Skip to main content
23. janúar 2017

Evrópustyrkur til vöktunar á mengunar- og aðskotaefnum

Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands, og samstarfsfólk hans við Háskólann og Matís hafa hlotið rannsóknastyrk frá Evrópusambandinu upp á 70 milljónir króna (600 þús. evrur). Verkefnið felst í að koma upp samræmdu vinnulagi við vöktun á mengunar- og aðskotaefnum í fólki í Evrópu. Styrkurinn kemur úr Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins, nánar tiltekið úr heilsuhluta áætlunarinnar (Health, demographic change and well-being). Það eru 37 stofnanir auk þeirra íslensku sem taka beinan þátt í verkefninu ásamt fjölda tengdra stofnana en heildarstyrkur til verkefnisins hljóðar upp á 50 milljónir evra.

„Hugmyndin er að samnýta betur innviði til rannsókna á áhrifum þessara efna á heilsu fólks,“ segir Þórhallur Ingi. „Eins og staðan er í dag er vinnulagið við vöktun á mengunar- og aðskotaefnum í fólki jafn ólíkt og fjöldi ríkjanna innan Evrópusambandsins. Þetta á t.d. við um hvernig þátttakendur eru valdir til rannsókna og hvaða aðferðum er beitt við sjálfar rannsóknirnar. Þetta gerir það að verkum að mjög erfitt er að bera saman mælingar á styrk mengunarefna í lífsýnum frá einu landi til annars.  Slík högun leiðir til þess að fjármunir eru illa nýttir og allt eftirlit og inngrip verður erfitt og seint í vöfum.“

Þórhallur Ingi segir að ekki gangi að þær nær þrjátíu þjóðir sem nú geri þessar vöktunarmælingar og rannsóknir vinni þær á mismunandi hátt og því hafi þurft að samræma aðferðirnar. Í því sé verkefnið fólgið. Mælingar á mengunar- og aðskotaefnum í fólki eru afar mikilvægar, m.a. til að átta sig á neikvæðum áhrifum umhverfis á fólk. Í því sambandi er ekki síst horft til áhrifa iðnaðarframleiðslu, byggingarefna í húsum og fæðu á fólk.

Ekki þarf að fjölyrða um samfélagslegt mikilvægi rannsókna af þessum toga þar sem þær varða beint heilsufar fólks og geta dregið úr vaxandi kostnaði í heilbrigðiskerfum þjóðanna sem taka þátt í rannsókninni. „Verkefnið gefur okkur Íslendingum einnig færi á að skipuleggja okkur betur í þessum málaflokki og vonandi sinna svona mælingum og rannsóknum af meiri krafti en við höfum gert,“ segir Þórhallur Ingi. „Hluti af rannsóknarfénu er bundinn í fyrir fram ákveðin verkefni en hluti af fénu mun nýtast við að byggja upp nauðsynlega innviði og framkvæma lífsýnamælingar á efnum sem nauðsynlegt er að vakta betur. Markmiðið er að koma af stað kerfisbundinni vöktun í samstarfi við aðrar þjóðir og sinna rannsóknum enn betur á þessu sviði.“

Þórhallur Ingi segir að stofnanir á borð við Evrópsku matvælaöryggisstofnunina (EFSA) og European Chemicals Agency (ECHA) styðjist mjög við rannsóknir á áhrifum mengunar- og aðskotaefna í umhverfi fólks en þessar stofnanir sjái um áhættumat og regluverk í tengslum við notkun efna í iðnaði og í matvælaframleiðslu.  

Í rannsóknarteymi með Þórhalli Inga eru Kristín Ólafsdóttir, dósent við Læknadeild, og Hrönn Jörundsdóttir, sérfræðingur hjá Matís. Þórhallur Ingi hefur verið mjög afkastamikill í rannsóknum í næringarfræði undanfarin ár en rannsóknir hans hafa einkum snúið að heilsufarslegum áhrifum mengunar- og íbætiefna, svo sem þrávirkra lífrænna efna, transfitusýra og sætuefna í matvælum.

Þórhallur Ingi Halldórsson
Þórhallur Ingi Halldórsson