Skip to main content
11. apríl 2017

Á leið í Evrópukeppni ungra vísindamanna í Tallinn

Tveir framhaldsskólanemar taka þátt í Evrópukeppni ungra vísindamanna í Tallinn í haust með tvö framúrskarandi rannsóknaverkefni sem kepptu til úrslita í Landskeppni ungra vísindamanna í liðinni viku. 

Landskeppnin Ungir vísindamenn er ætluð ungu fólki á aldrinum 15 – 20 ára og er liður í Evrópuverkefninu Ungir vísindamenn sem haldið er á vegum Evrópusambandsins. Háskóli Íslands sér um framkvæmd keppninnar hér á landi. Keppnin snýst um að efla hæfni ungs fólks til að vinna að rannsóknarverkefnum og stuðla að auknu frumkvæði og sjálfstæðum vinnubrögðum nemenda. Tilgangurinn er jafnframt að hvetja til samstarfs ungra vísindamanna þvert á landamæri, menningu og tungumál.

Landskeppnin fór fram í Háskóla Íslands 6. apríl síðastliðinn. Tvö rannsóknarverkefni höfðu verið valin til þátttöku og höfðu keppendur unnið að þeim undanfarna mánuði. Dómnefnd keppninnar mat bæði verkefni sem framúrskarandi og aðeins herslumunur skildi milli fyrsta og annars sætis.

Vífill Harðarson, nemandi við Menntaskólann við Hamrahlíð, varð í fyrsta sæti með verkefnið „Can Icelandic cod oil be as efficiently saponified as coconut oil?“  Þar rannsakaði hann hvort nýta mætti hliðarafurð við framleiðslu lýsis til að búa til sápu. Með verkefninu vildi Vífill stuðla að því að auðlindir við Íslandsstrendur yrðu betur nýttar, meðal annars vegna umhverfissjónarmiða. Leiðbeinandi Vífils var Stefan Christian Otte, kennari við Menntaskólann við Hamrahlíð, en Vífill naut einnig aðstoðar Guðmundar G. Haraldssonar, prófessors í efnafræði við Háskóla Íslands, og fékk stuðning frá LÝSI hf.

Í öðru sæti urðu Herdís Ágústa Linnet og Hafþór Freyr Líndal með verkefnið „Staða barna í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi“. Líkt og heitið gefur til kynna rannsökuðu þau hvort og hvernig Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er framfylgt á Íslandi við móttöku barna á flótta. Herdís og Hafþór eru bæði í Ungmennaráði Barnaheilla en Herdís stundar nám við Menntaskólann við Hamrahlíð  og Hafþór í Þýskalandi. Lögfræðingur Barnaheilla, Þóra Jónsdóttir, leiðbeindi þeim við verkefnið en þar að auki nutu þau stuðnings Ernu Kristínar Blöndal, doktorsnema í lögfræði við Háskóla Íslands. 

Í dómnefnd sátu Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarsetra Háskóla Íslands (formaður), Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri Vísindavefsins, og Birgir Á. Urbancic framhaldsskólakennari. Sem fyrr segir var það mat dómnefndar að um tvö mjög frambærileg verkefni væri að ræða. Þá tók dómnefndin það fram að það væri sérstaklega ánægjulegt að sjá hvernig keppendur hefðu valið sér verkefni með það í huga að bæta samfélag sitt með einhverjum hætti og sýna þannig samfélagslega ábyrgð. 

Dómnefndin mælti með því að bæði verkefnin fengju að fara alla leið í Evrópukeppni ungra vísindamanna. Því munum Vífill og Herdís taka þátt í þeirri keppni en hún verður haldin í Tallinn í Eistlandi í september 2017.

Landskeppni ungra vísindamanna fer aftur af stað í haust og geta áhugasamir kynnt sér keppnina á heimasíðu hennar

Vífill Harðarson og Herdís Ágústa Linnet
Vinningshafarnir Vífill og Herdís ásamt dómnefnd keppninnar og leiðbeinendum.