Háskóli Íslands á NAFSA

Dagana 28. maí til 2. júní sl. sóttu fulltrúar Háskóla Íslands árlega ráðstefnu NAFSA (Association of International Educators) sem í þetta sinn var haldin í Los Angeles í Kaliforníu. Ráðstefnan var haldin í 69. sinn og tóku nær tíu þúsund manns frá yfir hundrað löndum þátt.
Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta, flutti erindi á ráðstefnunni um samstarf háskóla á norðurslóðum. Í erindinu fjallaði hún m.a. um mikilvægi samvinnu í fámennum námsgreinum í fjársveltu umhverfi háskóla.
Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík voru með kynningarbás á sameiginlegu svæði Norðurlanda eins og undanfarin ár. Fulltrúar Háskóla Íslands voru Friðrika Harðardóttir, Aníta Hannesdóttir og Karitas Kvaran frá Skrifstofu alþjóðasamskipta og Guðrún Birgisdóttir frá Hugvísindasviði.
Á ráðstefnunni gefst þátttakendum kostur á að funda með fulltrúum samstarfsskóla, kanna möguleika á frekara samstarfi við áhugaverða skóla, sitja spennandi fyrirlestra um alþjóðlega menntun og efla persónuleg tengsl.
Á næsta ári fer ráðstefnan fram í Philadelphíu í Pennsylvaníu.


