Skip to main content
7. apríl 2017

Auka þarf verulega framlög til Háskóla Íslands

""

Háskólaráð Háskóla Íslands samþykkti einróma ályktun fimmtudaginn 6. apríl þar sem ráðið lýsir miklum vonbrigðum með fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir tímabilið 2018-2022, sem lögð var fram á Alþingi 31. mars. 

Fyrir liggur að háskólastigið á Íslandi hefur sætt verulegum og langvarandi niðurskurði opinberra framlaga. Er nú svo komið að Háskóli Íslands er alvarlega undirfjármagnaður og gæði skólastarfsins í raunverulegri hættu. 

Stjórnvöld hafa ítrekað sett fram áform og gefið fyrirheit um að fjármögnun háskóla á Íslandi verði í takt við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018-2022 er ekki að sjá að efna eigi þessi fyrirheit. Að óbreyttu virðist lagt upp með að nálgast markmið um sambærilega fjármögnun og í nágrannalöndum okkar með því að fækka verulega háskólanemum á Íslandi. Á sama tíma liggur fyrir að fjölga þarf verulega háskólamenntuðu starfsfólki í heilbrigðisgreinum, skólakerfi og víðar. 

Samkvæmt fjármálaáætluninni munu framlög til háskólastigsins hækka úr tæpum 41,6 milljörðum kr. á árinu 2017 í tæpa 44,4 milljarða árið 2022. Þessir fjármunir eru þó fjarri því allir til að mæta brýnum rekstrarvanda háskólastigsins, því aukningin fyrstu árin er að miklu leyti framlag vegna byggingar húss íslenskra fræða, auk framlags til Lánasjóðs íslenskra námsmanna og uppbyggingar nýs fagháskólastigs. Háskólarnir þurfa því enn að bíða, nú til ársins 2019, eftir löngu tímabærri innspýtingu vegna kennslu og rannsókna sem þó er mjög hógvær eftir niðurskurð síðustu ára. Verði fjármálaáætlunin samþykkt óbreytt er hækkunin til háskólastigsins of lítil og kemur of seint.

Ef fjármálaáætlunin nær óbreytt fram að ganga blasir við fyrir Háskóla Íslands að

skólinn og þar með íslenska þjóðin gæti misst sterka stöðu sína í alþjóðlegum samanburði háskóla;

dregið verður úr námsframboði og frestað nauðsynlegri þróun kennsluhátta;

hætt verður við brýna uppbyggingu innviða rannsókna og nýsköpunar sem létu verulega á sjá í hruninu. 

Fyrir liggur að stjórnvöld hafa á undanförnum árum gefið margvísleg fyrirheit um áþreifanlegan stuðning við Háskóla Íslands: 

Á aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011 var stofnaður sérstakur Aldarafmælissjóður og lýstu stjórnvöld því yfir að hækka ætti framlög til sjóðsins árlega uns fjárveiting á hvern nemanda yrði sambærileg við meðtaltal OECD-ríkja 2016 og meðaltal Norðurlanda 2020. 

Í framhaldinu markaði Vísinda- og tækniráð undir forystu forsætisráðherra þá stefnu að þessi markmið skyldu gilda fyrir allt háskólastigið í landinu. 

Í aðdraganda alþingiskosninga sl. haust ríkti pólitísk samstaða meðal núverandi stjórnarflokka um að opinber framlög á hvern háskólanema skyldu ná meðaltali OECD-ríkjanna á kjörtímabilinu. 

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá janúar sl. er lögð rík áhersla á að treysta samkeppnishæfni Íslands og þróa hér þekkingarsamfélag með því að styðja háskólana í að halda uppi gæðum og standast alþjóðlega samkeppni, m.a. með endurskoðun á reiknilíkönum sem notuð eru til að meta fjárþörf menntakerfisins. 

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á aðhaldssemi og langtímahugsun og undir það er tekið. Opinberum fjármunum í þágu samfélagsins og innviða þess til lengri tíma verður varla betur varið en með fjárfestingu í öflugum háskóla sem er samkeppnisfær á alþjóðlegum vettvangi. Háskóli Íslands hefur í meira en eina öld verið ein mikilvægasta undirstaða fjölbreytts atvinnulífs, velferðar og farsæls þekkingarsamfélags á Íslandi. Það þarf langan tíma, metnað og skýra sýn til að byggja upp sterkan háskóla en það tekur aðeins skamman tíma að tefla því uppbyggingarstarfi í voða. Fjárfesting í menntun er fjárfesting í framtíðinni. 

Háskólaráð Háskóla Íslands