Bjuggu til stærðfræðileikinn Summuna

Þrír núverandi og nýútskrifaðir stærðfræðinemar við Háskóla Íslands hafa búið til stærðfræðileik á netinu, Summuna, sem er opinn öllum og hefur að geyma yfir þúsund miserfið dæmi. Leikurinn hefur fengið afar góðar viðtökur en þar geta þátttakendur safnað verðlaunum og spreytt sig á ýmsum greinum stærðfræðinnar.
„Verkefnið byrjaði þannig að við vildum gera gömul dæmi úr stærðfræðikeppnum framhaldsskólanema (STAK) aðgengilegri fyrir fólk sem vildi æfa sig fyrir keppnir. Þaðan kviknaði hugmyndin að gera úr dæmunum einfaldan tölvuleik,“ segir Jökull Ari Haraldsson, sem stendur að leiknum ásamt þeim Hallgrími Haraldssyni og Ívari Armin Derayat. Við verki þremenningarnir m.a. notið stuðnings Raunvísindastofnunar Háskólans og Benedikts Steinars Magnússonar, stærðfræðiprófessors við Háskóla Íslands og formanns Íslenska stærðfræðifélagsins, en félagið stendur árlega fyrir hinni vel þekktu stærðfræðikeppni framhaldsskólanema.
Leikurinn er opinn öllum en helsti markhópurinn eru unglingar og fullorðnir að sögn Jökuls. „Leikurinn er frábært tól fyrir ungmenni í framhaldsskólum sem vilja æfa sig fyrir stærðfræðikeppnir. Summan getur líka verið notuð fyrir almenna stærðfræðimenntun, en stærðfræðikunnáttu fer hratt fram þegar menn æfa sig á dæmum af þessari gerð,“ bendir Jökull Ari á.
Leikurinn hefst með einföldum dæmum og leikmenn vinna sig hægt og rólega upp á sínum eigin hraða. Eftir því sem þátttakendur leysa fleiri dæmi safna þeir verðlaunum og vinna sig um leið upp stigatöflu leiksins sem finna má á vef leiksins.
Aðspurður segir Jökull Ari að mesta vinnan við leikinn hafi annars vegar verið að forrita vefsíðuna sjálfa og hins vegar að viða að sér öllum þeim dæmum sem hafa nokkurn tímann verið lögð fyrir í STAK frá upphafi, eða frá árinu 1984. „Þetta eru fleiri en 1.000 dæmi. Við reiknuðum í gegnum þau öll og settum þau í leikinn,“ segir Jökull Ari.
Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa þrátt fyrir að leikurinn sé aðeins nokkurra vikna gamall. Fleiri en 250 notendur hafa skráð sig hingað til. „Það myndi ég telja ágætt fyrir íslenskan stærðfræðileik,“ segir Jökull Ari hógvær.
Aðspurður um frekari plön með leikinn svarar Jökull Ari því til að fólk hafi komið með alls kyns hugmyndir fyrir frekari þróun verkefnisins „en hvað verður úr því fer eftir áframhaldandi gengi leiksins og fjármagni. Leikurinn er ókeypis og rekinn í góðgerðarskyni svo það þyrfti styrki til að koma því í verk.”
