Hugmynda- og vísindasaga, nýtt þverfaglegt meistaranám

Frá og með haustmisseri 2016 verður boðið upp á meistaranám (MA) í Hugmynda- og vísindasögu við Háskóla Íslands. Námið tekur að jafnaði tvö ár. Námsleiðin er samvinnuverkefni Hugvísindasviðs og Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, nánar tiltekið Sagnfræði- og heimspekideildar og Raunvísindadeildar.
Markmið námsins er að nemendur fái gott yfirlit yfir hugmynda- og vísindasögu, þjálfun í sjálfstæðum vinnubrögðum og rannsóknum en auk þess traustan undirbúning undir doktorsnám og störf á ýmsum sviðum atvinnu-, mennta- og menningarlífs.
Umsækjendur um námið þurfa að hafa lokið BA, BEd, BS eða sambærilegu háskólaprófi frá viðurkenndum háskóla með fyrstu einkunn (7,25) að lágmarki eða jafngildi hennar og skal lokaverkefni hafa hlotið fyrstu einkunn hið minnsta.
Námið skiptist í kjarnanámskeið (60e), sem öllum nemendum er ætlað að taka, og valnámskeið (30e). Nemendur skrifa meistararitgerð (30e).
Kjarnanámskeiðin eru kennd á vegum Sagnfræði- og heimspekideildar (40e) og Raunvísindadeildar (20e). Þeim er ætlað að kynna nemendum aðferðir í sögu hugmynda og vísinda, siðfræði vísinda og nokkur helstu viðfangsefni á þessu fræðasviði. Einnig er kjarnanámskeið í málstofuformi tengt undirbúningi nemenda fyrir ritun meistararitgerðar.
Valnámskeið sem nemendum stendur til boða að taka eru af ýmsum fræðasviðum háskólans. Meðal áhersluþátta eru stjórnmálahugmyndir, menningarhugmyndir (frelsi, eðli mannsins, siðferði, trú og saga menntunar), vísindasaga (heimsmynd og saga vísindagreina, þ.á m. líffræði, eðlisfræði og hagfræði) og tæknisaga.
Nánari upplýsingar í kennsluskrá Háskóla Íslands.

