Skip to main content
5. júní 2017

Háskólakórinn vann til tvennra gullverðlauna

""

Núna um helgina hreppti Háskólakórinn tvenn gullverðlaun á sérstakri kórahátíð í Olomouc í Tékklandi. Kórinn keppti í tveimur liðum í kórakeppninni Festival of Songs og er skemmst frá því að segja að Háskólakórinn vann til gullverðlauna í báðum liðum, með yfir 90 stig í hvorum flokki. 

„Við kepptum í tveimur riðlum, fyrir blandaða kóra með frjálst efnisval annars vegar og í keppni þar sem var skylda að flytja eitt keppnisverk. Við sungum í allt þrettán lög,“ sagði Gunnsteinn Ólafsson, stjórnandi kórsins. „Þetta er glæsilegt viðurkenning á starfi kórsins og sýnir að hann er í fremstu röð. Við höfum aldrei tekið þátt í keppni áður þannig að þetta er mjög lærdómsríkt. Við sáum að það er ekki bara tónlistin sem skiptir máli í svona keppni heldur hefur það líka áhrif á niðurstöðuna hvernig kórarnir koma fram. Það voru í allt 33 kórar sem tóku þátt í þessari keppni.“ 

Það er skemmtilegt að segja frá því að á heimasíðu keppninnar hefur verið komið fyrir upptöku frá keppninni sjálfri með sérstöku myndbandi en undir hljómar söngur Háskólakórsins á Rauða riddaranum eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi.

Háskólakórinn hefur verið starfræktur frá árinu 1972. Í kórnum er mikill metnaður í flutningi verka en hann heldur að minnsta kosti tvenna tónleika á ári auk þess að syngja við útskriftir og ýmsar aðrar athafnir Háskóla Íslands.

""
""