Skip to main content
30. janúar 2015

Japanshátíð á Háskólatorgi

""

Japanskar teiknimyndir, bardagalist, matur, menning og tónlist er meðal þess sem í boði verður á hinni árlegu Japanshátíð sem haldin verður á Háskólatorgi laugardaginn 31. janúar kl. 13-17. Þar fer jafnframt fram Cosplay-búningakeppni þar sem sigurvegaranum býðst að taka þátt í búningahönnunarkeppni í Svíþjóð.

Þetta er í ellefta sinn sem hátíðin er haldin. Sem fyrr stendur námsbraut í japönsku máli og menningu við Hugvísindasvið Háskóla Íslands að hátíðinni ásamt sendiráði Japans á Íslandi og hafa bæði nemendur í japönsku við Háskóla Íslands og samfélag Japana á Íslandi unnið hörðum höndum að undirbúningi síðustu vikur.

Gestum á Japanshátíð býðst m.a. að smakka japanskan mat, fá nafn sitt ritað á japönsku, kynnast japanskri tungu á sérstökum tungumálabás ásamt því að skoða glæsilega Ikebana-blómaskreytingu. Enn fremur geta gestir kynnt sér japanska list og listmuni ásamt leikjum og spreytt sig á bæði origami og manga-teikningu.

Japönsk dægurmenning mun einnig skipa veglegan sess á hátíðinni, þar á meðal heimildarmyndir, anime- og manga-teiknimyndir ásamt kvikmyndum og sjónvarpsþáttum frá Japan. Enn fremur verður kynning á japanskri dægurtónlist (J-pop) og þá mun hljómsveit spila lög úr þekktum Anime-teiknimyndum ásamt hefðbundinni japanskri tónlist. Jafnframt stíga sérfræðingar í japanskri bardagalist á stokk og sýna listir sínar.

Einn af hápunktum Japanshátíðarinnar síðustu ár hefur verið svokölluð Cosplay-búningakeppni en þar klæðast keppendur búningum byggðum á frægum persónum úr japönskum teiknimyndum. Ólíkt fyrri árum verður búningakeppnin í tveimur riðlum ár, masquerade, sem er fyrir alla og meira til gamans,  og svo cosplay þar sem fyrsti vinningur er ferð til Svíþjóðar til að taka þátt í búningahönnunarkeppni fyrir hönd Íslands. Yfir 15 þátttakendur hafa þegar skráð sig til leiks og ljóst er að samkeppnin um besta búninginn verður hörð.

Almennar upplýsingar um nám í japönsku, hina ýmsu skólastyrki og skiptinám við japanska háskóla verða aðgengilegar á hátíðinni en auk þess geta gestir kynnt sér Íslensk-japanska félagið og Félag Japansmenntaðra á Íslandi.

Ókeypis er á Japanshátíðina á Háskólatorgi og eru allir velkomnir.

""
Japanshátíð