Skip to main content
4. maí 2017

Háskólalestin á ferð um landið í maí

Hin sívinsæla Háskólalest Háskóla Íslands heldur af stað í vikunni í sína árlegu ferð um landið og staðnæmist fyrst í Vík í Mýrdal, en lestin heimsækir alls fjóra áfangastaði í maímánuði. Nemendum í efri bekkjum grunnskólanna á áfangastöðunum fjórum verður boðið upp á fræðandi og skemmtileg námskeið á vegum lestarinnar auk þess sem slegið verður upp Vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna á hverjum stað.

Háskólalestin hefur heimsótt hátt í 30 staði víða um land frá því að henni var ýtt af stað á aldarafmælisári skólans árið 2011. Lestin brunar nú um landið sjöunda árið í röð en áhöfnin hefur frá upphafi lagt áherslu á lifandi og skemmtilega miðlun vísinda til fólks á öllum aldri. 

Fyrsti áfangastaður Háskólalestarinnar í ár er Vík í Mýrdal. Föstudaginn 5. maí sækja nemendur í 6.-10. bekk í Grunnskóla Mýrdalshrepps og Kirkjubæjarskóla á Síðu valin námskeið í Háskóla unga fólksins en þar glíma þau m.a. við efnafræði, stjörnufræði, vindmyllusmíði, forritun og eðlisfræði. Daginn eftir, laugardaginn 6. maí, verður Mýrdælingum og nærsveitamönnum boðið til veglegrar vísindaveislu í Félagsheimilinu Leikskálum frá kl. 12 til 16. Þar geta gestir spreytt sig á alls kyns þrautum, tækjum og tólum, kynnt sér japanska tungu, ferðast um himingeiminn í stjörnutjaldinu, kynnst undrum efnafræðinnar, prófað vindmyllusmíði og gert ýmis konar óvæntar uppgötvanir. 

Aðgangur að Vísindaveislunni er ókeypis og allir velkomnir.

Háskólalestin verður svo á Suðurnesjum og Vestfjörðum síðar í maímánuði en áætlun lestarinnar er svohljóðandi: 

5. og 6. maí – Vík í Mýrdal 

12. og 13. maí - Sandgerði

19. og 20. maí - Flateyri

26. og 27. maí – Patreksfjörður

Hægt er að fylgjast með Háskólalestinni á heimasíðu hennar og Facebook-síðu lestarinnar

Frá Háskólalestinni