Skip to main content
24. ágúst 2017

Fóta sig í flóknum heimi vísinda með aðstoð siðfræðinnar

""

„Þetta svið er stöðugt að verða fyrirferðameira í háskólum um allan heim. Miðstöð framhaldsnáms vill taka þátt í þessari þróun og hefur unnið náið með kennurum í siðfræði við þróun og kynningu á þessum námskeiðum,“ segir Henry Alexander Henrysson, aðjunkt í heimspeki við Háskóla Íslands og sérfræðingur við Siðfræðistofnun Háskólans, um námskeið í siðfræði vísinda og rannsókna sem Háskóli Íslands býður nú upp á. Hópur doktorsnema sækir þessa dagana hraðnámskeið í faginu en einnig er boðið upp á hefðbundið námskeið á vormisseri.

Þetta er í fyrsta sinn sem Miðstöð framhaldsnáms og Siðfræðistofnun standa saman að hraðnámskeiði en það er haldið dagana 23.-25. ágúst. Námskeiðið var auglýst í apríl og fylltist það á tveimur dögum. „Lögð var áhersla á að ekki yrðu fleiri en tuttugu doktorsnemar í námskeiðinu til þess að málstofuformið fengi að njóta sín. Áherslur á námskeiðinu fara eftir þeim rannsóknarsviðum sem nemendur koma af. Það er geysilega mikilvægt að tengja kennsluna við þeirra eigin raunveruleika. Hugmyndin er alls ekki að tala almennt um siðfræði vísinda og rannsókna heldur tengja hana beint við rannsóknir doktorsnemanna,“ segir Henry sem á sæti í Vísindasiðanefnd, Vísindasiðanefnd Háskóla Íslands og Siðanefnd Háskóla Íslands.

Námskeiðið á vormisseri er lengra og er bæði ætlað meistara- og doktorsnemendum. Það hefur verið í boði undanfarin ár. „Þar gefst tækifæri til að fara dýpra í margar grundvallarspurningar um siðferðileg álitamál og þessi blöndun meistara- og doktorsnemenda gefur ríkara tækifæri til að ræða aðferðafræði vísinda í víðara samhengi. Í ágústnámskeiðinu geri ég ráð fyrir að nemendur beri þegar ríkari ábyrgð á rannsóknum sínum og hafi full tök á þeirri aðferðafræði sem þeir beita,“ segir Henry.

Siðfræði æ stærri þáttur í styrkumsóknum

En hvers vegna er mikilvægt að doktorsnemar þekki vel siðfræði vísinda og rannsókna? „Hér er mikilvægt að hafa þrjú atriði í huga. Í fyrsta lagi eiga nemarnir að geta tekið réttar ákvarðanir. Það er ekki alltaf hægt að treysta á siðferðilegt innsæi sitt. Stundum þarf að rökræða sig að réttri niðurstöðu. Í öðru lagi er það að verða stöðugt stærri þáttur í styrkumsóknum og birtingu niðurstaðna í vönduðum tímaritum að farið hafi verið skipulega yfir möguleg siðferðileg álitamál. Þeir nemar sem kunna ekki að gera grein fyrir mögulegum siðferðilegum álitamálum standa verr að vígi en aðrir. Að lokum er svo mikilvægt að hafa í huga að hver framhaldsnemandi þarf að kunna að fóta sig í þeim flókna heimi sem rannsóknir eru. Ég orða það stundum þannig að hver og einn nemandi þurfi að kunna að gæta að stöðu sinni. Samskipti við leiðbeinanda, samnemendur og aðra rannsakendur á sama sviði geta reynst geysilega viðkvæm. Það er hægt að búa sig undir þennan erfiða en spennandi veruleika. Námskeið í siðfræði vísinda og rannsókna er ein leið til þess,“ bendir Henry.

Í heimi þar sem þróun tækninýjunga er afar hröð hafa opnast ný svið innan vísindanna með spennandi en flóknum siðferðilegum áskorunum. Aðspurður segir Henry siðfræðilegar spurningar þó ekki endilega orðnar flóknari en áður. „Þær eru örugglega fleiri og fjölbreyttari og svo er meðvitund um mikilvægi þeirra sífellt almennari. Megnið af vísindarannsóknum í samtímanum er fjármagnað af almannafé. Slæmt vísindasiðferði getur bæði leitt til þess að skrúfað er fyrir fjármögnun vísindarannsókna og þátttöku í þeim. Þetta byggir allt á trausti. Jafnvel kæruleysi getur eytt því eins og hendi sé veifað,“ segir Henry að endingu.

Smelltu á myndina hér að neðan til að sjá fleiri myndir frá kennslunni.

Henry Alexander Henrysson og nemendur í tíma.
Nemendur í tíma í vísindasiðfræði.
Nemendur í tíma í vísindasiðfræði.
Henry við kennslu