Háskóli Íslands verðlaunaður fyrir græn skref

Umhverfisstofnun veitti í gær Háskóla Íslands sérstaka viðurkenningu fyrir fyrsta áfangann í Grænum skrefum en fyrsta græna skrefið hefur nú verið stigið í Aðalbyggingu Háskólans við Sæmundargötu í Reykjavík.
Háskóli Íslands ákvað að taka þátt í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri í fyrra og komst þá í hóp rösklega 40 ríkisstofnana sem nú stíga þessi mikilvægu grænu skref.
Umhverfismál eru ein helsta áskorun sem heimurinn stendur frammi fyrir og vill Háskóli Íslands leggja sitt af mörkum að þessu leyti m.a. með þátttöku í þessu verkefni. Að stíga græn skref er mikilvæg leið fyrir starfsmenn Háskóla Íslands til að sýna ábyrgð í verki. Grænu skrefin er aðgengileg leið fyrir opinbera aðila til að vinna markvisst að umhverfismálum. Þau helgast af því að ríkisstofnanir geta nýtt sér sérhæft hvatakerfi sem stuðlar að aukinni sjálfbærni í rekstri og bættri umhverfisvitund meðal starfsmanna.
Við innleiðingu Grænna skrefa er gátlistum fylgt og eru veittar viðurkenningar fyrir hvert grænt skref sem tekið er og fékk Aðalbygging háskólans nú þá viðurkenningu. Sýnilegasta breytingin þar er að nú hefur einnota borðbúnaður alfarið vikið fyrir fjölnota búnaði.
Verkefnið heldur áfram í Háskóla Íslands og fleiri byggingar skólans munu bætast í hópinn innan tíðar.
Meðfylgjandi myndband er dæmi um hvernig einstaklingur í Aðalbyggingu hefur tekist á við þessar breytingar.
Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vefsíðu grænna skrefa.


