Skip to main content
26. júní 2025

Fjórar til sumarnáms við Stanford-háskóla

Fjórar til sumarnáms við Stanford-háskóla - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fjórir nemendur Háskóla Íslands munu dvelja í átta vikur í sumar við nám í hinum þekkta Stanford-háskóla í Kaliforníu í svonefndu Stanford Summer International Honors Program (SSIHP). Þar gefst nemendunum einstakt tækifæri til að kynnast einstöku háskóla- og vísindasamfélagi en þær eiga auk þess möguleika á að fá námið metið inn í námsferil sinn við HÍ. 

Nemendurnir fjórir sem halda til Stanford eru Klara Margrét Ívarsdóttir, nemi læknisfræði, Ragna María Sverrisdóttir stærðfræðinemi, Sólveig Liv Jónsdóttir, nemi í vélaverkfræði, og Tanja Rut Rúnarsdóttir, nemi í hagnýttri stærðfræði. Þær munu m.a. sækja fyrirlestra um nýsköpun og frumkvöðlafræði og heimsækja Kísildalinn sem er í næsta nágrenni við háskólann. 

Stanford sem er í hópi fremstu háskóla heims, hefur átt samstarf við Háskóla Íslands um sumarnám allt frá árinu 2010. Á þessum fimmtán árum hefur stór hópur nemenda úr ólíkum greinum við HÍ nýtt sér þetta einstaka tækifæri til að stunda nám við einn fremsta háskóla heims.

Einn þeirra er Ómar Ingi Halldórsson sem fór út sumarið 2023. Námskeiðin sem hann tók í Stanford nýttust honum afar vel þegar kom að þátttöku í nýsköpunarkeppninni Gullegginu fyrr á þessu ári. „Ég tók tvö námskeið í Stanford. Eftir á að hyggja valdi ég mjög skemmtilega og praktíska kúrsa, vélrænt nám (e. machine learning) og námskeið í nýsköpun og frumkvöðlafræði,“ segir Ómar sem vinnur nú að nýsköpunarverkefninu SagaReg.

Nemarnir fjórir sem halda til Stanford í sumar ásamt rektor og fulltrúum Alþjóðasviðs. Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, rektor Hí, Ragna María Sverrisdóttir, Tanja Rut Rúnarsdóttir, Sólveig Liv Jónsdóttir og Klara Margrét Ívarsdóttir, Friðrika Harðardóttir, sviðsstjóri Alþjóðasviðs, og Magnús Gunnlaugur Þórarinsson, verkefnisstjóri á Alþjóðasviði.

Nemarnir fjórir sem halda til Stanford í sumar ásamt rektor og fulltrúum Alþjóðasviðs. Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, rektor Hí, Ragna María Sverrisdóttir, Tanja Rut Rúnarsdóttir, Sólveig Liv Jónsdóttir og Klara Margrét Ívarsdóttir, Friðrika Harðardóttir, sviðsstjóri Alþjóðasviðs, og Magnús Gunnlaugur Þórarinsson, verkefnisstjóri á Alþjóðasviði. MYND/Kristinn Ingvarsson