Skip to main content
26. janúar 2017

Á vit stjarnanna í Kaldárseli með Sævari Helga

Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðimiðlari og kennari við Háskóla unga fólksins og í Háskólalestinni, leiðir gönguferð á vit stjarna og norðurljósa í Kaldárseli í Hafnarfirði á laugardaginn kemur, 28. janúar, kl. 20. Gangan er hluti af samstarfi Háskóla Íslands og Ferðafélags barnanna, undirdeildar Ferðafélags Íslands, sem ber yfirskriftina „Með fróðleik í fararnesti“.

Upphaflega stóð til að gangan yrði föstudaginn 27. janúar kl. 20 en vegna óhagstæðra veðurskilyrða var ákveðið að færa gönguna yfir á laugardagskvöld en þá er spáð heiðskíru veðri. Staðsetningu göngunnar hefur einnig verið breytt vegna ábendinga um bílastæðamál og fer hún því fram í Kaldárseli í Hafnarfirði í stað Heiðmerkur. Brottför verður kl. 20 á einkabílum frá skrifstofu Ferðafélags Íslands í Mörkinni 6 á laugardag en þaðan verður ekið upp í Kaldársel. Einnig er hægt að mæta beint upp í Kaldársel en reiknað er með gangan hefjist þar upp úr kl. 20.20.

Þetta er þriðja árið í röð sem Sævar fer fyrir stjörnu- og norðurljósagöngu Háskólans og Ferðafélagsins en hún er ætluð allri fjölskyldunni og er aðgangur ókeypis. Síðustu tvö ár hafa mörg hundruð manns fylgt Sævari í gönguna og rýnt upp í stjörnuhimininn enda áhugi og ástríða Sævars fyrir himintunglunum afar smitandi.

Sævar verður með stjörnusjónauka meðferðis og mun benda göngugestum á það sem hæst ber á himni nú um stundir. „Þessa dagana skín Venus stjarna skærast á kvöldhimninum. Hún hefur sennilega ekki farið fram hjá neinum enda ægibjört og fögur. Skammt frá er Mars en hann er miklu daufari og fátt að sjá í gegnum sjónauka. Á morgnana skín Júpíter svo skært í suðri,“ segir Sævar.

Janúarhiminninn er líka prýddur stjörnumerkinu Óríon sem margir þekkja og hyggst Sævar m.a. beina sjónum fólks að Sverðþokunni sem er í Óríon. „Þar eru stjörnur að fæðast. Tunglið verður ekki á lofti þetta kvöld enda verður það nýtt daginn eftir. Fyrir vikið sjáum við vonandi Vetrarbrautina okkar í öllu sínu veldi,“ segir Sævar fullur tilhlökkunar.

Sævar hefur verið óþreytandi síðustu ár vekja áhuga fólks á undrum himingeimsins og er flestum í fersku minni þegar hann gaf öllum grunnskólabörnum á landinu gleraugu til þess að fylgjast með sólmyrkvanum 20. mars 2015. Enn fremur hefur hann unnið útvarpsþætti um geimferðir og stjörnufræði, frætt börn um himingeiminn í Stundinni okkar í vetur og þá varð bók hans, Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna, meðal söluhæstu bóka á landinu fyrir síðustu jól. Þess má geta að bókin verður til sölu í göngunni á laugardag. Auk þess heldur Sævar úti Stjörnufræðivefnum af mikilli elju en þar má m.a. fræðast um reikistjörnur og sólkerfið og horfur til norðurljósa- og stjörnuskoðunar hverju sinni.

Sævar segist tvímælalaust finna fyrir auknum áhuga fólks á öllum aldri á himintunglunum. „Það er til dæmis áhuga ferðamanna á næturhimninum að þakka. Margir Íslendingar hafa smitast af því að fara út og skoða norðurljós sem þeir gerðu kannski lítið af áður fyrr. Síðan er auðvitað aðgengi að góðu efni á íslensku orðið betra, til dæmis á Stjörnufræðivefnum. Svo hef ég sjálfur reynt að vera duglegur að hvetja fólk til að horfa til himins,“ segir Sævar hógvær sem fyrr.

Áætlað er að ferðin taki um 2-3 klukkustundir. Sem fyrr segir verður Sævar með stjörnusjónauka sem göngugestir geta rýnt í en hann hvetur fólk til þess að mæta einnig með hefðbundna sjónauka því nota megi þá til að sjá ýmislegt á himninum. Þá er vissara að vera vel klædd/ur því veðurspáin gerir ráð fyrir björtu en köldu veðri og ekki er verra að vera með heitan drykk á brúsa til að ylja sér við undir stjörnuhimninum.

Stjörnu- og norðurljósagangan á laugardag er sú fyrsta í röð gönguferða sem Háskóli Íslands og Ferðafélag barnanna standa að á árinu. Samstarf Háskólans og Ferðafélagsins hefur staðið allt frá árinu 2011 þegar skólinn fagnaði aldarafmæli sínu, en það felst í stuttum göngu- og hjólaferðum um og í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Ferðirnar hafa notið fádæma vinsælda hjá öllum aldurshópum enda sameinast þar reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans.

Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Næstu ferðir:

Föstudaginn 17. febrúar kl. 16 - Snjór og ís í Bláfjöllum

Laugardaginn 22. apríl kl. 11 - Fuglarnir fljúga heim - Fuglaskoðun í Grafarvogi

Laugardaginn 29. apríl kl. 12 - Á slóðum kræklingsins í Hvalfirði

Þriðjudaginn 2. maí kl. 17 - Eldfjalla- og gjótukönnun í Búrfellsgjá

Þriðjudaginn 13. júní kl. 17 - Pöddulíf í Elliðaárdal

Þriðjudaginn 21. júní kl. 16 - Álfaganga um Jónsmessu

Laugardaginn 26. ágúst kl. 11 - Sveppasöfnun í Heiðmörk

Laugardaginn 9. september kl. 11 - Holdsveiki og Hallgerður langbrók í Laugarnesi

Laugardaginn 23. september kl. 11 - Margt býr í Öskjuhlíðinni

Laugardaginn 7. október kl. 13.30 - Fjöruferð í Gróttu

Sævar Helgi Bragason
Sævar Helgi Bragason