Kortleggja lyf sem geta valdið óráði

Um miðjan september var haldið málþing í Reykjavík á vegum Háskóla Íslands, Landspítala og Háskólans í Innsbruck sem var ætlað að skapa vettvang fyrir þverfaglegt samtal um lyfjaöryggi, rannsóknir og klíníska nýsköpun, með það að leiðarljósi að stuðla að bættum gæðum og auknu öryggi sjúklinga í tengslum við óráð.
Undanfarin ár hefur Háskóli Íslands, í samstarfi við Landspítala, átt í öflugu rannsóknarsamstarfi við Háskólann í Innsbruck í Austurríki, einkum prófessor Anitu Weidmann, á þessu sviði. Rannsóknarhópurinn sem leiddur er af Freyju Jónsdóttur, dósent við Lyfjafræðideild, fyrir hönd Háskóla Íslands hefur einkum beint sjónum að lyfjum sem hugsanlega geta verið orsakaþáttur í þróun óráðs meðal ólíkra sjúklingahópa með það að markmiði að leggja grunn að alþjóðlegum klínískum leiðbeiningum á þessu sviði.
Áhættuhópar
Óráð (delirum) er heilkenni sem einkennist af truflun á athygli, meðvitund, vitrænni getu og skyntúlkun. Óráð byrjar skyndilega og hefur sveiflukenndan gang. Óráð er algengt, alvarlegt og flókið vandamál sem tengist slæmum horfum þeirra sem það fá. Með því að bregðast hratt og rétt við má koma í veg fyrir óráð og bæta batahorfur. Ákveðnir sjúklingahópar eru í sérstakri áhættu á að fá óráð líkt og sjúklingar með heilabilun, eldri einstaklingar og sjúklingar sem undirgangast skurðaðgerð.
Rannsóknarhópurinn COMeD
COMeD (COnsensus Guideline on Medication at Risk of Inducing a Delirium) rannósknarhópurinn vinnur að því að varpa ljósi á lyfjatengda áhættu í tengslum við þróun, meðferð og forvarnir óráðs hjá mismunandi sjúklingahópum (börnum, fullorðnum, þeim sem undirgangast skurðaðgerð og einnig þeim sem eru með heilabilun eða krabbamein). Markmiðið er eins og áður sagði að þróa ítarlegar, alþjóðlegar klínískar leiðbeiningar, en jafnframt að auka skilning á þætti lyfja í þróun óráðs í þessum sjúklingahópum. Fjöldi háskólanema við báða háskólana hefur fengið tækifæri til að stunda rannsóknir sem hluti af COMeD rannsóknarhópnum.
Meðfylgjandi eru hlekkir á tvær nýlegar greinar frá rannsóknarhópnum:
Medication Causes and Treatment of Delirium in Patients With and Without Dementia
Medication-induced causes of delirium in patients with and without dementia: a systematic review of published neurology guidelines
Íslenskt efni um óráð
