurðlækningar, stjórnmálafræði, stærðfræði og margt fleira.
Sérstakur þemadagur verður í Háskóla unga fólksins miðvikudaginn 14. júní en þá verja nemendur heilum degi í tilteknum greinum og fara vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið og jafnvel víðar. Þetta árið má finna nýjungar á þemadeginum eins og FabLab og stafræna tækni, Mannréttindi um víða veröld og Lífsleikni – leiklist – gleði en þar skapa nemendur sína eigin sögu þar sem leiklist, tjáning, samræða og skapandi vinnubrögð fléttast saman svo úr verður leikverk. Af öðrum námskeiðum á þemadegi má nefna smíði kappakstursbíls, landnámsmenn – víkingar – miðaldir, stjórnmála- og kynjafræði, tómstunda- og félagsmálafræði og forritun.
Hátt í hundrað nemendur og kennarar í Háskóla Íslands koma að kennslu í Háskóla unga fólksins.
Sem fyrr segir verður nemendum einnig boðið upp á útileiki í hádeginu á meðan á skólanum stendur auk þess haldin verður grillveisla og efnt til glæsilegrar lokahátíðar í Háskólabíói föstudaginn 16. júní kl. 13. Á lokahátíðinni fá nemendur afhent viðurkenningarskjal fyrir þátttöku í skólanum og nemendur í þemadeginum lífsleikni – leiklist – gleði verða með skemmtiatriði. Foreldrum, forráðamönnum og systkinum er einnig boðið á lokahátíðina. Eftir lokahátíðina verður boðið upp á kraumandi vísindagleði í anddyri Háskólabíós með listfræði, lífsleikni, jarðvísindum, fornleifafræði, vindmyllum, stjörnukíki, japönskum fræðum, furðuspeglum og fleiru fræðandi og spennandi.
