Skip to main content

Lýðheilsuvísindi

Lýðheilsuvísindi

Þverfræðilegt framhaldsnám

Lýðheilsuvísindi

MPH gráða – 120 einingar

Meistaranám í lýðheilsuvísindum er fjölbreytt og hagnýtt nám þar sem áhersla er á undirstöðuþekkingu á áhrifaþáttum heilbrigðis og forvörnum.

Nemendur fá þjálfun í aðferðum og túlkun rannsókna á heilsufari og áhrifavöldum þess og skilning á beitingu heilsueflandi aðgerða.

Skipulag náms

X

Lýðheilsa: Vísindi, stjórnmál, forvarnir (LÝÐ101F)

Í námskeiðinu er farið yfir skilgreiningar, sögu, markmið, gildissvið, siðfræði og aðferðir lýðheilsuvísinda svo og íslensk- og alþjóðleg lög og sáttmála sem tengjast lýðheilsu. Nokkur áhersla er lögð á lýðheilsu og heilbrigðisvísa í alþjóðlegu samhengi en einnig á íslenska heilbrigðiskerfið, stjórnun og fjármögnun þess svo og samanburð við heilbrigðiskerfi annara þjóða. Ennfremur er farið yfir söfnun heilbrigðisupplýsinga á Íslandi sem á alþjóðavísu og nýtingu þeirra til rannsókna og stefnumótunar í heilbrigðismálum. Einnig er lögð áhersla á þau svið lýðheilsu sem eru á döfinni hverju sinni.

X

Áhrifavaldar heilbrigðis, forvarnir og heilsuefling (LÝÐ104F)

Stærstu áhættuþættir ótímabærra dauðsfalla svo sem hár blóðþrýstingur, tóbaksnotkun, yfirþyngd og hreyfingarleysi valda um 22 milljónum dauðsfalla árlega á heimsvísu. Bæta mætti allt að 5 árum við meðalaldur jarðarbúa með því að draga hóflega úr algengi átta algengstu áhættuþáttanna. Markmið námskeiðsins er að undirbúa nemendur fyrir þetta viðfangsefni og skiptast áherslur í nokkra meginþætti:

1. Áhrifavaldar heilbrigðis: Hvaða þættir hafa mest áhrif á heilsu og heilbrigði?

2. Aðferðafræði:

a) Hvernig skipuleggjum við forvarnar- og heilsueflingarverkefni?

b) Hvar er hagkvæmast að byrja? Hagfræðileg greining á inngripum.

c) Hvernig höfum við jákvæð áhrif á atferli einstaklinga? Líkön í atferlisfræði, áhugahvetjandi samtöl, atferlishagfræði, samskiptafræði og félagsleg markaðsfærsla.

d) Hvernig höfum við áhrif á ,,kerfið”? Hagsmunagæsla (lobbyismi), bréfaskrif til þingmanna, umfjöllun í fjölmiðlum.

3. Nánari umfjöllun um helstu viðfangsefni: háþrýsingur, sykursýki, hjarta- og æðasjúkdomar, næring og mataræði, ofþyngd og offita, hreyfing, tóbaksvarnir, krabbamein, áfengi og vímuefni, slysavarnir, umhverfi og atvinna, geðrækt og sjálfsvígsforvarnir, kynheilbrigði og sjálfsmynd, sértækar lausnir fyrir börn og unglinga.

Framsetning: Fyrirlestrar umsjónarkennara og valinna gestafyrirlesara sem eru meðal fremstu sérfræðinga þjóðarinnar á sínu sviði. Lagt verður upp úr umræðum, virkni og þátttöku nemenda í tímum. Einnig vinna nemendur hópverkefni þar sem þeir kynna sér til hlítar valinn áhættuþátt og gefa tillögur að úrbótum.

X

Faraldsfræði - megindleg aðferðafræði (LÝÐ107F)

Námskeiðið er inngangur að faraldsfræðilegum rannsóknaraðferðum og nálgun orsaka. Námskeiðið gefur yfirlit yfir mælingar á tíðni sjúkdóma, áhættu og afstæðri áhættu, gerðir faraldsfræðilegra rannsókna (tilraunir og íhlutandi rannsóknir, hóprannsóknir, tilfella-viðmiðsrannsóknir). Áhersla er lögð á kerfisbundna skekkjuvalda og á aðferðir til að sneiða hjá þeim á undirbúningsstigi rannsókna svo og í úrvinnslu gagna. Nemendur fá þjálfun í því að ritrýna faraldsfræðilegar rannsóknarniðurstöður.

X

Líftölfræði I (LÝÐ105F)

Inngangur að hagnýtri líftölfræði í lífvísindum. Yfirlit er gefið yfir tegundir breyta; flokkabreytur, strjálar og samfelldar talnabreytur. Lýsandi tölfræði; lýsistærðir og myndræn framsetning gagna. Fræðilegar líkindadreifingar; tvíkostadreifing, Poisson dreifing og normaldreifing. Skilgreiningar á slembiúrtaki og þýði. Dreifingar lýsistærða. Notkun á öryggisbilum og tilgátuprófum. Samanburður á meðalgildi hópa (samfelldar mælingar). Tölfræðipróf fyrir tíðnitöflur (flokkabreytur). Einföld og lógistísk aðhvarfsgreining og ROC greining. Lifunargreining með aðferð Kaplan Meier og Cox. Í fyrirlestrum og dæmatímunum verður notast við tölfræðiforritið R og RStudio umhverfið.

X

Málstofa nýnema í lýðheilsuvísindum, faralds- og líftölfræði (LÝÐ108F)

Námskeiðið undirbýr nemendur fyrir rannsóknartengt og þverfræðilegt framhaldsnám. Farið verður yfir ýmsar hagnýtar upplýsingar, fræðileg vinnubrögð og skipulag náms, heimildaleit og vísindalæsi m.ö. Nemendur fá einnig nauðsynlega undirstöðuþjálfun í tölfræðiforritinu R.

X

Verklag í vísindum (LÝÐ202F)

Námskeiðið veitir hagnýta leiðsögn við undirbúning rannsóknar. Heimildaöflun, tilgátuþróun og gerð yfirlitsgreinar (systematic critical review) á fræðasviði fyrirhugaðaðrar rannsóknar. Nemendur fá einnig þjálfun í að vinna rannsóknaráætlun og kynna hana.

Námskeiðið er ætlað nemendum á meistara- eða doktorsstigi sem hafa valið sér svið/rannsóknarspurningu lokaverkefnis.

X

Alþjóðaheilsa (LÝÐ045F)

Námskeiðið fjallar um lýðheilsu í hnattrænu samhengi, sögu og áherslur. Fjallað verður um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og stefnu Íslands í innleiðingu þeirra. Einnig munu sérfræðingar á hverju sviði, íslenskir og erlendir, fjalla um viðfangsefni innan alþjóðaheilsunnar, svo sem heilbrigðisvísa; sjúkdómsbyrði og áhrifaþætti heilsu í löndum heimsins sem búa við fátækt og ójöfnuð og þær leiðir sem gætu stuðlað að bættri heilbrigðisþjónustu og auknu heilbrigði; áhrif öryggis og átaka á heilsu; og heilsuáhrif hamfara.

Stefnt verður á að nemendum verði boðið í vettvangsheimsókni til stofnana sem koma að stefnu Íslands í alþjóðastarfi og móttöku flóttamanna.

X

Málstofa meistaranema í lýðheilsuvísindum (LÝÐ401F)

Málstofan er vettvangur nemenda í meistaranámi í lýðheilsuvísindum fyrir þátttöku í fræðilegri umræðu sem og umræðu um lokaverkefnið sitt.

Umfjöllunarefni eru til að mynda samlestur á grein eða vinnustofur/umræður um lokaverkefnið en einnig geta nemendur sótt opna fyrirlestra eða viðburði sem tengjast þeirra áhugasviði.


X

Rannsóknarþjálfun í aðferðum lýðheilsuvísinda (LÝÐ098F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þjálfun í aðferðum og fái innsýn í framkvæmd tiltekins rannsóknarverkefnis í lýðheilsu. Nemendur kynnast fræðilegum bakgrunni þeirrar rannsóknar sem þau starfa við og fá þjálfun í að taka þátt í skilgreindum hluta hennar, en viðfangsefni ráðast af þörfum þess rannsóknarverkefnis sem ráðið er til hverju sinni. Dæmi um starfsþætti væri t.d. þátttaka í undirbúningi rannsóknarverkefnis og ýmis vinna tengd gagnasöfnun og úrvinnslu gagna (hreinsa og/eða greina). Nemendur munu einnig kynnast ólíkum verkþáttum rannsóknarverkefnisins undir handleiðslu þess vísindafólks sem leiðir rannsóknina og í samstarfi við rannsóknarteymið.

Nemendur sækja reglulega fundi með rannsakendum og umsjónarkennara námskeiðsins. Rannsóknarþjálfunin er skipulögð sérstaklega fyrir hvern og einn nemanda með tilliti til efnis og framvindu rannsóknar, leiðbeinanda og bakgrunns nemanda. Námspláss takmarkast af þeim rannsóknarverkefnum sem í gangi eru við Miðstöð í lýðheilsuvísindum hverju sinni og nemendur sækja um skráningu í námskeiðið á skrifstofu námsins.

X

Hagnýt þjálfun á vettvangi lýðheilsu (LÝÐ099F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist hagnýta reynslu tengdri lýðheilsufræðum innan tiltekinnar stofnunar eða fyrirtækis. Nemandi kynnist helstu starfsþáttum, gildum og markmiðum stofnunarinnar með því að taka þátt í skilgreindu verkefni. Dæmi um slíkt verkefni gæti verið þátttaka í undirbúningi, útfærslu og framkvæmd forvarna- og heilsueflingarverkefna eða ákveðinni meðferð sem fram fer á stofnuninni.

Til viðbótar störf á vettvangi mæta nemendur í þrjá umræðutíma með umsjónarkennara. Í umræðutímum verður lögð áhersla á að nemendur fái tækifæri til að miðla upplifun sinni af vettvangsnáminu og læra af reynslu samnemenda sinna, auk þess að fá leiðsögn frá umsjónarkennara.

Vettvangsnámið er skipulagt sérstaklega fyrir hvern og einn nemanda með tilliti til stofnunar, leiðbeinanda og bakgrunns nemanda.

Sækja þarf um skráningu í námskeiðið og eru stöður á vettvangi auglýstar nemendum á haustmisseri.

X

Verkefni til meistaraprófs í lýðheilsuvísindum (LÝÐ441L)

Meistaranám í lýðheilsuvísindum (MPH) er 120 eininga þverfræðilegt framhaldsnám og þar af skal rannsóknarverkefni vera 30-60 einingar. Að öllu jöfnu má skilgreina 60e verkefni sem sjálfstæða rannsókn sem lýkur í vísindagrein, tilbúinni til birtingar, ásamt fræðilegum inngangi. 30e verkefni er fræðileg ritgerð eða kerfisbundið yfirlit yfir þekkingargrunn á ákveðnu sviði lýðheilsuvísinda. Boðið er upp á einstaklingsviðtöl við nýnema undir lok fyrsta misseris námsins, þar sem hugmyndir nemenda um rannsóknarverkefni eru ræddar. Í námskeiðinu Verklag í vísindum á öðru misseri fullvinna nemendur rannsóknaráætlun og velja leiðbeinanda og nefnd (þar sem við á). Nemendur í 60e verkefni geta nýtt námskeiðið Klínísk spálíkön, á þriðja misseri námsins, til úrvinnslu á gögnum fyrir lokaverkefni sitt. Þá er gert ráð fyrir að nemendur taki þátt í málstofum, æfingavörnum og mæti á að lágmarki í fimm opnar MPH varnir á námsferlinum. Nánari leiðbeiningar um viðmið og framvindu lokaverkefnis er að finna á hópvef MPH nema í Uglu. Nemar í lýðheilsuvísindum eru vistaðir innan Læknadeildar meðan á námi stendur, en brautskrást frá heimadeild leiðbeinanda.

Markmið meistaraverkefnis er að veita nemanum þjálfun í að hanna, skipuleggja, þróa og framkvæma rannsóknarverkefni í lýðheilsuvísindum, læra að taka tillit til þeirra takmarkana sem ráðast af aðferðum, tækni og reglum, að geta með sjálfstæðum hætti og í rituðu máli skilgreint rannsóknarviðfangsefni sitt, sett fram rannsóknarspurningar og tilgátur.

X

Verkefni til meistaraprófs í lýðheilsuvísindum (LÝÐ441L)

Meistaranám í lýðheilsuvísindum (MPH) er 120 eininga þverfræðilegt framhaldsnám og þar af skal rannsóknarverkefni vera 30-60 einingar. Að öllu jöfnu má skilgreina 60e verkefni sem sjálfstæða rannsókn sem lýkur í vísindagrein, tilbúinni til birtingar, ásamt fræðilegum inngangi. 30e verkefni er fræðileg ritgerð eða kerfisbundið yfirlit yfir þekkingargrunn á ákveðnu sviði lýðheilsuvísinda. Boðið er upp á einstaklingsviðtöl við nýnema undir lok fyrsta misseris námsins, þar sem hugmyndir nemenda um rannsóknarverkefni eru ræddar. Í námskeiðinu Verklag í vísindum á öðru misseri fullvinna nemendur rannsóknaráætlun og velja leiðbeinanda og nefnd (þar sem við á). Nemendur í 60e verkefni geta nýtt námskeiðið Klínísk spálíkön, á þriðja misseri námsins, til úrvinnslu á gögnum fyrir lokaverkefni sitt. Þá er gert ráð fyrir að nemendur taki þátt í málstofum, æfingavörnum og mæti á að lágmarki í fimm opnar MPH varnir á námsferlinum. Nánari leiðbeiningar um viðmið og framvindu lokaverkefnis er að finna á hópvef MPH nema í Uglu. Nemar í lýðheilsuvísindum eru vistaðir innan Læknadeildar meðan á námi stendur, en brautskrást frá heimadeild leiðbeinanda.

Markmið meistaraverkefnis er að veita nemanum þjálfun í að hanna, skipuleggja, þróa og framkvæma rannsóknarverkefni í lýðheilsuvísindum, læra að taka tillit til þeirra takmarkana sem ráðast af aðferðum, tækni og reglum, að geta með sjálfstæðum hætti og í rituðu máli skilgreint rannsóknarviðfangsefni sitt, sett fram rannsóknarspurningar og tilgátur.

X

Viðfangsefni í faraldsfræði (Faraldsfræði III) (LÝÐ097F)

Markmið námskeiðsins er að auka skilning nemenda á sérstökum sviðum innan faraldsfræði, kynna sérstaka aðferðafræði sem tilheyrir viðkomandi sviðum, og að efla hæfni nemenda í að meta gæði og túlka niðurstöður faraldsfræðilegra rannsókna.

Námskeiðið mun fjalla ítarlega um 4-6 sérstök rannsóknarsvið innan faraldsfræðinnar, sem dæmi faraldsfræði fæðinga, næringar, og smitsjúkdóma. Mismunandi umfjöllunarefni kunna að vera valin frá ári til árs. 

X

Líftölfræði II (Klínísk spálíkön) (LÝÐ301F)

Námskeiðið er beint framhald af Líftölfræði I og veitir nemendum praktíska handleiðslu í tölfræðiúrvinnslu í eigin rannsóknarverkefnum. Útreikningar á hlutfallslegri áhættu og leiðréttri hlutfallslegri áhættu. Fylgni og einföld aðhvarfsgreining, margvíð línuleg aðhvarfsgreining og lógistísk aðhvarfsgreining. Námskeiðið byggist á fyrirlestrum og dæmatímum. Í dæmatímunum verður notast við tölfræðiforritið R.

X

Kenningar og sjónarhorn í fötlunarfræði (FFR102F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu á þróun hugmynda og kenninga um fötlun og fái innsýn í fræðilega umfjöllun og rannsóknir á því sviði. Lögð er áhersla á þróun fötlunarfræða sem þverfræðilegrar og gagnrýnnar fræðigreinar með náin tengsl við réttindabaráttu fatlaðs fólks. Fjallað verður um margbreytileg félagsleg og menningarleg sjónarhorn og kenningar fræðigreinarinnar. Sérstök áhersla verður á þá hugmyndafræði sem legið hefur til grundvallar stefnumótunar og þjónustu við fatlað fólk undanfarna áratugi, þ.e.; 1) hugmyndafræði um “eðlilegt líf” normaliseringu, 2) hugmyndafræði um “sjálfstætt líf” independent living og 3) mannréttindasjónarmið. Jafnframt verður fjallað um tengsl hugmyndafræðinnar við daglegt líf fatlaðs fólks. 

X

Samfélög manna og örvera: Örverur, menning, heilsa, og umhverfi (MON002M)

Námskeiðslýsing

Hvað segir skyrgerð okkur um þróun íslensks samfélags? Hver eru áhrif þarmaflórunnar á heilsu okkar? Hvernig losum við okkur við úrgang í þéttbýli á umhverfisvænan hátt og hvaða þögli meirihluti jarðarbúa er þar að verki? Lykillinn að öllum þessum spurningum er sá sami:  Samfélög örvera hafa mótað jörðina og íbúa hennar frá upphafi lífs eða í milljarða ára. Til að skilja og takast á við áskoranir 21. aldar varðandi umhverfi, heilsu og samfélag, þurfum við að skilja hlutverk þessara fyrstu lífvera betur og hvernig það tvinnast saman við líf okkar sjálfra og nágranna okkar í lífríkinu. Nýlegar rannsóknir sýna að meirihluti frumanna í og á mannslíkamanum tilheyrir fjölbreyttum tegundum örvera. Þýðir það að menn séu örverur? Eða “bara” að samlífið við örverur sé nánasta og mikilvægasta sambandið sem við eigum í? Námskeiðið býður nemendum að kanna samlífi örvera og manna út frá ýmsum sjónarhornum, sem eru m.a. ættuð úr örverufræði og þjóðfræði, matvælafræði, næringarfræði og mannfræði. Litið verður til þess hvernig örverur koma að þróun og varðveislu matvæla í samfélögum manna, hlutverk þeirra í meltingunni og tengsl við andlega og líkamlega heilsu. Einnig hvernig örverur viðhalda lífsnauðsynlegum hringrásum lífrænna efna  og geta umbreytt rusli og úrgangi í endurnýjanlegt form eins og heilbrigðan jarðveg.

Námskeiðið vinnur út frá hugmyndinni um „eina heilsu“ sem mótast hefur síðustu áratugi og vísar til þess að heilbrigði umhverfis, manna og annarra dýra, og samfélaga, er samtengt á þann hátt að niðurbrot á einhverju þessara sviða leiðir til niðurbrots á öðrum. Efnið verður skoðað út frá einstökum dæmum um samlífi örvera og manna, eins og áhrifum örvera á bragð og samsetningu matvæla, áhrifum mataræðis á þarmaflóru, hlutverki gerjunar í mótun mannlegra tengsla og hvernig losunarkerfi í þéttbýli rjúfa hringrás næringarefna í umhverfi mannsins.

X

Faraldsfræði næringar (NÆR701F)

Markmið námskeiðsins er að auka skilning nemenda á helstu rannsóknaraðferðum í faraldsfræði næringar og að efla skilning nemenda á notkun erfðafræði innan þessa sviðs.

Námskeiðið mun í byrjun fjalla um grunnatriði faraldsfræðinnar og svo verður farið ítarlega í rannsóknaraðferðir innan faraldsfræði næringar. Þar á eftir verða kynnt sérstök viðfangsefni innan þessa sviðs. Í lokin verður fjallað um notkun erfðafræði í faraldsfræði næringar (nutrigenomics).

X

Almenn kynjafræði (KYN101F)

Í námskeiðinu er fjallað um helstu viðfangsefni kynjafræða í ljósi margbreytileika nútímasamfélaga. Kynjafræðilegu sjónarhorni er beitt til að gefa yfirlit yfir stöðu og aðstæður ólíkra hópa í samfélaginu. Fjallað er um upphaf og þróun kvennabaráttu og kynjafræða. Kynnt verða helstu hugtök kynjafræða svo sem kyn, kyngervi, eðlishyggja og mótunarhyggja. Skoðað er hvernig kyn er ávallt samtvinnað öðrum samfélagslegum áhrifabreytum.

Kennslufyrirkomulag: Námið byggir á vendikennslu sem þýðir að allir fyrirlestrar verða aðgengilegir á Canvas. Stað- og fjarnemar mæta vikulega í umræðutíma í háskólanum eða á Teams og netnemar taka vikulega þátt í umræðum á Canvas.

X

Eigindlegar rannsóknaraðferðir I (FMÞ103F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist fjölbreytileika og fræðilegum forsendum eigindlegrar rannsóknahefðar í félagsvísindum og öðlist reynslu í að beita eigindlegum aðferðum. Um hagnýtt námskeið er að ræða þar sem hver nemandi vinnur sjálfstætt rannsóknarverkefni sem felst í því að hanna og undirbúa rannsókn, afla gagna, greina þau og skrifa um helstu niðurstöður undir handleiðslu kennara. Í námskeiðinu verður farið ítarlega í undirbúning rannsókna, gerð rannsóknaráætlunar, gagnaöflun, greiningu og skrif.

X

Menntun, félagslegur hreyfanleiki og félagsleg lagskipting (FÉL501M)

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni? Í þessu námskeiði er skoðað hvernig félagslegur bakgrunnur einstaklings hefur áhrif á þá félagslegu stöðu sem sem viðkomandi nær að lokum í lífinu og hvernig ójöfnuður endurskapast frá einni kynslóð til annarrar. Námskeiðið fjallar um hvernig félagslegur hreyfanleiki hefur breyst í gegnum tíðina og milli landa og hvaða hlutverki menntun gegnir fyrir félagslegan hreyfanleika. Fjallað verður um helstu kenningar sem notaðar eru til að útskýra ójöfnuð í menntun og félagslegum hreyfanleika og (hugsanlegar) breytingar yfir tíma. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á félagslegan bakgrunn einstaklinga (stétt, menntun foreldra eða félags-efnahagslega stöðu foreldra) en misrétti á grundvelli kyns og þjóðernisuppruna  verður einnig skoðað á síðustu fundum. Í málstofunni munum við lesa blöndu af klassískum og nýlegum textum. Jafnframt verður sérstök áhersla lögð á að fjalla um lestur og niðurstöður frá öðrum löndum í samanburði við Ísland.

X

R forritun (MAS102M)

Í námskeiðinu munu nemendur framkvæma hefðbundnar tölfræðiaðferðir á raunverulegum gagnasöfnum. Áhersla verður lögð á fjölbreytu aðhvarfsgreiningu (e. multiple linear regression). Nemendur beita fáguðum aðferðum við myndræna framsetningu sem og sjálfvirka skýrslugerð. Námsmat verður í formi raunhæfra verkefna þar sem nemendur framkvæma ofangreind atriði á raunverulegum gagnasöfnum með það fyrir augum að svara rannsóknarspurningum.

X

Hagnýtt línuleg tölfræðilíkön (STÆ312M)

Í námskeiðinu er fjallað um einfalda og fjölvíða aðhvarfsgreiningu ásamt fervikagreiningu (ANOVA) og samvikagreiningu (ANCOVA). Að auki er farið í tvíkosta aðhvarfsgreiningu (binomial regression) og rætt um hugtök því tengt, svo sem gagnlíkindi (odds) og gagnlíkindahlutfall (odds ratio).
Námskeiðið er framhald af dæmigerðu grunnnámskeiði í tölfræði sem kennd eru á hinum ýmsu sviðum skólans. Farið verður í aðferðir til að meta stika í línulegum líkönum, hvernig smíða má öryggisbil og kanna tilgátur fyrir stikana, hverjar forsendur líkananna eru og hvað hægt sé að gera sé þeim ekki fullnægt. Verkefni eru unnin í tölfræðihugbúnaðinum R.

X

Þróunarsamvinna: Stefnur og stofnanir. Lesnámskeið. (MAN018F)

Fjallað verður um ágreining um þróunarsamvinnu. Þá verða kynntar mismunandi leiðir til þróunaraðstoðar, styrk þeirra og veikleika. Til umfjöllunar verða fjölþjóðastofnanir, tvíhliða stofnanir, frjáls félagasamtök, nýir þróunaraðilar og viðskipti. Nálganir sem ræddar verða eru m.a. verkefnanálgun, geiranálgun, árangursmiðuð stjórnun, þátttökunálgun og  samþætting. Einnig verður fjallað um auðlindir og umhverfismál. Loks verður rætt um þróunarsamvinnu í óstöðugum ríkjum og neyðraðstoð.

Athugið: Námskeiðið er einungis ætlað nemendum sem eiga þetta námskeið eftir í skyldu, þ.e nemendum í diplómanámi í þróunarfræði eða hnattrænni heilsu sem og MA-nemendum í hnattrænum fræðum með þróunarfræði sem sérsvið.

X

Inngangur að umhverfis- og auðlindafræði (UAU102F)

Hin öra fjölgun mannkynsins og umsvifin sem henni fylgja hafa á undanförnum áratugum haft gríðarleg og sívaxandi áhrif á náttúruauðlindir og umhverfi. Til þess að skilja þessi áhrif og og geta valið réttu leiðirnar til að takast á við þau, þarf að beita þverfræðilegum aðferðum, þar sem gripið er jöfnum höndum til náttúrufræði, félagsfræði, hagfræði,verkfræði og fleiri greina. Áður en nemendur læra um þverfræðilegar aðferðir til að nálgast aðsteðjandi vanda, þurfa þeir að átta sig á því í hverju vandinn er fólginn en það er einmitt markmið þessa námskeiðs. Fjallað verður um umhverfi og auðlindir almennt með áherslu á gildi þeirra fyrir mannkynið og helstu orsakir umhverfisvandamála og þýðingu þeirra bæði í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Einkum verður farið yfir eftirtalda efnisflokka: Fólksfjölgun, tækni og hagvöxt. Líffræðilega fjölbreytni og útrýmingu tegunda. Jarðveg og jarðvegseyðingu. Landbúnað og umhverfisáhrif. Mengun og heilsu . Loftmengun, vatnsmengun og jarðvegsmengun. Helstu mengunarvalda í andrúmslofti og áhrif þeirra. Eyðingu ósonlagsins og loftslagsbreytingar. Sorp og spilliefni. Ferskvatnsauðlindir. Auðlindir sjávar. Auðlindir skóga og votlendis. Orkuauðlindir. Orkunýtingu og umhverfisáhrif.

X

Hnattvæðing (MAN095F)

Í námskeiðinu verða skoðaðar nýlegar kenningar og rannsóknir sem tengjast hnattvæðingu og hnattrænum ferlum. Markmið námskeiðsins er að gefa nemendum yfirsýn yfir mikilvæg þemu sem tengjast hnattvæðingarferlum.  Skoðaðar verða rannsóknir sem varpa ljósi á ólíkar hliðar hnattvæðingar og afleiðingar fyrir félagslegan, efnislegan og pólitískan veruleika. Í námskeiðinu er bæði fjallað á gagnrýnin hátt um fyrrnefnd hugtök en einnig lögð áhersla á að skoða rannsóknir á hvernig fólk er þátttakendur/þolendur/gerendur í hnattvæðingarferlum.

Kennslan felst í fyrirlestrum og umræðum. 

Námskeiðið er kennt á ensku, en hægt er að skila inn verkefnum á íslensku.

X

Staða Íslands í alþjóðakerfinu (ASK105F)

Markmið námskeiðsins er að kynna nemendur fyrir alþjóðasamvinnu og stöðu Íslands í alþjóðakerfinu. Hnattvæðing verður skoðuð í sögulegu ljósi og farið yfir helstu kenningar um hnattvæðingu. Fjallað verður um áhrif hnattvæðingar á stjórnmál, efnahagsmál, ríki og einstaklinga. Utanríkisstefna Íslands verður greind og áhersla lögð á þau málefni sem eru í forgangi hjá íslenskum stjórnvöldum um þessar mundir. Sjónum er beint að varnar- og öryggismálum á Íslandi, þátttöku Íslands í málefnum norðurslóða og norrænu samstarfi, og stöðu Íslands í ljósi breyttrar heimsmyndar. Fjallað verður sérstaklega um stofnanir sem sinna öryggismálum á landinu eins og Landhelgisgæsluna, Póst- og fjarskiptastofnunina og Ríkislögreglustjóra. Samrunaþróunin í Evrópu verður skoðuð með tilliti til þeirra leiða sem Ísland hefur valið í samskiptum sínum við Evrópu. Skoðað verður sérstaklega hvaða áhrif EES-samningurinn hefur haft á Íslandi. Einnig verður gerð grein fyrir þátttöku Íslands í starfi Sameinuðu þjóðanna og framboði Íslands til Öryggisráðs SÞ.

X

Hnattrænar loftslagsbreytingar (UAU107M)

Loftslagsbreytingar eru hnattrænt vandamál og eitt af mest krefjandi umhverfisvandamálum líðandi stundar og verður áfram í nánustu framtíð. Síðan 1992 hafa verið margir fundir og samkomulög á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Í námskeiðinu verður farið yfir loftslagsbreytingar frá nokkrum sjónarhornum. Byrjað á að fara yfir helstu gögn og vísindi er tengjast loftslagsbreytingum og líkönum af framtíðar breytingum. Síðan verður fjallað um áhrif og varnarleysi (e. vulnerability) og viðleitni til að draga úr áhrifum og aðlagast loftslagsbreytingum. Einnig er fjallað um málefni eins og loftslags-flóttamenn, mismunandi áhrif eftir kyni og samningaviðræður.

Einkunnargjöf byggir á skriflegu verkefni, þátttöku í tímum og kynningum, auk stuttrar könnunar. Nemendur sem taka þetta námskeið hafa almennt mjög mismunandi bakgrunn og þú munt hafa tækifæri til að læra um loftslagsbreytingar frá mismunandi sjónarhornum.

X

Hnattræn heilsa (MAN0A3F)

Í námskeiðinu verður farið yfir helstu forgangsverkefni á fræðasviði hnattrænnar heilsu (e. global health). Fjallað verður um mismunandi sjúkdómsbyrði landa, ójöfnuð og helstu félags- og efnahagslegu áhrifaþætti á líf og heilsu fólks í hnattvæddum heimi. Sérstök áhersla verður á að skoða heilsu mæðra, nýbura, barna og ungs fólks frá hnattrænu sjónarhorni og uppbyggingu heilbrigðiskerfa til að veita góða og tímanlega þjónustu. Jafnframt verður fjallað um áskoranir í næringu þjóða og geðheilbrigði og forvarnir og samfélagslega þýðingu sýkinga eins og malaríu, berkla, HIV/AIDS, kóleru, Ebólu og COVID-19. Þá verður fjallað um áhrif umhverfis, ofbeldis, menningar, neyðarástands og starf alþjóðlegra stofnana og þróunarsamvinnu, Heimsmarkmiðin og siðfræðileg álitamál.

Vinsamlega athugið að ef þörf krefur vegna þátttöku erlendra nemenda þá verður námskeiðið kennt á ensku.

X

Kostnaðar- og nytjagreining (HAG101F)

Tilgangur kostnaðar-nytjagreiningar er að auðvelda töku ákvarðana sem snerta marga þjóðfélagsþegna með beinum eða óbeinum hætti. Markmið námskeiðsins í kostnaðar-nytjagreiningu er að kynna nemendum fræðilega undirstöður aðferðarinnar jafnt sem hagnýtingu hennar. Umfjöllunarefnin eru m.a.: Rekstrarhagfræðilegur grundvöllur kostnaðar-nytjagreiningar, mat á neytendaábata, framleiðendaábata og samfélagslegum ábata. Þjóðhagsleg og rekstrarhagfræðileg áhrif framkvæmda. Afvöxtun, ávöxtun og opinberir reiknivextir. Áhrif óvissu á mat á þjóðhagslegum áhrifum og verðmæti upplýsinga. Tilvistarvirði (existence value). Skilyrt verðmætamat. Verðmat á tíma, mannslífum, hávaða.

X

Inngangur að lyfjavísindum (LYF107M)

Lyfjafræðin er fjölbreytt faggrein. Með samþættingu ólíkra raungreinafaga eins og lífrænnrar efnafræði, líffræði og lífefnafræði getum við skilið hvernig hægt er að þróa ný lyf sem geta bætt núverandi sjúkdómsmeðferðir eða verið alfarið ný á markaði. Rannsóknir á eðlisefnafræðilegum eiginleikum þeirra, formúleringu í hentug lyfjaform og áhrif lyfsins á líkamann eru því mikilvægar. Í þessu námskeiði verður farið yfir þessa þætti á yfirgripsmikinn hátt með það að markmiði að gefa heildarsýn á þessa faggrein og er ætluð þeim sem hafa ekki grunn í lyfjafræði eða lyfjavísindum. Þetta námskeið er ætlað þeim sem hafa ekki bakgrunn í lyfjafræði eða lyfjavísindum

X

Samfélag og heilsa (SÁL146F)

Í námskeiðinu er farið í saumana á ólíkum kenningum félagslegrar sálfræði og mögulegri hagnýtingu þeirra á sviðum samfélags, umhverfis- og heilbrigðismála. Til dæmis verður fjallað um samfélagslega mikilvæg málefni svo sem félagslega stöðu, mismunun og fordóma, ójöfnuð, fjölmenningu, öldrun, áföll, loftslagsbreytingar og margt fleira. Nemendur munu öðlast innsýn í það hvernig hagnýta má niðurstöður sálfræðirannsókna í stefnumörkun og forvörnum.

X

Rekstur og heilbrigðisþjónusta (HJÚ142F)

Markmið námskeiðsins er að veita nemendum innsýn í fræðilega nálgun ýmissa hagrænna þátta sem hafa áhrif á starfsumhverfi í heilbrigðisþjónustu. Þessir þættir eru óumflýjanlegir í öllum rekstri stórum og smáum, hvort sem er opinber rekstur eða einkarekstur.  Í námskeiðinu er farið yfir með hvaða hætti þættirnir birtast og hvernig hægt er að hafa áhrif á þá rekstrinum til góða.  Meðal hugtaka sem farið verður yfir:

  • Framboð, eftirspurn, framleiðsluþættir, teygni
  • Breytilegur-, fastur-, beinn- og óbeinn kostnaður.
  • Áhrif skattheimtu og utanaðkomandi áhrif. Einkagæði og sameiginleg gæði.
  • Viðskipti og hlutfallslegir yfirburðir. Hringrás efnahagslífsins.
  • Framfærslukostnaður, vísitölur og þjóðhagsreikningar.
  • Fjárhagsbókhald, rekstrar- og efnahagsreikningur.
  • Rekstrarbókhald, mismunandi rekstrargreiningar.
X

R fyrir byrjendur (MAS103M)

Námskeiðið fjallar um tölfræðiúrvinnslu í forritinu R. Gert er ráð fyrir að nemendur hafi grunnþekkingu í tölfræði og munu nemendur læra að beita þeim tölfræðiaðferðum sem þeir þekkja í R. Farið verður í innlestur gagna, myndræna framsetningu, lýsandi tölfræði og hvernig algengustu tilgátupróf (t-próf, kí-kvaðratpróf o.s.frv) eru framkvæmd í R. Að auki verður nemendum kennt að nota knitr pakkann til að vinna skýrslur.

Námskeiðið er kennt á fimm vikum í þrjár kennslustundir á viku. Kennari heldur fyrirlestra og nemendur vinna verkefni.

X

Svefn, heilsa og endurheimt (ÍÞH049F)

Í námskeiðinu verður fjallað almennt um svefn en einnig verður fjallað um svefn í tengslum við íþróttir, heilsu og almenna vellíðan. Fjallað verður um svefn uppbyggingu, svefn hinna ýmsu aldurshópa og svefn í tengslum við heilsu, íþrótta- og afrekshópa, kvíða og algengar svefnraskanir. Námskeiðið verður byggt á útgefnu efni um lífeðlisfræði svefns og rannsóknum á svefni tengdum lýðheilsu og íþróttum.

X

Aðferðir í faraldsfræði (Faraldsfræði II) (LÝÐ085F)

Markmið námskeiðsins er að auka skilning nemenda á ítarefnum í faraldsfræði og að efla hæfi nemenda í að meta gæði og túlka niðurstöður faraldsfræðilegra rannsókna.

Námskeiðið mun fjalla ítarlega um framhaldsaðferðir í faraldsfræði. Fjallað verður um áhrif jákvæðrar og neikvæðrar blöndunar (positive and negative confounding), pörun (matching), líkindaskor (propensity score), áhrifsbreytingu (effect modification and interaction), nýlegar aðferðir til að takast á við blöndun (instrumental variables), orsakamyndir (causal diagrams), og hvað á að gera þegar gögn vantar í rannsóknina (missing data). Teknar verða fyrir vísindagreinar sem tengjast faraldsfræðilegum álitamálum í rannsóknum og þær ræddar ítarlega.

X

Áföll og heilsufarslegar afleiðingar þeirra (LÝÐ0A0F)

Námskeiðið fjallar um áföll í æsku og á fullorðinsárum, þ.m.t. ofbeldi, slys og hamfarir, og lífshættuleg veikindi, og tengsl þeirra við sálræna og líkamlega heilsu. Sérstök áhersla verður lögð á að kynna vísindagrunn þessara fræða og veita þjálfun í að lesa úr rannsóknum á þessu sviði. Helstu efnisatriði námskeiðsins eru m.a.:

  • Algengi áfalla og streituviðbrögð í kjölfar þeirra.
  • Sálrænn vandi í kjölfar áfalla, m.a. áfallastreituröskun, kvíði, þunglyndi, svefnvandi, fíknisjúkdómar og langvarandi sorg.
  • Sjúkdómsbyrði áfalla m.a. vegna hjarta- og æðasjúkdóma, krabbameina, sjálfsónæmissjúkdóma og sjálfsvíga.
  • Áhrif umhverfis- og erfðafræðilega þátta í þróun sálrænna og líkamlegra sjúkdóma í kjölfar áfalla.
  • Þættir sem stuðla að bata í kjölfar áfalla og draga úr áhættu á langvarandi heilsufarsvanda.
  • Gagnreynd meðferðarúrræði við áfallastreituröskun.

Námskeiðið er ætlað nemendum sem vilja auka vísindalega þekkingu sína á tengslum áfalla og heilsu og er einungis ætlað nemendum í framhaldsnámi. Námskeiðið byggir á fyrirlestrum umsjónarkennara og valinna gestafyrirlesara sem eru sérfræðingar á sviði áfalla. Lagt verður upp úr umræðum og virkri þátttöku nemenda í tímum. 

X

Hagnýt jafnréttisfræði fyrir erlenda stúdenta (KYN007F)

Námskeiðið er ætlað alþjóðlegum nemendum. Markmiðið er að kynna lykilhugtök kynja- og jafnréttisfræða og þjálfa nemendur í hagnýtu jafnréttisstarfi. Ýmsar alþjóðasamþykktir um jafnrétti og íslensk löggjöf kveða á um kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum. Námskeiðið er undirbúningur fyrir störf í alþjóðastofnunum, opinberri stjórnsýslu, menntakerfi, fjölmiðlum og önnur sérhæfð störf. Fjallað er um sögu og merkingu jafnréttishugtaksins með sérstakri áherslu á samþættingu kynja-, jafnréttis- og margbreytileikasjónarmiða og kynjuð fjármál. Fjallað er um birtingarform kyns og mikilvægi kynjavitundar í samfélagslegri umræðu og stefnumótun.

X

Náttúruvá og samfélag (LAN215F)

Í námskeiðinu er fjallað ítarlega um þann vanda sem náttúruvá af ýmsu tagi skapar samfélögum af mismunandi gerð og við ólíkar aðstæður. Framlag landfræði og félagsvísinda til þekkingar á náttúruvá og tengslum hennar við samfélagið er rakið. Farið er yfir helstu fræðileg hugtök og kenningar til að varpa ljósi á viðbrögð fólks og aðlögun þess að náttúruvá. Áhættuhugtakið er skoðað sérstaklega og gerð grein fyrir rannsóknum á skynjun einstaklinga og hópa á áhættu tengdri náttúruvá. Einnig er skoðað hvernig unnt er að leggja hlutlægt mat á áhættu og draga úr áhrifum atburða, staðbundið eða á stærri svæðum. Almannavarnahringrásin er kynnt og fjallað um hlutverk og ábyrgð hinna ýmsu viðbragðsaðila. Dæmi eru tekin af tilteknum atburðum í ríkari og fátækari hlutum heimsins. Nemendur kynna sér og safna gögnum um tiltekna atburði ítarlega, greina þau og rökræða viðbrögð og afleiðingar. Íslenskar rannsóknir landfræðinga og annarra á þessu sviði verða skoðaðar sérstaklega. Einnig fara nemendur í kynnisheimsóknir til íslenskra aðila og stofnana sem sinna almannavörnum og viðbragði við náttúruhamförum.

X

Lyfjafaraldsfræði (LYF220F)

Markmið námskeiðsins er að kynna fyrir nemum grundvallaratriði í faraldsfræði og hvernig hún tengist tölfræði og heilbrigðisvísindum. Þessi vitneskja er notuð til að skoða nánar rannsóknarspurningar á sviði lyfjafaraldsfræði. Fyrirlestrar gefa helstu undirstöðuatriði, en nemar vinna jafnhliða verkefni sem tengjast námsefninu. Grundvallaratriði faraldsfræði og lyfjafaraldsfræð sem tekin eru fyrir: áhætta/vernd, útkoma, orsakatengsl, mæling á útbreiðslu sjúkdóma og mæling áhættu, rannsóknasnið, hlutverk tilviljunar, gruggunar og bjaga í faraldsfræði, lyfjanotkunarrannsóknir, réttmæti og áreiðanleiki, úrtak, spurningalistar, eigindlegar aðferðir, gagnagrunnar, kerfisbundin samantek og safngreining, siðfræði í faraldsfræðirannsóknum og lyfjagát (Pharmacovigilance).
Mikilvægar rannsóknarspurningar í lyfjafaraldsfræði.
Notagildi lyfjafaraldsfræði í ákvarðanatöku (klíník og stefnumörkun).
Gátlisti yfir gæði rannsókna í faraldsfræði og lyfjafaraldsfræði.

X

Ójöfnuður og heilsa (FÉL098F)

Félagslegur ójöfnuður hefur áhrif á heilsu. Almennt hafa þeir sem eru í viðkvæmari stöðu í samfélaginu verri heilsu en þeir sem að betra hafa það. Í þessu námskeiði er sjónum beint að sambandi félagslegrar stöðu og heilsufars. Nemendur munu kynnast helstu kenningum innan heilsufélagsfræðinnar, s.s. kenningum Link og Phelan um grundvallarástæður sjúkdóma (fundamental causes of disease) og fara yfir rannsóknir á sviðinu. Eitt mikilvægasta framlag félagsfræðinnar er skilningur á því hvernig stærri samfélagslegir þættir (t.d. heilbrigðis- og velferðarkerfið) móta líf einstaklinga og við munum því skoða hvernig samband félagslegrar stöðu og heilsu mótast af svona þáttum. Þar sem að heilsa fólks er flókið fyrirbæri munum við einnig skoða hana í þverfaglegu ljósi og notast meðal annars við kenningar og rannsóknir úr lýðheilsufræðum, heilbrigðisvísindum, mannfræði og stjórnmálafræði. 

X

Kynferðisbrot, lög og réttlæti (FÉL601M)

Umræðan um kynferðisbrot og hvernig eigi að bregðast við þeim hefur farið hátt síðustu misseri, þá sérstaklega í kjölfar #MeToo hreyfingarinnar. Rannsóknir sýna að einungis lítill hluti kynferðisbrotamála eru kærð til lögreglunnar og aðeins örlítill hluti þeirra lýkur með sakfellingu. Því má segja að málaflokkurinn einkennist af réttlætishalla. Í auknum mæli sjáum við einnig þolendur kynferðisbrota segja sögu sína á samfélagsmiðlum eða í fjölmiðlum og í sumum tilvikum eru meintir gerendur ásakaðir opinberlega sem getur vakið ólík viðbrögð og haft ýmiss konar afleiðingar.

Í þessu námskeiði verður leitað skýringa á þessari samfélagsþróun út frá sjónarhóli félags- og afbrotafræði. Í námskeiðinu verður meðal annars leitað svara við eftirfarandi spurningum: Hverjir fremja kynferðisbrot og af hverju? Hvernig er reynsla karla sem verða fyrir kynferðisbrotum önnur en reynsla kvenna? Hver er munurinn á réttarstöðu sakborninga og réttarstöðu brotaþola? Af hverju er munur á ætlun og framkvæmd laganna? Hvernig hefur refsivörslukerfið þróast? Hver er munurinn á lagalegu réttlæti og félagslegu réttlæti? Hvernig eru óhefðbundin réttarkerfi betri eða verri en hefðbundin réttarkerfi? 

X

Heilbrigðis- og lífssiðfræði (HSP823M)

Fjallað verður um nokkur helstu álitamál á sviði lífsiðfræði á síðustu árum, einkum í tengslum við þróun á sviði erfðavísinda og erfðarannsókna og hugsanleg áhrif þeirra á heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstefnu.

Námskeiðið verður kennt samþjappað frá 2.–25. mars. Fyrirlestrar eru á þriðjudögum og fimmtudögum 15–17:20. 

Í lok námskeiðsins verður haldin málstofa með framsögum nemenda og verður tilhögun hennar ákveðin í samráði við nemendur. 

X

Sjálfbær framtíð (UAU207M)

Markmið námskeiðsins er að þjálfa gagnrýna hugsun nemenda  og leiðtogahæfileika með sjálfbæra framtíð að markmiði. Námskeiðið mun kenna praktískar aðferðir sem minnka munu vistfótspor (e. ecological footprint), einstaklinga/fyrirtækja/stofnana/samfélags. Áhersla verður lögð á þverfræðileika og vísindalegan ramma sjálfbærni - byggðan á aðferðafræði "systems thinking". Nemendur munu læra að nýta vísindi í víðum skilningi til að styðja við regulgerðir (e. Policy), kynnast þeim eiginleikum og aðferðum sem þarf til að leiða breytingar þjóðfélaga í átt til sjálfbærni auk þeirra þátta sem nauðsynlegir eru þegar sjálfbær samfélög eru skipulögð.

Við lok námskeiðsins munu nemendur hafa öðlast hæfileika til að leiða breytingar samfélags í átt til sjálfbærrar framtíðar. Nemendur munu ma. annars geta leitt vinnustofur sem miða að sjálfbærni. Námsmat mun fara byggt á frammistöðu í vinnustofum, kynningum og hópverkefnum. 

Lotunámskeið, kennt yfir fjórar helgar. Dagsetningar á vormisseri 2023 eru: 20.-21. janúar, 10.-11. febrúar, 3.-4. mars og 24.-25. mars. 

X

Áhrifaþættir öldrunar: Umhverfi, félagstengsl og heilsufar (ÖLD201F)

Markmið námskeiðsins er að dýpka þekkingu þátttakenda í öldrunarfræðum (gerontology) og öldrunarlækningum (geriatri). Fjallað verður um það hvernig umhverfi, félagsleg tengsl og heilsufar hafa áhrif á vellíðan aldraðra. Rætt verður um þjónustu við aldraða almennt og einnig hópa aldraðra með sérþarfir. Mismunandi kenningar öldrunarfræða verða til umræðu og hvernig þær hafa áhrif á viðhorf og þjónustu við aldraðra. Rannsóknir innlendar og erlendar á sviðinu verða kynntar svo og rannsóknaraðferðir öldrunarfræðinnar. Fjallað verður um teymisvinnu í öldrunarþjónustu og áhersla lögð á að kynna starfsaðferðir mismunandi starfsstétta sem vinna að málefnum aldraðra.

Námskeiðið er kennt í staðlotum og fyrirlestrum. Mætingaskylda er í staðlotur. 

Gestafyrirlesarar á sérsviðum öldrunarfræða og öldrunarlækninga.

X

Hagnýt félagssálfræði (SÁL240F)

Námskeiðið fjallar um hvernig nýta má kenningar, lögmál, aðferðir og niðurstöður rannsókna félagssálfræðinnar til að skilja og leysa raunveruleg samfélagsvandamál og viðfangsefni. Fjallað verður um heilsu- og fræðsluherferðir (social marketing), umhverfissálfræði, þvermenningarlega sálfræði (cross-cultural), hóphegðun, fordóma, ranghugmyndir og hugsanavillur um hagrænar stærðir, auglýsingar og neysluhegðun, fjármál og ályktunarvillur, svo dæmi séu tekin. Tilgangur námskeiðsins er ekki að kenna nemendum allt á þessum sviðum, heldur kynna þá fyrir ákveðnu sjónarhorni á samfélagsleg vandamál og hvernig er hægt að beita sálfræðilegri og vísindalegri þekkingu á þau. Lögð verður áhersla á sjálfstæð vinnubrögð nemenda og ýtt undir færni þeirra til að nýta þekkingu á félagssálfræði við þrautalausnir. Námsmat er fólgið í verkefnum þar sem praktísk vandamál eru tekin fyrir og leyst með kenningum og rannsóknarniðurstöðum félagssálfræði.

X

Vettvangsaðferðir (MAN601F)

Fjallað er um vettvangsaðferðir mannfræðinnar og nemendur þjálfaðir í beitingu þeirra. Áhersla er lögð á siðfræðileg álitamál, rannsóknaráætlanir, vettvanginn, þátttökuathugnanir, mismunandi tegundir viðtala, notkun myndrænna gagna, öflun heimilda, greiningu gagna og kynningu niðurstaðna.

X

Lýðheilsunæringarfræði (NÆR611M)

Námskeiðslýsing:

Í námskeiðinu eru kynnt helstu viðfangsefni og áskoranir lýðheilsunæringarfræðinnar en einnig aðferðir og nálganir á sviði heilsueflingar. Áhersla verður lögð á heilsueflingarverkefni á sviði næringar á vesturlöndum en einnig í þróunarlöndum. Næring er sett í samhengi við aðra heilsutengda hegðun, aðstæður fólks og lífshætti. Kynntar verða helstu kenningar um heilsutengt atferli hvaða þættir stýra neysluhegðun og hvað getur skipt máli ef unnið er að breytingum á heilsutengdri hegðun. Kynnt verða helstu næringartengdu forvarna- og heilsueflingarverkefni á Íslandi auk erlendra verkefna. Nemendur öðlast færni í að skipuleggja lýðheilsuverkefni á sviði næringar og hvernig má nota rannsóknaniðurstöður til forvarna og aðgerða sem miða að bættri heilsu. Fjallað verður um öll helstu skref í mótun og undibúningi verkefnis, framkvæmd þess og mati á árangri.

Meðal spurninga sem leitað er svara við á námskeiðinu má nefna:

Ráðum við því raunverulega hvað við leggum okkur til munns – eða höfum við takmarkað val?

Ákvarðast lýðheilsa einungis af pólitík?

Er næringarlæsi mikilvægt hugtak?

Er mataræði þitt að eyðileggja heilsu móður jarðar?

Færð þú eitthvað að borða ef það er stríð í útlöndum?

Hver er ábyrgð þín á börnum sem svelta í heiminum?

Hvað stjórnar heiminum í raun og veru?

Viltu eiga þátt í að breyta heiminum?

Skapaðu heilsueflingarverkefni að eigin vali.

X

Áhættuhegðun og seigla ungmenna (UME206F)

Í námskeiðinu er lögð áhersla á umfjöllun um áhættuhegðun ungmenna (t.d. vímuefnaneyslu, frávikshegðun, brokkgenga skólagöngu) og seiglu þeirra í tengslum við ýmsa uppeldislega, félagslega og sálfræðilega þætti. Viðfangsefni eru m.a. samskiptahæfni, geðraskanir, kynheilbrigði og áföll. Fjallað er ítarlega um ýmis konar verndandi þætti og áhættuþætti og þátt heimila, skóla og tómstundastarfs í að stuðla að velferð ungmenna. Kynntar eru bæði innlendar og erlendar rannsóknir á fræðasviðinu. Sérstök áhersla er á rannsóknir sem skoða tengsl ýmissa þroskaþátta og áhættuhegðunar. Verkefni í námskeiðinu miða að því að leita eftir sýn ungs fólks á áhættuþætti í lífi sínu.

Athugið: Hægt er að taka námskeiðið í fjarnámi. Kennsluinnlegg eru almennt tekin upp og sett inn á námsumsjónarkerfið CANVAS fyrirfram en ef kennsla fer fram í rauntíma þá er hún tekin upp. Vikulega eru umræðutímar (60 mín.) þar sem nemendur geta valið milli þess að koma á staðinn eða vera með á netinu. Hið sama á við þegar ritgerðir eru kynntar einu sinni á önninni þá geta nemendur verið á staðnum eða með á netinu.

X

Líftölfræði III (Lifunargreining) (LÝÐ079F)

Námskeiðið fjallar um tölfræðigreiningu á nýgengi (incidence) og eftirfylgnitíma (survival time) í ferilrannsóknum. Kennd verður notkun Poisson aðhvarfsgreiningarlíkana og aðferða í lifunargreiningu (survival analysis) eins og Kaplan-Meier aðferðarinnar (log-rank), Cox aðhvarfsgreiningar, Poisson aðhvarfsgreiningar og líkana með óstikuðum hættuföllum. Notast verður við tölfræðiforritin R. 

X

Introduction to Security Studies (ASK220F)

This course provides a comprehensive foundation in security studies. It examines concepts and theories relevant in the field, then considers approaches to, and practices of, security across different levels of analysis: individual, national, international, transnational, global and human.
The focus of security studies centres around questions of what, for whom, and how, is security. Answers to these questions vary according to what level of analysis is adopted, and which security domain is being discussed (eg political, military, economics, social, environmental, etc). The course explores these dimensions thoroughly, and then considers what they contribute to our practical knowledge and experiences of security.

X

Spurningalistakannanir (FÉL089F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning og verklega færni til að hanna og framkvæma spurningalistakannanir. Rætt verður um helstu úrtaksaðferðir og tegundir spurningalistakannanna (símakönnun, netkönnun o.s.frv.). Fjallað verður um helstu atriði í spurningalistagerð; einkanlega um orðalag og samhengi mælitækja (spurninga). Enn fremur verður fjallað um grundvallaratriði í mælingafræði og aðferðir til þess að meta áreiðanleika og réttmæti mælitækja. Í þessu samhengi verður farið yfir notkun þáttagreiningu (factor analysis) og atriðagreiningu (item analysis). Áhersla er lögð á að nemendur fái verklega reynslu af framkvæmd og úrvinnslu kannanna.

Að jafnaði er þetta námskeið kennt annað hvert ár.

X

Eigindlegar rannsóknaraðferðir II (FMÞ201F)

Fjallað er þá fjölbreytni sem er að finna í  eigindlegum rannsóknum. Rýnt er í fimm mismunandi rannsóknarhefðir, þ.e. tilviksathuganir, frásögurannsóknir, etnógrafíu, fyrirbærafræði og grundaða kenningu. Nemendur öðlast aukna færni í að afla rannsóknargagna á vettvangi og beita mismunandi greiningaraðferðum á eigindleg gögn. Þeir fá jafnframt þjálfun í framsetningu niðurstaðna í tengslum við fræðiskrif. Þá fá nemendur tækifæri til að ígrunda eigin rannsóknir og sjálfa sig sem eigindlega rannsakendur.

X

Hlutverk og stefnumótun alþjóðastofnana (ASK201F)

Alþjóðastofnunum hefur fjölgað verulega frá lokum síðari heimsstyrjaldar og samskipti ríkja fara í vaxandi mæli fram innan veggja þeirra. Í námskeiðinu verður gerð grein fyrir kenningum um eðli og hlutverk alþjóðastofnana og þeim ferlum sem stjórna starfsemi þeirra.

Í stað þess að fjalla sérstaklega um sögu og skipulag einstakra stofnana, mun þetta námskeið leggja áherslu á að kanna hið pólitíska kerfi sem liggur til grundvallar samstarfs ríkja innan alþjóðastofnana. Að hvaða leyti eru alþjóðastofnanir sjálfstæðir aðilar í alþjóðakerfinu?  Hverjir hafa áhrif á alþjóðastofnanir og hvernig gera þeir það? Hvernig eru alþjóðastofnanir fjármagnaðar og hvaða áhrif hefur það á rekstur þeirra? Hvers konar fólk vinnur í alþjóðastofnunum og hvaða áhrif hefur það á stofnanirnar sem það vinnur hjá? Þessum, og fleiri, spurningum verða gerð skil á námskeiðinu.

Nemendur munu kynnast þeim margvíslegu rannsóknaraðferðum sem nýttar eru til að svara þessum spurningum. Lesefni námskeiðsins er fjölbreyttt og við munum m.a. nýta okkur sögulegar rannsóknir, tilviksrannsóknir,  og bæði eigindlegar og megindlegar fræðigreinar og bókakafla. Lögð verður sérstök áhersla á nýlegar rannsóknir á sviði alþjóðastjórnmála svo nemendur fá góða yfirsýn yfir stöðu fræðasviðsins. Markmið námskeiðsins er því tvíþætt: í fyrsta lagi, að nemendur öðlist skilning á þeim þáttum, bæði pólitískum og stjórnsýslulegum, sem stýra starfsemi alþjóðastofnana og, í öðru lagi, að gera nemendum kleift að kryfja og vinna með fjölbreyttar rannsóknir á sviði alþjóðastofnana í sinni eigin rannsóknarvinnu.

Námskeiðið byggir á helstu kenningum í alþjóðasamskiptum en ekki er gert ráð fyrir að nemendur búi yfir þekkingu á einstökum stofnunum umfram það sem almennt mætti telja eðlilegt af nemanda með áhuga á alþjóðamálum. Þar sem við á verður bætt við ítarefni fyrir á sem þurfa að kynna sér grunnstarfsemi einstakra stofnana betur. Áhersla verður lögð á stóru alþjóðlegu stofnanirnar, eins og Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, en við munum einnig fjalla um svæðisbundnar stofnanir, eins og Evrópuráðið, alþjóðleg félagasamtök (INGOs) og aðkomu einkaaðila að alþjóðakerfinu.

X

Hagnýt gagnagreining (MAS202M)

Námskeiðið fjallar um tölfræðiúrvinnslu í forritinu R. Gert er ráð fyrir að nemendur hafi grunnþekkingu í tölfræði og tölfræðihugbúnaðnum R. Æskilegt er að nemendur þekki til margbreytu aðhvarfsgreiningar (e. multiple linear regression). Nemendur læra að beita hinum ýmsu tölfræðiaðferðum í R (ss. classification methods, resampling methods, linear model selection og tree-based methods). Námskeiðið er kennt á tólf vikum og verður það á vendikennsluformi þar sem nemendur lesa námsefni og horfa á myndbönd áður en þeir mæta í tíma og fá svo aðstoð með fyrirliggjandi verkefni í tímum.

X

Aðhvarfsgreining (FMÞ501M)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning og verklega færni til að beita aðhvarfsgreiningu á eigin spýtur. Fjallað er um þau afbrigði aðhvarfsgreiningar sem hvað oftast eru notuð í rannsóknum á sviði félagsvísinda. Farið er í stjórnun breyta, notkun nafnbreyta, línuleg og ólínuleg líkön, aðferðir til þess að prófa miðlun breyta og samvirkni breyta og aðferðir til að nota breytur sem hafa skekkta dreifingu svo eitthvað sé nefnt. Fjallað er um forsendur aðhvarfsgreiningar og aðferðir til að fást við þær. Einnig er fjallað um "logistic" aðhvarfsgreiningu, þar sem háða breytan er tvígild nafnbreyta. Samhliða þessari umfjöllun verður farið í saumana á ályktunartölfræði, notkun marktektarprófa og túlkun niðurstaðna. Áhersla er lögð á að nemendur fái umtalsverða verklega reynslu af því að greina megindleg gögn. Kennari útvegar könnunargögn sem nemendur nota til þess að prófa þær aðferðir sem kenndar eru. Eftir fremsta megni verður reynt að samþætta fræðilegar spurningar og tilgátuprófun. Tölfræðiforritið SPSS fyrir Windows er notað.

X

Heilsufar eldri aldurshópa (ÍÞH051F)

Farið er yfir líffræðilegar og lífeðlisfræðilegar breytingar sem eiga sér stað við öldrum og áhrif þeirra á þrekþætti, hjarta- og æðakerfi og lungu. Skoðuð verða breytingar á helstu kerfum líkamans, s.s. líkamsamsetningu, beinum, vöðvum, hjarta og lungum og hvernig þessar breytingar valda breytingum á styrk, þoli og loftfirrtri getu. Fjallað verður um hreyfingu aldraðara og mikilvægi hreyfingar fyrir líkamsástand og heilsufar. Sérstök áhersla verður lögð á að gera grein fyrir tengslum hreyfingar við þrek, holdafar og ýmsa aðra lífstílsþætti hjá öldruðum. Nemendur fá þjálfun í að greina og meta hreyfifærni og þrek hinna eldri, vinna úr niðurstöðum og hanna einstaklingsmiðaðar þjálfunaráætlanir. Í gegnum verklegar æfingar og fræðilega kennslu er stefnt að því  að nemandi öðlist góðan skilning á ýmsum sérhæfðum þáttum í þjálfun eldri aldurshópa og geti nýtt sér þekkingu við þjálfun aldraðra.

Vinnulag

Kennslustundir skiptast nokkuð jafnt milli verklegra og fræðilegra kennslustunda auk mælinga og verkefnavinnu. Nemendur þjálfast í lestri rannsóknargreina og taka þátt í umræðum um öldrun og hreyfingu. Skipulagðar verða vettvangsheimsóknir og nemendur þjálfast í ýmsum mælingum fyrir hina eldri, eins og mælingar á blóðþrýsting, liðleika, hreyfifærni, styrk og þoli.

Markmið

Markmið námskeiðs er að nemandi

  • Geti gert grein fyrir og skilgreint öldrun
  • Efli þekkingu sína á ýmsum breytingum sem eiga sér stað við öldrun
  • Fræðist og taki þátt í að kynna atriði sem snúa að einstaklingsbundum muni eldri aldurshópa
  • Auki þekkingu sína á mikilvægi markvissar hreyfingar fyrir eldri aldurshópa
  • Geri sér grein fyrir tengslum hreyfingar við almenna heilsu, lýðheilsu og lífsgæði þeirra eldri
  • Auki þekkingu sína á líkamlegri uppbyggingu aldraða, s.s starfsemi hjarta- og æðakerfis, vöðvastyrk, jafnvægi, líkamsstöðu og almennri hreyfingu
  • Fái þjálfun og reynslu í verklegri útfærslu æfinga sem stuðla að bættri lýðheilsu hinna eldri
  • Fái þjálfun í að mæta einföldum mælingum og greiningu á stöðu einstaklinga og hópa
X

Stjórnun í heilbrigðisþjónustu (HJÚ259F)

Markmið námskeiðsins er að nemandi öðlist fræðilega og hagnýta þekkingu á viðfangsefnum stjórnunar og búa þá undir hlutverk stjórnenda í heilbrigðisþjónustu. Áhersla er lögð á hlutverk stjórnenda, mannauðsstjórnun, teymisvinnu, vinnuumhverfi, þjónustu við sjúklinga, gæði og öryggi. Leitast er við að taka fyrir hagnýt viðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi í nútíð og framtíð og þannig efla fræðilega og hagnýta hæfni nemandans.

X

Siðfræði vísinda og rannsókna (HSP806F)

Námskeiðið er eingöngu ætlað framhaldsnemum. Tekið verður mið af þörfum nemenda af ólíkum fræðasviðum við útfærslu námskeiðsins. 

Kennsla fer fram frá 12. janúar til 16. febrúar á föstudögum kl. 13:20 til 15:40.

Viðfangsefni:
Meðal annars verður fjallað um eftirfarandi efni: Fagmennska og ábyrgð vísindamanna. Kröfur um fræðilega hlutlægni og hlutleysi vísinda. Jafnréttissjónarmið og ríkjandi viðmið í vísindastarfi. Vald og vísindi. Hagsmunaárekstrar í vísindastarfi. Vísindin og samfélagið. Siðfræði rannsókna.

Markmið: 
Nemendur öðlist þekkingu á siðferðislegri vídd vísinda og rannsókna og fái þjálfun í að greina og rökræða um siðferðileg ágreiningsefni tengd vísindum og rannsóknum í nútímasamfélagi.

Kennsla er í formi fyrirlestra og umræðna. Námskeiðið er hugsað sem akademískt samfélag þar sem nemendur taka virkan þátt í markvissri umræðu um viðfangsefnin. Hver nemandi flytur framsöguerindi samkvæmt áætlun sem gerð er í upphafi misseris og jafnframt kynna aðrir nemendur sér efnið og ræða það í málstofunni undir handleiðslu kennara.

X

Heilsuhegðun og fæðuval – áhrifaþættir og mótun (ÍÞH036M)

Viðfangsefni námskeiðsins er heilsuhegðun í víðum skilningi. Fjallað verður um heilsuhegðun mismunandi aldurshópa og samband líffræðilegra þátta, heilsuhegðunar og félagslegra aðstæðna. Farið verður yfir hvernig hegðun einstaklinga, bjargráð og streita hafa áhrif á heilsufar. Hegðun í tengslum við fæðuval og neysluvenjur er sérstaklega skoðuð. Þá verður horft til þess hvernig má móta heilsusamlegar lífsvenjur frá æsku, svo sem hafa áhrif á fæðuval og vinna á matvendni. Samfélagsáhrif og þáttur fjölmiðla eru einnig könnuð. Námsefnið byggir á fræðbókum og vísindagreinum frá mismunandi áttum og ólíkum sviðum sem spanna viðfangsefnið og nálgast það á ólíkan hátt.
Námskeiðið er ætlað nemendum á efri stigum grunnnáms og á meistarastigi og er opið öllum.

X

Heilsuefling (ÍÞH209F)

Fjallað verður um fyrirkomulag og mikilvægi heilsueflingar í skólum, á vinnustað, í hvers kyns þjálfun, endurhæfingu, íþróttum og tómstundastarfi. Mismunandi kenningar um heilsueflingu verða kynntar, sem og framkvæmd, mat og heildstætt ferli heilsueflingar. Allt frá því hvernig heilsueflandi verkefni eru skipulögð og hvernig þau eru innleidd, framkvæmd og metin. Sérstök áhersla verður lögð á fræðilegan þátt heilsueflingarferlisins til að undirbúa nemendur fyrir faglegt starf tengt heilsueflingu á vettvangi.

X

Faraldsfræði hreyfingar (ÍÞH211F)

Markmið: Að nemendur

– dýpki þekkingu sína á samspili lífshátta sem tengjast hreyfingu og heilbrigði og skoði rannsóknir á því sviði

– öðlist aukna þekkingu á ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum og á áhrifum hreyfingar og þjálfunar á þá, bæði gegnum fyrirbyggjandi aðgerðir (fyrsta stigs forvarnir) og sem meðferðarúrræði (annars stigs forvarnir).

Námskeiðinu er ætlað að kynna faraldsfræðilegar rannsóknaraðferðir á sviði tengsla hreyfingar og heilsufars og auka skilning og færni nemenda í að lesa vísindagreinar með gagnrýnum hætti. Farið verður í saumana á því hvernig hreyfing hefur áhrif á heilbrigði og minnkar áhættu á ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum. Rannsóknir og athuganir á samspili hreyfitengdra lífshátta og ólíkra heilsufarsþátta verða reifaðar. Námskeiðið verður kennt í fyrirlestraformi.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Heiðrún Hlöðversdóttir
Hjördís Lilja Lorange
Friðgeir Andri Sverrisson
Heiðrún Hlöðversdóttir
Framhaldsnám í lýðheilsuvísindum

Sú þverfaglega nálgun sem meistaranám í lýðheilsuvísindum byggir á, þótti mér afar spennandi valkostur. Bakgrunnur minn í sálfræði kom sér vel þar sem námið byggir mikið á tölfræði og aðferðafræði rannsókna.

Námið hefur veitt mér góða innsýn inn í störf annarra fagstétta á heilbrigðissviði, bæði í gegnum kennara og samnemendur með ólíkan bakgrunn og menntun.

Helstu kostir námsins að mínu mati eru að nemendur geta valið úr fjölda valnámskeiða og þannig mótað námið eftir eigin áhugasviði.

Hjördís Lilja Lorange
Framhaldsnám í lýðheilsuvísindum

Framhaldsnám í lýðheilsuvísindum hefur verið mjög skemmtileg reynsla þar sem ég hef þurft að takast á við margar áskoranir. Í náminu hef ég tamið mér að beita gagnrýnni hugsun og byggt upp hæfni til að takast kerfisbundið á við vísindaleg viðfangsefni.

Námskeiðin eru vel skipulögð þar sem tækifæri gefst á að kynnast helstu viðfangsefnum lýðheilsuvísinda og kynna sér helstu ógnir sem stafa að lýðheilsu í dag. Einn af helstu kostunum við námið eru frábærir kennarar sem hafa yfirgripsmikla þekkingu sem þeir miðla með skemmtilegum og fróðlegum hætti á breiðu sviði fræðigreina.

Sú þekking og reynsla sem ég öðlaðist í meistaranáminu fór langt fram úr vonum mínum og hef ég náð að auka þekkingu á mínu áhugasviði. 

Friðgeir Andri Sverrisson
Framhaldsnám í lýðheilsuvísindum

Ég skráði mig í meistaranám í lýðheilsuvísindum að hluta til vegna viðfangsefnisins og að hluta vegna þess sveigjanleika sem felst í þverfræðilegu skipulagi þess.

Námið stendur traustum fótum á góðum grunni þar sem koma saman einstaklingar með breiðan bakgrunn sem ýtir undir möguleika á samstarfi og tækifærum víðsvegar í samfélaginu. Eftir að námi lauk og ég sótti út á vinnumarkaðinn reyndist þessi reynsla dýrmæt í leit að starfi við hæfi.

Það að geta mótað námið að eigin áherslum tryggði mér hámarksánægju og aukna getu til að einbeita mér að því sem ég vildi sérhæfa mig í og nýta mér það sem námið hefur upp á að bjóða, eins og að læra og starfa erlendis tengt náminu.

Hafðu samband

Miðstöð í lýðheilsuvísindum

Sturlugata 8, 102 Reykjavík
Sími 525 4956
Netfang: publichealth@hi.is 

Opið mánu- til fimmtudaga 10-16 og föstudaga 10-12.

Fylgstu með okkur
 Facebook Logo Twitter PNG, Logo Twitter Transparent Background - FreeIconsPNGTwitter

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.