Fjölbreytt Framavika í Háskóla Íslands

Framavika Háskóla Íslands verður haldin í þriðja sinn dagana 13.-17. febrúar, í þetta sinn undir yfirskriftinni „Stígðu skrefið í átt að starfsframa“. Að vikunni stendur Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands sem býður bæði upp á erindi frá innlendum og erlendum fyrirlesurum um fyrstu skrefin á vinnumarkaði eftir útskrift og vinnustofur um gerð ferilskráa og starfsferlismappa.
Tilgangur Framaviku er að vekja athygli stúdenta á mikilvægi þess að huga strax að undirbúningi fyrstu skrefa út á vinnumarkaðinn með markvissum hætti. En hvers vegna er mikilvægt að huga að starfsframanum áður en námi er lokið? Að sögn Jónínu Kárdal náms- og starfsráðgjafa skiptir máli að sjá fyrir sér hvernig sú þekking, færni og hæfni sem maður öðlast í háskólanámi geti nýst á atvinnumarkaði. „Það er mikilvægt nýta öll tækifæri sem gefast í háskólanámi til að öðlast margs konar reynslu og efla jafnframt tengsl við atvinnumarkaðinn í gegnum rannsóknir, verkefni og sumarstörf,“ segir Jónína.
Meðal fyrirlesara í Framavikunni er Jennifer Matheny, fulltrúi frá LinkedIn, en hún kynnir hagnýt ráð til að koma sér á framfæri við atvinnurekendur um allan heim, að stækka tengslanet sitt og fullkomna stafræna ímynd sína. Háskóli Íslands er einn fimmtán norrænna háskóla sem fulltrúar LinkedIn heimsækja um þessar mundir.
Enn fremur munu tveir brautskráðir stúdentar frá Háskóla Íslands, þær Eva Ýr Gunnlaugsdóttir hjá mannauðsdeild Össurar og Helga Rún Runólfsdóttir, mannauðsráðgjafi hjá Fræðslusetrinu Starfsmennt, segja frá reynslu sinni af vinnumarkaði og á hvern hátt nám þeirra nýttist í starfsleit og í starfi.
Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands býður háskólastúdentum auk þess upp á vinnustofur í gerð ferilsskráa og starfsferilsmappa auk hagnýtrar fræðslu og ráðgjafar í vikunni.
Tengslatorg ný atvinnumiðlun fyrir stúdenta
Háskóli Íslands hefur á síðustu árum lagt aukna áherslu á að styðja nemendur í fyrstu skrefum þeirra á atvinnumarkaði, m.a. með auknu samstarfi við atvinnulífið. Liður í auknum stuðningi við nemendur er Tengslatorg Háskóla Íslands sem er alhliða atvinnumiðlun á vefnum. Þar gefst fyrirtækjum tækifæri til að auglýsa endurgjaldslaust eftir starfskröftum í sumarstörf og framtíðarstörf sem krefjast háskólamenntunar. Náms- og starfsráðgjöf heldur utan um vefinn, sem er á slóðinni tengslatorg.hi.is.
„Nemendur koma vel undirbúnir fyrir atvinnulífið frá Háskóla Íslands. Það sjáum við t.d. á því að skólinn er í 136. sæti á lista tímaritsins Times Higher Education (Global University Employability Ranking) yfir þá háskóla í heiminum sem teljast skila öflugustum nemendum út í atvinnulífið samkvæmt mati stórs hóps alþjóðlegra fyrirtækja. Listinn þykir gefa mikilvæga innsýn í hversu vel skólarnir eru tengdir atvinnulífi og hversu vel námið undirbýr nemendur fyrir þátttöku í því. Það er sannarlega gott veganesti fyrir nemendur Háskóla Íslands út í lífið,“ segir Jónína að endingu.
Nánari upplýsingar um Framaviku fást á Facebook-síðu Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands.

