Breytt heimsmynd kallar á nám í nýju ljósi

Andreas Schleicher, höfundur PISA-könnunarinnar og yfirmaður menntadeildar hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD), hélt erindið From school as the world to the world as the school í Veröld – húsi Vigdísar þann 12. júní fyrir fullum sal.
Í erindinu ræddi Schleicher hvernig kennarar, skólar og menntakerfi geta tekist á við helstu áskoranir nútímans í námi og þroska. Hann vill meina að í nútímaheimi snúist menntun ekki lengur einvörðungu um að kenna nemendum afmarkað námsefni heldur styðja nemendur við að þróa áreiðanlega áttavita og koma sér upp verkfærum ásamt góðu sjálfstrausti til að takast á við sífellt flóknari og síbreytilegan heim. Hann benti á að meta þyrfti heildstætt hvernig menntakerfum gengur að styðja við þroska og velferð ungs fólks, bæði afla samanburðarhæfra upplýsinga um bóklegan árangur en einnig skoða líðan ungmenna, samskipta- og félagsfærni þeirra, seiglu, tengsl við aðra, sem einnig væri að finna innan PISA-könnunarinnar. Nám og lærdómur fari þannig fram bæði innan og utan skóla, í kennslustofum, á heimilum og í æskulýðs- og tómstundastarfi, hvar sem börn og ungmenni lifa og starfa. Schleicher telur að nauðsynlegt sé að endurskapa skólana okkar í þessu ljósi.
Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra (2017-2024) og mennta- og menningarmálaráðherra (2009-2013), var fundarstjóri. Í setningarorðum sínum minnti Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, á að Katrín hefði sem menntamálaráðherra gefið út nýja heildstæða námsskrá sem sló mikilvægan nýjan tón og að sem forsætisráðherra hefði hún ávallt talað fyrir gildi menntunar sem grunnstoð samfélagsins. Þess ber að geta að helstu hagaðilar kennslu og menntavísinda voru í salnum og sköpuðust góðar umræður undir stjórn Katrínar.
Erindi Andreas Schleichers var sjötta erindið og þar með lokaerindi fyrirlestrarraðar Menntavísindsviðs HÍ, Menntakerfi á tímamótum: Alþjóðlegar áskoranir og tækifæri. Þar stigu sex erlendir sérfræðingar á stokk, ræddu álitamál og viðfangsefni menntunar og reynslu annarra þjóða. Á meðal viðfangsefna var alþjóðleg menntastefna, PISA, skapandi skólastarf, námsmat, samfélag sem styður við skóla, heilsuefling í skólum og kennaramenntun.
„Markmið þessarar fyrirlestrarraðar var að kasta heildstæðu ljósi á mikilvæg verkefni menntakerfa og átta okkur enn á betur á því hvaða öfl hafa áhrif á og móta nám, þroska og velferð barna og ungmenna. Við höfum fengið framúrskarandi fyrirlesara frá ólíkum heimsálfum, fjölbreyttur hópur sótti fyrirlestrana og við fundum fyrir miklum áhuga og þörf fyrir slíkan vettvang til að ræða málefni menntakerfisins. Enn má nálgast upptökur af flestum þessara áhugaverðu erinda á heimasíðu HÍ. Að sjálfsögðu tökum við á Menntavísindasviði þráðinn upp næsta haust, kynnum nýja viðburðaröð og bjóðum fólk velkomið í nýtt húsnæði sviðsins í Sögu,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs.
Upptöku af fyrirlestrinum má nálgast hér
Nánar má lesa um fyrirlestraröðina hér
Erindi Schleichers var einnig hluti af alþjóðlegri ráðstefnu um menntun, æskulýðsstarf og farsæld barna og ungmenna sem fór fram dagana 11.-13.júní sem var haldin af Menntavísindasviði í samstarfi við GELYDA, ný alþjóða menntasamtök fræða- og fagfólks - Nánar hér
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Andreas Schleicher og Gil Noam, formaður Gelyda.