Skip to main content
30. september 2025

Háskólagæsir í hættu – vinsamlegast sýnið tillitsemi

Háskólagæsir í hættu – vinsamlegast sýnið tillitsemi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Það eru ekki aðeins stúdentar og starfsmenn sem halda til á háskólasvæðinu heldur einnig stór hópur grágæsa. Þessar gæsir eru ekki villtir fuglar í hefðbundnum skilningi heldur hafa þær aðlagað hegðun sína að borgarlífinu og lifa í nokkuð nánu sambýli við manninn.

Grágæsirnar sem hér sjást eiga sér sérstaka sögu. Flestar íslenskar fargæsir, gömlu góðu grágæsirnar, fljúga til Bretlandseyja yfir veturinn en frá því um 1970 hefur hluti stofnsins að sest að í Reykjavík og verpt hér í borgarlandinu. Afkomendum þeirra hefur síðan fjölgað jafnt og þétt og frá aldamótum hefur orðið stöðug aukning í stofni sem dvelur allt árið í höfuðborginni.

Í dag eru þúsundir grágæsa fastur hluti af borgarlífinu. Hluti þeirra á heimkynni sín hér við Háskóla Íslands og í Vatnsmýrinni. Þær eru svo spakar að þær ganga í makindum um götur, bílastæði og göngustíga í Skeifunni eins og hverjir aðrir háskólaborgarar og hafa meira að segja sést innandyra í Aðalbyggingu.

Gæsirnar minna okkur á samspil náttúru og mannlífs og þær hafa í reynd orðið óformlegt tákn fyrir Háskóla Íslands. Þær eru jafnvel orðnar hluti af hinu daglega lífi á Háskólatorgi þar sem afsteypur af þeim fljúga í gulu hvelfingunni í þaki torgsins.

Við viljum góðfúslega hvetja ökumenn og gangandi vegfarendur til að sýna gæsunum tillitsemi, þær eru nefnilega ekki vel lesnar í umferðarreglunum þrátt fyrir návígi við Háskólann og bílana.

Farið varlega þegar ekið er um háskólasvæðið og leyfið þessum fiðruðu félögum okkar að njóta sín á sínum eigin forsendum. Þótt þær séu ekki á leið í tíma eru þær samt fullgildir háskólaborgarar.

Á Vísindavefnum má lesa meira um grágæsir og aðrar gæsir.

Gæsir ganga yfir götu