Skip to main content
4. september 2024

Alþjóðlegur vinnuhópur um vettvangsrannsóknir á Mars staddur á Íslandi

Alþjóðlegur vinnuhópur um vettvangsrannsóknir á Mars staddur á Íslandi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í þessari viku eru fulltrúar frá öllum helstu geimferðastofnunum heims staddir á Íslandi til að taka þátt í ráðstefnu undir hatti IMEWG-samstarfsins (International Mars Exploration Working Group), en það er alþjóðlegur vinnuhópur um vettvangsrannsóknir á Mars.

Á mánudag var almenningi boðið upp á opinn fund í Grósku þar sem sagt var frá því markverðasta sem er að gerast í könnun geimsins og mögulegu hlutverki Íslands í þeim rannsóknum. Þetta var í fyrsta sinn sem fundur IMEWG er opinn almenningi.

Frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, setti fundinn og hélt stutt ávarp. Þar á eftir héldu fulltrúar NASA, ESA og annarra geimstofnana erindi og svöruðu spurningum gesta.

Að sögn Sigurðar Magnúsar Garðarssonar, forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og stjórnarformanns Vísindagarða, er mikill fengur í að fá vinnuhópinn til landsins. Hann bendir jafnframt á að áhugi alþjóðlegra geimstofnana á Íslandi sé mikill, sökum þess hve landslag og jarðfræði Íslands er líkt með landslaginu á Mars. Einnig bendir Sigurður á þá áhugaverðu staðreynd að þær prófanir og þróanir á tækjum og tólum sem notuð eru í ferðum til Mars séu gerðar að hluta til á Íslandi.

Að sögn Richard Davis, starfsmanns NASA, eru fjölmörg tækifæri fyrir geimstofnanir á Íslandi. Hann bendir enn fremur á að á Mars hafi verið mikil eldfjallavirkni og að ís sé þar neðanjarðar. Þess vegna sé möguleikinn á því að stunda rannsóknir á Íslandi ómetanlegur og mörg tækifæri til að læra af þeirri þekkingu sem íslenskir vísindamenn búa yfir.

Ráðstefna IMEWG er skipulögð af Geimvísindastofnun Íslands (ISA), Vísindagörðum og Háskóla Íslands.

Þátttakendur ráðstefnunnar ásamt Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands
Frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands ávarpar fundinn. MYND/Gunnar Sverrisson