Skip to main content
7. janúar 2025

Hlaut fálkaorðu fyrir brautryðjandastörf á sviði jarðskjálftavarna og umhverfisverndar

Hlaut fálkaorðu fyrir brautryðjandastörf á sviði jarðskjálftavarna og umhverfisverndar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Edvarð Júlíus Sólnes, prófessor emeritus í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands, var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á hátíðlegri athöfn á Bessastöðum á nýársdag. Viðurkenninguna hlýtur hann fyrir brautryðjandastörf á sviði jarðskjálftavarna og umhverfisverndar.

Júlíus lauk fyrrihlutaprófi í byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1958, lokaprófi í byggingarverkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet (DTU) árið 1961, sérfræðiprófi frá International Institute of Seismology and Earthquake Engineering í Tókíó árið 1964 og doktorsprófi í byggingarverkfræði árið 1966 frá DTU. Hann starfaði sem lektor við DTU á árunum 1970-1972 en sneri þá heim til Íslands og tók við stöðu prófessors í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands. Þeirri stöðu gegndi Júlíus allt til ársins 2007, að undanskildum árunum 1989-1991 þegar hann var  þingmaður og umhverfisráðherra.

Þegar Júlíus kom aftur til starfa við Háskólann að lokinni stjórnamálaþátttöku sinni 1991 varð hann deildarforseti verkfræðideildar HÍ. Hafði hann þá frumkvæði að því ásamt Gunnari G. Schram, forseta lagadeildar, að efnt var til kennslu og rannsókna í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands. 

Eftir Júlíus liggur fjöldi greina og rita á sviði jarðskjálftaverkfræði og jarðskjálftaáhættu og var hann m.a. aðalritstjóri stórvirkisins Náttúruvá á Íslandi sem kom út árið 2013. Júlíus hefur enn fremur látið sig umhverfis- og loftslagsmál varða um áratugaskeið og m.a. ritað greinar og bækur um loftslagsmál og veðurfarsbreytingar. Þekkstust bóka hans á því sviði er án efa en Climate Change: Cause – Effect – Mitigation sem kom út hjá Amazon.com árið 2023.

Júlíus var í hópi 14 Íslendinga sem fengu fálkaorðuna að þessu sinni.

Edvarð Júlíus Sólnes ásamt Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, á Bessastöðum á nýársdag.
Börn Júlíusar voru viðstödd athöfnina á Bessatöðum og hér eru þau ásamt föður sínum og Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands