Skip to main content
3. júlí 2024

Framtíðaráform mörkuð á vorráðstefnu Aurora-háskóla

Framtíðaráform mörkuð á vorráðstefnu Aurora-háskóla - á vefsíðu Háskóla Íslands

Leið Aurora-samstarfsins til framtíðar var vörðuð á vorráðstefnu aðildarskólanna sem fram fór í hinni sögufrægu borg Napólí á Ítalíu í lok maí. Ráðstefnan var skipulögð af háskólanum Federico II (UNINA) sem fagnar um þessar mundir 800 ára afmæli.

Tímamótin undirstrikuðu mikilvægi háskóla, þróun þeirra og áhrif innan samfélaga. Með því að stefna saman fulltrúum Aurora-háskólanna í þessu sögulega umhverfi var ekki einungis horft um öxl og áföngum í samstarfinu fagnað heldur einnig horft til framtíðar og leitað leiða til að halda áfram að stuðla að betra samfélagi með samvinnu í kennslu og rannsóknum.

Dagskráin samanstóð af fjölbreyttum fyrirlestrum og pallborðsumræðum um málefni á borð við sameiginlegar námsleiðir háskólanna, þátttöku stúdenta og samstarf við ytri hagsmunaaðila. Einnig var fjallað um borgaravísindi (e. citizen science) og þátttökulýðræði sem veitti innblástur og kveikti nýjar hugmyndir. Aurora-háskólarnir staðfestu einnig vilja sinn til að vinna saman að sjálfbærnimálum með því að undirrita sameiginlega áætlun um að draga úr kolefnisfótspori skólanna. Áætlunin er mikilvæg skuldbinding  Aurora-háskólanna í þá átt að verða umhverfisvænni í daglegum rekstri. 

Á ráðstefnunni urðu einnig forsetaskipti hjá Aurora. Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, lét af embætti og var þakkað kærlega fyrir störf sín og framlag. Hann afhenti rektor Palacký-háskóla í Olomouc í Tékklandi, Martin Procházka, stjórnartaumana. Martin telur mikilvægt að halda áfram að vinna náið með stúdentum í sinni stjórnartíð.  

Fulltrúar í ýmsum vinnuhópum innan Aurora höfðu einnig tækifæri til að hittast í eigin persónu og fara yfir málin. Á þeim fundum var rætt um það sem hefur áunnist og hvernig best sé að þróa verkefnin áfram.   

Í lok vel heppnaðrar ráðstefnu var ákveðið að næsta vorráðstefna yrði haldin í París og skipulögð af Université Paris Est Créteil (UPEC). 

Um Aurora

Aurora er samstarfsnet öflugra evrópskra rannsóknaháskóla sem vinnur að kennsluþróun og nýsköpun í starfsemi háskóla til að mæta samfélagslegum áskorunum nútímans. Með þátttöku í Aurora öðlast starfsfólk Háskóla Íslands tækifæri til að kynnast nýjum kennsluaðferðum, taka þátt í viðburðum erlendis, laða að alþjóðlega nemendur í námskeið og finna evrópska samstarfsaðila í rannsóknum og kennslu.
 

Þátttakendur á Aurora-ráðstefnunni í háskólanum Federico II (UNINA) í Napólí.