Fyrsta rafhleðslustöðin á háskólasvæðinu tekin í gagnið

Rafhleðslustöð fyrir tvo bíla hefur verið tekin í gagnið við húsnæði Reiknistofnunar Háskóla Íslands að Neshaga 16. Þetta er fyrsta rafhleðslustöðin á háskólasvæðinu.
Fimm starfsmenn Reiknistofnunar eru þegar komnir á rafbíla og fleiri íhuga slík bílakaup og því ljóst að hleðslustöðin kemur í góðar þarfir á starfsstöðinni. Unnið verður að því að koma upp rafhleðslustöðvum við Aðalbyggingu Háskólans og fleiri byggingar á næstu mánuðum og misserum þannig að fleiri starfsmenn og einnig stúdentar geti nýtt sér slíkan möguleika.
Háskóli Íslands hefur á síðustu árum lagt vaxandi áherslu á sjálfbærni- og umhverfismál í starfi sínu og vinnur nú að því að innleiða svokölluð Græn skref í ríkisrekstri eins og margar aðrar stofnanir. Verkefnið snýst um að efla vistvænan rekstur með kerfisbundnum hætti og draga úr óáæskilegum umhverfisáhrifum tengdum starfi skólans. Rekstur hleðslustöðva fyrir rafbíla er sannarlega eitt skref í þá átt.
Rafhleðslustöðin við Neshaga 16 er sú fyrsta sem tekin er í gagnið á háskólasvæðinu.