Jón Atli formlega tekinn inn í Bandarísku verkfræðiakademíuna

Jón Atli Benediktsson, prófessor í rafmagnsverkfræði og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, var á dögunum tekinn formlega inn í Bandarísku verkfræðiakademíuna (National Academy of Engineering/NAE) á árlegri ráðstefnu akademíunnar í Washington í Bandaríkjunum.
Viðurkenninguna hlýtur Jón Atli fyrir framlag til hönnunar og notkunar þróaðs vélræns náms og myndfræðilegra aðferða í greiningu upplýsinga frá mörgum mismunandi gagnalindum.

Jón Atli tekur við viðurkenningunni á árlegri ráðstefnu Bandarísku verkfræðiakademíunnar.
Aðild að akademíunni hljóta aðeins þeir sem hafa átt framúrskarandi framlag í þáttum sem snúa m.a. að verkfræðistörfum, rannsóknum, brautryðjendastarfi á sviði nýrra og framsækinna tækninýjunga, meiri háttar framfara á hefðbundnum sviðum verkfræði, að þróun eða innleiðingu nýstárlegra aðferða við verkfræðimenntun eða fyrir að sýna einstaka forystu í verkfræði. Litið er svo á að í akademíuna komist einungis þeir verkfræðingar sem hafa átt brýnt framlag til mannkyns í störfum sínum.
Það hefur Jón Atli sannarlega átt en hann hefur verið einn fremsti vísindamaður heims á sviði fjarkönnunar í hátt á annan áratug. Rannsóknir hans hafa snúið að þróun aðferða til að vinna upplýsingar úr fjarkönnunarmyndum sem fengnar eru með skynjurum frá flugvélum eða gervitunglum. Slíka myndir nýtast m.a. til að fylgjast með ýmsum breytingum á jörðinni, svo sem umhverfisbreytingum eins og bráðnun jökla og gróðureyðingu, ýmiss konar vá og hamförum, hafís og nýtingu auðlinda, svo fátt eitt sé nefnt. Gervigreind skipar æ meiri sess í úrvinnslu slíkra mynda og var hún einmitt í brennidepli á ráðstefnu NAE sem haldin var undir yfirskriftinni „Our Future with Artificial Intelligence: Opportunities and Risks“.

Fáni Íslands var á meðal þeirra sem dregnir voru að húni á viðurkenningarathöfninni.
Jón Atli hefur verið afar afkastamikill vísindamaður en eftir hann liggja m.a. yfir 400 ritrýndar vísindagreina. Þá hefur hann gegnt forystuhlutverkum innan alþjóðlegra samtaka vísindamanna á sviði fjarkönnunar og við ritstjórn alþjóðlegra tímarita á sviðinu. Jón Atli hefur hlotið margar alþjóðlegar og innlendar viðurkenningar fyrir vísindastörf sín og hefur undanfarin ár verið eini vísindamaðurinn sem starfar á Íslandi sem komist hefur á virtan alþjóðlegan lista Clarivate yfir áhrifamestu vísindamenn heims. Listinn nær til eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í vísindagreinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum.
Jón Atli hefur enn fremur sinnt nýsköpun af þrótti og stofnaði ásamt Einari Stefánssyni prófessor og fleirum sprotafyrirtækið Oxymap sem starfar að greiningu augnlæknisfræðilegra mynda.

Hópurinn sem tekinn var inn í Bandarísku verkfræðiakademíuna að þessu sinni.
Með inngöngu í Bandarísku verkfræðiakademíuna bætist Jón Atli í hóp afar virtra verkfræðinga og frumkvöðla en þess má geta að nokkrir af þekktustu frumkvöðlum heims eru í akademíunni, þeirra á meðal Bill Gates, forsprakki Microsoft, og Steve Jobs heitinn, frumkvöðull hjá Apple.

Jón Atli er annar Íslendingurinn sem fengið hefur sæti í akademíunni. Hinn er Bernharð Pálsson, gestaprófessor við HÍ og prófessor við Kaliforníuháskóla í San Diego, sem var kjörinn í akademíuna árið 2006. Hér eru þeir saman á ráðstefnunni.
Upptöku af því þegar nýir meðlimir voru teknir inn í Bandarísku verkfræðiakademíuna má nálgast á YouTube en sjá má Jón Atla taka við viðurkenningunni á 44. mínútu.
Upplýsingabækling um nýja meðlimi í akademíunni má finna hér.
