Skip to main content
10. janúar 2025

Filipa ráðin forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ í Vestmannaeyjum

Filipa ráðin forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ í Vestmannaeyjum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Filipa Isabel Samarra hefur verið ráðin forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum. Starf forstöðumanns rannsóknasetursins var auglýst í október sl. og gerð krafa um menntun í sjávarlíffræði, gjarnan með áherslu á hvali og önnur sjávarspendýr. Að loknu dómnefndar- og valnefndarferli var Filipa Samarra ráðin forstöðumaður frá 1. janúar. Setrið í Vestmannaeyjum er eitt tólf rannsóknasetra sem Háskóli Íslands starfrækir á landsbyggðinni.

Filipa lauk doktorsprófi í líffræði frá St. Andrews háskóla 2011 með ritgerðinni „Functional design and use of acoustic signals produced by killer whales (Orcinus orca)“ en áður hafði hún lokið meistaraprófi í vistfræði 2005 frá sama háskóla og BS-prófi í líffræði 2004 frá Háskólanum á Asoreyjum. Filipa hefur í rannsóknum sínum einkum fjallað um sjávarspendýr  og atferlisvistfræði og meðal annars beint sjónum að félagslegri hegðun hvala, hljóðsamskiptum, búsvæðanotkun og vistfræði fæðunáms. Hún hefur mikla reynslu af stjórnun rannsóknaverkefna, stórra sem smárra, og þátttöku í samstarfsverkefnum með innlendum og erlendum rannsakendum og stofnunum. Filipa hefur náð góðum árangri í að afla styrkja til rannsóknaverefna og m.a. fengið styrki úr Rannsóknasjóði Íslands og Innviðasjóði Rannís, auk erlendra rannnsóknasjóða eins og Jules Verne, Earthwatch Institute, National Geographic, EEA og Biodiversa+. 

Filipa hefur kennt í námskeiðum við Háskóla Íslands og Háskólann í St. Andrews frá 2005 og þá hefur hún einnig kennt við Háskólasetur Vestfjarða frá 2021. Hún hefur leiðbeint fjölda meistaranema og nokkrum grunnnemum og verið prófdómari doktorsnema og meistaranema við hina ýmsu háskóla. Þá hefur Filipa leiðbeint fimm doktorsnemum við Háskóla Íslands undanfarin ár. 

Filipa starfaði sem rannsóknasérfræðingur við Hafrannsóknastofnun 2016-2020 og nýdoktor 2010-2015 við sömu stofnun. Hún hóf störf sem akademískur sérfræðingur við Stofnun rannsóknasetra HÍ árið 2020 og hefur í störfum sínum fyrir stofnunina náð að byggja upp og rækta sterk tengsl milli Háskóla Íslands og samfélagsins í Vestmannaeyjum. 

Filipa er í stjórn Vistfræðifélags Íslands og tekur virkan þátt í alþjóðlegu nefndastarfi um hafrannsóknir og verndun hafsins, m.a. á vettvangi SCOR/Scientific Committee on Oceanic Research.

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands býður Filipu hjartanlega velkomna til starfa. 
 

Filipa Isabel Samarra