Skip to main content
28. maí 2015

Málbreytingar Attenboroughs á ráðstefnu í HÍ

Liðlega 70 fræðimenn frá öllum heimshornum koma saman í Háskóla Íslands dagana 29.-31. maí til alþjóðlegrar ráðstefnu um sögulega setningafræði. Ráðstefnan ber yfirskriftina The 17th Diachronic Generative Syntax (DiGS17) og er viðfangsefnið söguleg setningafræði og málbreytingar frá sjónarhorni málkunnáttufræði.

Ráðstefnan hefur verið haldin víðs vegar í Evrópu og Bandaríkjunum en nú býður Málvísindastofnun til þeirrar fyrstu á Íslandi.

Þótt ráðstefnan snúist um sögulega setningafræði eru viðfangsefni fyrirlestranna tengd nútímanum á ýmsan hátt. Meðal fyrirlesara er dr. Laurel MacKenzie, prófessor við Manchester-háskóla, en hún rannsakar málbreytingar sem eiga sér stað á lífsleið einstaklinga. MacKenzie kynnir nýja rannsókn á breytingum í máli Sir Davids Attenborough í gegnum árin en hún hefur einnig rannsakað málbreytingar í lífi fleiri þekktra einstaklinga, eins og David Beckham, í samvinnu við nemendur sína í Manchester. Þessar rannsóknir á málbreytingum á lífsleiðinni hafa vakið mikla athygli enda hugsa málfræðingar yfirleitt um breytingar á tungumálum út frá mun á kynslóðum sem voru uppi á ólíkum tímum.

Fjölmargir aðrir fyrirlestrar verða fluttir um alþjóðlegar rannsóknir á sögulegri setningafræði og tilbrigðum í máli og má nálgast dagskrána á heimasíðu ráðstefnunnar.

Rannsóknir í sögulegri setningarfræði snúast ekki aðeins um fjarlæga fortíð heldur breytingar í samtímanum.