Skip to main content
20. júní 2024

Doktorsstyrkir til rannsókna tengdum hvölum, bleikju og bakteríudrepandi gelum

Doktorsstyrkir til rannsókna tengdum hvölum, bleikju og bakteríudrepandi gelum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þrír styrkir hafa verið veittir úr Minningarsjóði Aðalsteins Kristjánssonar við Háskóla Íslands til rannsókna í raunvísindum. Að þessu sinni voru veittir styrkir til doktorsnema í raunvísindum við Háskóla Íslands sem eru á lokastigi doktorsnáms, án öruggrar fjárveitingar. Styrkhafar eru María Glarou og Marina De La Camara Pena, báðar doktorsnemar í líffræði, og Sreejith Sudhakaran Jayabhavan, doktorsnemi í efnafræði. Heildarupphæð styrkja nemur 4 milljónum króna.

Doktorsverkefni Mariu Glarou miðar að því að greina breytileika í tilteknum aðlögunum að lífi í köldu vatni með tilliti til líkamsstærðar hjá fimm tegundum hvala fyrir norðan og austan Ísland. Hlutfall yfirborðs á móti rúmmáli er lægra meðal stórvaxinna tegunda og því ætti hitatap þeirra að vera hægara en hjá smávaxnari tegundum. Engu að síður eru smáar hvalategundir algengar í köldum sjó. Í verkefninu er sett fram sú tilgáta að smærri hvalir hafi þykkra einangrunarlag, hraðari efnaskipti, og þurfi að taka til sín meiri orku en stórvaxnari tegundir. Í rannsóknunum eru notaðir drónar til að mæla stærð og lögun hvala í sjó. Með þessum gögnum og margs konar mæligögnum sem til eru um viðkomandi tegundir má varpa skýrara ljósi á orkuástand og orkuþörf þeirra og hvernig þessir þættir móta nýtingu búsvæða og fæðuöflun. Niðurstöðurnar eru mikilvægar við að meta viðkvæmni tegunda fyrir hlýnun og móta möguleg viðbrögð við nýtingu og verndun hvalastofna.

Leiðbeinendur Mariu eru Marianne Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík, Fredrik Christiansen, vísindamaður við Háslólann í Árósum, Danmörku, og Takashi Iwate, prófessor við Kobe University í Japan.

Doktorsverkefni Marinu De La Camara fjallar um erfðafræðilegan mun að baki vistfræðilegri sérhæfingu hjá bleikjunni í Þingvallvatni. Nánar tiltekið er markmið þessa verkefnis að kanna fjölda gena sem koma við sögu, dreifingu þeirra í erfðamenginu, mismunandi áhrif þeirra og hvort finna megi vísbendingar um að náttúrulegt val hafi verkað á erfðaset sem hafa áhrif á svipfar er tengist vistfræðilegri fjölbreytni. Bleikjuafbrigðin í Þingvallavatni eru skólabókardæmi um vistfræðilega fjölbreytni. Svipfarseinkennin sem skilja afbrigðin að eiga það sammerkt að erfðir þeirra eru líkast til flóknar og byggjast á breytileikum í mörgum erfðasetum sem hver um sig hefur lítil áhrif. Í verkefninu verða þau svæði í erfðamenginu sem tengjast breytilegu svipfari staðsett á erfðamengi bleikjunnar auk þess sem genamengið verður skimað með tilliti til svæða sem sýna merki um að hafa nýlega orðið fyrir áhrifum náttúrulegs vals. 

Leiðbeinandi Marinu er Kalina Kapralova, sérfræðingur hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Michael Morrisey, dósent við Háskólann í St Andrews í Skotlandi.

Doktorsverkefni Sreejith Sudhakaran Jayabhavan snertir rannsóknir á sviði svokallaðrar supramólikúlar efnafræði en fengist er við sameindir með lágan mólmassa sem hafa þá eiginleika að geta myndað gel (e. LMWG – low molecular weight gelator). Gelin eru mjúk og gætu verð hagnýtt í lyfjagjöf, frumurækt og til ræktunar einkristalla. Doktorsverkefni Sreejith miðar að því að þróa og finna hvarf- og samsetningarleiðir í gelmyndun með LMWG sem mynda gel með fyrirsjáanlega eiginleika, sem hægt er að stjórna t.d. til að mynda einkristalla og efni með bakteríudrepandi eiginleika. Í COVID-19-faraldrinum voru víða stundaðar viðamiklar rannsóknir með það fyrir augum að þróa efni sem mætti nota til að meðhöndla sýkingar. Í þessu verkefni er beðið eftir spennandi niðurstöðum sem snerta bakteríudrepandi eiginleika LMWG-gela, sem þróuð hafa verið.

Leiðbeinandi Sreejith er Krishna Kumar Damodaran, prófessor í efnafræði við Raunvísindadeild HÍ.

Um sjóðinn

Minningarsjóður Aðalsteins Kristjánssonar til eflingar náttúruvísindum og efnafræði var stofnaður við Háskóla Íslands árið 1978 með dánargjöf Aðalsteins Kristjánssonar. Hann bjó lengstum í Winnipeg í Kanada og síðast í Puente í Los Angeles í Kaliforníu. Aðalsteinn lést hinn 14. júlí 1949.

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Í stjórn sjóðsins sitja Sigurður S. Snorrason, prófessor emeritus við Líf- og umhverfisvísindadeild, sem jafnframt er formaður stjórnar, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, vísindamaður við Jarðvísindastofnun, og Einar Örn Sveinbjörnsson, prófessor við Raunvísindadeild.

Minningarsjóður Aðalsteins Kristjánssonar er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn háskólans. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. 

Tveir styrkþega ásamt stjórn sjóðsins og rektor HÍ. Frá vinstr: Sigurður Sveinn Snorrason, Marina De La Camara, Sreejith Sudhakaran Jayabhavan, Jón Atli Benediktsson, Einar Sveinbjörnsson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir.  MYND/Kristnn Ingvarsson