Skip to main content

Íþrótta- og heilsufræði, MT

Íþrótta- og heilsufræði, MT

Menntavísindasvið

Íþrótta- og heilsufræði

MT gráða – 120 einingar

Meistaranám í íþrótta- og heilsufræði veitir faglegan grunn til að starfa á vettvangi íþrótta og heilsuræktar, útivistar og lífsstíls. Lögð er áhersla á að auka þekkingu nemenda í fræðilegum vinnubrögðum sem tengjast þróunarstarfi og rannsóknum. Hreyfing er órjúfanlegur hluti heilbrigðra lífshátta og skilningur á áhrifaþáttum heilbrigðis er veigamikill þáttur í uppbyggingu nútímavelferðarsamfélags. 

Skipulag náms

X

Námskrá, námsmat og heilsurækt (ÍÞH113F)

Nemendur kynna sér og fjalla um námskrár og mat á námsframvindu og námsárangri, þar sem heilsurækt og velferð í grunn- og framhaldsskólum eru meginviðfangsefnið. Nemendur rýna og ræða ákvæði gildandi aðalnámskráa og skólanámskráa kynnast og setja sjálfir fram rökstuddar áætlanir til heilsueflingar nemenda á grunn- og framhaldsskólastigi, þar sem gengið er út frá markmiðum og hæfniviðmiðum með tilliti til aldurs og þroska samkvæmt gildandi námskrám.

Í námskeiðinu er fjallað um fræðilega og verklega þætti kennslunnar. Hlutverk íþróttakennara og annarra fagmanna á sviði kennslu er skoðað á mismunandi skólastigum.

Fjallað er um opinbera stefnumótun eins og hún birtist í gildandi aðalnámskrá, stefnu ríkis og sveitarfélaga og skipulagi skóla. Fjallað er um framtíðarsýn heilsuræktar í skólum, aðstæður á vettvangi og mat á skólastarfi er lýtur að heilsu, velferð og námsframvindu. Tekin eru fyrir álitamál og ólíkir hugmyndafræðilegir straumar í námskrárþróun og námsmati og tengsl við heilsueflandi samfélög og alþjóðlegar ráðleggingar varðandi heilsu og velferð.

Vinnulag felst í fyrirlestrum, kynningum og vettvangstengdum viðfangsefnum, einnig gagnrýninni umræðu í málstofum og hópverkefnum.

X

Líkamleg þjálfun barna og unglinga (ÍÞH114F)

Fjallað verður um vöxt og líkamsþroska barnsins frá fæðingu fram til unglingsára. Ítarleg umfjöllun verður um mikilvægi líkamlegrar þjálfunar fyrir velferð og heilsu barna og unglinga. Áhrif kynþroska á lifnaðarhætti og líkamlega þjálfun unglinga verða skoðuð. Fjallað verður um kynjamun í líkamlegri þjálfun. Kynnt verður hvers konar úthalds- og styrktarþjálfun er hentug og mikilvæg fyrir börn og unglinga. Sérstök áhersla verður lögð á skoða hvernig áhrif alhliða líkamsþjálfunar og sérhæfðar hefur á líkamsþroska barna- og unglinga. Farið verður í vettvangsheimsókn til íþróttafélags sem leggja ríka áherslu á þjálfun barna og unglinga.

ATH. Námskeiðin ÍÞH101M/ÍÞH115F Líkamleg þjálfun, ákefð og endurheimt, 5e og ÍÞH114F Líkamleg þjálfun barna og unglinga 5e koma í stað námskeiðsins ÍÞH102F Þjálfunarlífeðlisfræði, 10e. Þeir nemendur sem hafa lokið því þurfa ekki að taka 5e námskeiðin.

X

Líkamleg þjálfun, ákefð og endurheimt (ÍÞH115F)

Fjallað verður um aðlaganir sem verða á starfsemi líkamans við líkamlega þjálfun. Farið verður yfir mikilvægi markmiðsetningar í tengslum skipulagningu og framkvæmd líkamsþjálfunar. Fjallað verður um greiningu á vinnukröfum íþróttagreina og notkun slíkrar greiningar í uppsetningu og framkvæmd þjálfunaráætlana. Sérstök áhersla verður lögð á að skýra tengsl magns og ákefðar líkamlegrar þjálfunar með skýrskotun til bæði skammtíma- og langtíma þjálfunaráætlana. Fjallað verður um mikilvægi hvíldar og endurheimtar í tengslum við líkamlega þjálfun, með sérstakri áherslu á svefn og svefnþörf íþróttafólks. 

ATH: Námskeiðin ÍÞH101M/ÍÞH115F Líkamleg þjálfun, ákefð og endurheimt, 5e og ÍÞH114F Líkamleg þjálfun barna og unglinga 5e koma í stað námskeiðsins ÍÞH102F Þjálfunarlífeðlisfræði, 10e. Þeir nemendur sem hafa lokið því þurfa ekki að taka 5e námskeiðin.

X

Næring og þjálfun ungmenna (HÍT501M)

Hlutverk næringar í þjálfun og áhrif á árangur í íþróttum eru viðfangsefni þessa námskeiðs. Áhersla er lögð á að skoða þá þætti sem helst eru til umfjöllunar í samfélaginu hverju sinni og sá sérstaklega þætti sem viðkoma þjálfun og viðhorfum ungmenna til næringartengdra þátta.

Megináhersla er lögð á orkuefnin, hlutverk þeirra og þarfir við mismunandi þjálfun. Jafnframt er horft til ólíkra þarfa eftir aldri, kyni, líkamsímynd og líkamsbyggingu. Einnig verður fjallað um vökvaþörf, vítamín, stein- og snefilefni, andoxunarefni og fæðubótarefni í tengslum við þjálfun.

Farið verður yfir nýjustu rannsóknir um efnið og takmarkanir og framfarir á stöðu þekkingar á sviðinu skoðaðar. Áhersla er lögð á að geta greint sundur raunverulega stöðu þekkingar samanborið við markaðssetningu og tískustrauma sem oft hafa áhrif á neysluvenjur og viðhorf ungmenna.

Ennfremur er lögð áhersla á þverfræðilega teymisvinnu milli fagaðila og fjallað er um hvernig má hámarka árangur og stuðla að heilsueflingu með samvinnu fagstétta.

Vinnulag:
Námskeiðið byggist á fyrirlestrum og einni málstofu. Ætlast er til virkar þátttöku nemenda í umræðum og verkefnavinnu. Gerð er krafa um grunnþekkingu í næringarfræði til að hægt sé að velja námskeiðið. Námsmat er byggt á málstofu og heimaprófi. Mætingaskylda í málstofu.

ATH: Var áður kennt sem hluti af námskeiðinu Íþróttir og næring.

X

Sérhæfð afreksþjálfun (ÍÞH212F)

Í námskeiðinu er lögð áhersla á að öðlast þekkingu og skilning á grunnþjálfunar-, prófunarreglum og meginreglum í afreks íþróttum.

Í námskeiðinu er farið yfir mismunandi þætti til þess að vinna innan afreksíþrótta. Megináhersla er lögð á að öðlast þá færni sem nauðsynleg er til að vinna innan afreksíþróttum, þróun mikilvægrar færni, árangursríka þjálfun, auðkenningu hæfileika, þjálfun tímabila og bata, fylgjast með þjálfunarálagi, tölfræði, gagnasöfnun, greiningu, kynna skýrslur fyrir mismunandi hópa (íþróttamenn, foreldrar, þjálfarar, heilbrigðisstarfsfólk), ræðumennsku.

Námskeiðið verður bæði verklegt og bóklegt. Verklegar kennslustundir munu fjalla um íþróttavísindi / lífeðlisfræðilegar mælingar, áætlunargerð með afreks íþróttamönnum. Auk þess gefst nemendum tækifæri til að heimsækja íþróttamenn á vettvangi.

Nemendur munu vinna með hreyfigreiningarbúnað og hugbúnað fyrir tæknigreiningu, til að hagræða ákvarðanir sínar og meta á gagnrýninn hátt beittar aðferðir. Nemendur læra að hanna og safna gögnum, skrifa skýrslurnar og kynna fyrir ýmsum áhugahópum (íþróttamönnum, þjálfurum, foreldrum, heilbrigðisstarfsfólki).

Með þeirri þekkingu sem aflað er í þessu námskeiði munu nemendur geta starfað af öryggi í öllum einstaklings- eða hópíþróttafélögum, stofnunum eða í einkageiranum.

X

Hagnýt aðferðafræði í íþrótta- og heilsufræði (ÍÞH210F)

Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning á og geti metið rannsóknir í íþrótta-, kennslu- og heilsufræði með það fyrir augum að ákvarða hversu áreiðanlegar og viðeigandi þær eru. Áhersla verður lögð á mikilvægi þess að nota rannsóknir í faglegri þróun íþróttakennara og þjálfara. Nemendur fá verkfæri til þess að hagnýta rannsóknarniðurstöður og tengja við störf sín á vettvangi íþróttakennslu og þjálfunar.

X

Sérhæfð heilsuþjálfun (ÍÞH050F)

Í námskeiðinu verður farið yfir einkenni og meðferðir ýmissa algengra lífsstílssjúkdóma og annarra sjúkdóma s.s. hjarta- og æðasjúkdóma, offituvandamál, sykursýki, krabbamein. Heilsuefling og endurhæfing einstaklinga með lífsstílssjúkdóma eða aðra kvilla verður skoðuð með tilliti til hreyfingar og þjálfunar; hvers konar hreyfing hæfir hverjum og einum, framvinda æfinga, hverju þarf að huga að, öryggisatriði og skilvirkni æfinga. Heimsóttir verða staðir þar sem unnið er með hreyfingu til að bæta lífsgæði fólks með lífsstílssjúkdóma.

X

Faraldsfræði hreyfingar (ÍÞH211F)

Markmið: Að nemendur

– dýpki þekkingu sína á samspili lífshátta sem tengjast hreyfingu og heilbrigði og skoði rannsóknir á því sviði

– öðlist aukna þekkingu á ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum og á áhrifum hreyfingar og þjálfunar á þá, bæði gegnum fyrirbyggjandi aðgerðir (fyrsta stigs forvarnir) og sem meðferðarúrræði (annars stigs forvarnir).

Námskeiðinu er ætlað að kynna faraldsfræðilegar rannsóknaraðferðir á sviði tengsla hreyfingar og heilsufars og auka skilning og færni nemenda í að lesa vísindagreinar með gagnrýnum hætti. Farið verður í saumana á því hvernig hreyfing hefur áhrif á heilbrigði og minnkar áhættu á ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum. Rannsóknir og athuganir á samspili hreyfitengdra lífshátta og ólíkra heilsufarsþátta verða reifaðar. Námskeiðið verður kennt í fyrirlestraformi.

X

Nám og kennsla - vettvangsnám í íþróttum I (ÍÞH310F)

Meginviðfangsefni námskeiðsins er vettvangsnám á sviði skólaíþrótta í grunnskólum. Lögð er áhersla á að nemendur kynnist af eigin raun almennu grunnskólastarfi með áherslu á íþrótta- og sundkennslu á öllum stigum grunnskólans undir leiðsögn íþróttakennara. Áhersla er á að nemar prófi sig í kennslu og fái tækifæri til að ræða, meta, ígrunda og þróa kennslu sína. Einnig að nemendur þjálfist í gerð áætlana fyrir kennslustundir í íþróttum í samræmi við aðalnámskrá og skólanámskrá. Þeir skoða fjölbreyttar kennsluaðferðir og beita þeim í kennslu á vettvangi.

Vinnulag: Nemendur í Nám og kennsla -Vettvangsnámi I skulu taka námskeiðið Áskoranir og nýsköpun í íþróttakennslu  samhliða vettvangsnámi I. Einnig verða málfstofu tímar í tengslum við þetta námskeið sem styrkja  vettvangsnámið. Tímar verða eftir hádegi á mánudögum og því verða nemar að tryggja að þeir séu ekki í kennslu á þeim tíma. 

Athugið: Kennaranemar geta farið í launað starfsnám eða vettvangsnám (ólaunað).

Athugið: Þeir nemar sem ætla að fara í launað starfsnám þurfa sjálfir að leita að starfi og ráða sig í skóla í íþróttakennslu. Nemar eiga að ráða sig í heilsársstarf (þ.e. bæði haust- og vorönn). Launaða vettvangsnámið er miðað við 50% stöðu. Nemar sem fara í launað starfsnám munu hafa æfingakennara sem styður þá í launaða vettvangsnáminu. 

  • Launað starfsnám byggir á því að kennaranemi hafi sjálfur ráðið sig til kennslu við grunnskóla og fengið samþykki umsjónarkennara námskeiðsins í íþrótta-og heilsufræði á  MVS til að tengja starfið og námið.
  • Ólaunað vettvangsnám
    Athugið: Nemar sem velja að fara í ólaunað vettvangsnám geta komið með ósk um sveitarfélag. Ólaunaða vettvangsnámið fer fram í 6 vikur á haustönn og 6 vikur á vorönn. Nemar í ólaunuðu vettvangsnámi munu hafa æfingakennara sem styður þá í vettvangsnáminu.
  • Vettvangsnám (ólaunað) er skipulagt af umsjónarmanni námskeiðs í námsbraut íþrótta-og heilsufræði á MVS, sem sér um að finna skóla fyrir vettvangsnám kennaranema. 
X

Áskoranir og nýsköpun í íþróttakennslu (ÍÞH311F)

Í námskeiðinu verður fjallað um nýjungar í íþróttakennslu og kennsluaðferðir í hreyfisskólun, tæknikennslu, kraft-, þol-, hraða- og liðleikaþjálfun. Fjallað verður um álitamál og áskoranir í kennslu.  Nýjustu rannsóknir á líkamshreysti og hreyfifærni rýndar ásamt kenningum og aðferðum við námsmat. Fjallað verður um hlutverk og uppbygging skólalóðar sem áhrifaþátt í daglegri hreyfingu barna og unglinga. Kynnt verða alþjóðleg verkefni varðandi hreyfingu og íþróttir sem grunnskólum gefst kostur á að taka þátt í. Nemar munu læra færni til að leiða þessi alþjóðlegu verkefni í skólanum sem og stjórna öðrum heilsutengdum verkefnum og keppnum sem skólinn tekur þátt í s.s. heilsueflandi grunnskóla og skólahreysti. Margmiðlunartækni sem notuð er í skólanum verður kynnt ásamt tækninýjungum sem nýst gætu í íþróttakennslu. Námskeiðið styður við kennslu í vettvangsnámi nemenda.  

X

Nám og kennsla - Vettvangsnám í íþróttum II (ÍÞH411F)

Námskeiðið er framhald af námskeiðinu „Nám og kennsla -Vetttvangsnám 1“ og fer einnig að mestu fram á vettvangi.  Nemendur í launuðu starfsnámi halda áfram starfi sínu í grunnskólanum sem þeir byrjuðu í á haustönn. Nemendur í ólaunuðu vettvangsnámi fara aftur í sama grunnskóla og á haustönn í 6 vikur á vorönn. 

Lögð er áhersla hagnýtar kennsluaðferðir og leiðir til að koma til móts við fjölbreytta nemendahópa í skólaíþróttum. Nemendur dýpka þekkingu sína á hlutverki íþróttakennara og kennslu á öllum stigum grunnskóla. Nemendur fá tækifæri til að velja þætti sem snúa að skilgreindum áskorunum í kennslu og dýpka sig í þeim.

X

Heilsuefling (ÍÞH209F)

Fjallað verður um fyrirkomulag og mikilvægi heilsueflingar í skólum, á vinnustað, í hvers kyns þjálfun, endurhæfingu, íþróttum og tómstundastarfi. Mismunandi kenningar um heilsueflingu verða kynntar, sem og framkvæmd, mat og heildstætt ferli heilsueflingar. Allt frá því hvernig heilsueflandi verkefni eru skipulögð og hvernig þau eru innleidd, framkvæmd og metin. Sérstök áhersla verður lögð á fræðilegan þátt heilsueflingarferlisins til að undirbúa nemendur fyrir faglegt starf tengt heilsueflingu á vettvangi.

X

Þjálfun í vatni (ÍÞH052F)

Nemendur fá að kynnast fjölbreyttum leiðum til þjálfunar í vatni t.d. styrktarþjálfun, vatnsleikfimi, sundknattleik, dans/zumba, endurhæfingu, floti/slökun, sundþjálfun, kælingum og sjósundi. Einnig er farið yfir þjálfun í vatni fyrir mismunandi aldurshópa t.d. ungbarnasund og sund fyrir eldriborgara.

Námskeiðið er byggt upp á fyrirlestrum, verklegum tímum og vettvangsferðum.

X

Félagsfærni og sjálfsefling með jákvæðri hópastjórnun (HÍT001F)

Tilgangur námskeiðsins er að þátttakendur – kennarar, tómstunda- og félagsmálafræðingar og aðrir sem vinna með hópa barna og unglinga í leikskóla, grunnskóla- og frístundastarfi – efli þekkingu sína á aðferðum sem stuðla að æskilegri hegðun barna. Þeir læri að beita árangursríkum og gagnreyndum aðferðum sem byggjast á trausti og virðingu, styðja við félagsfærni og sjálfseflingu barna og unglinga og stuðla að bættri líðan þeirra.

Þættir sem unnið er með:

  • Framkvæmd mats á stöðu hópastjórnunar og styrkleikar hópa metnir. Reglur um hegðun barna mótaðar og þjálfun í kennslu þeirra. Æfingar í að nota skýr fyrirmæli til að efla samstarf í barnahópum.
  • Þjálfun í notkun hvatningar með margbreytilegum hætti, áhersla er lögð á hópinn í heild sinni.
  • Farið yfir jafnvægi í hvatningu og leiðum til að stöðva erfiða hegðun. Praktískir þættir í hópastjórnun skoðaðir nánar og æfðir.
  • Markviss notkun lausnaleitar kennd og skoðaðir mikilvægir þættir sem tengjast samstarfi við foreldra. Endurmat á stöðu hópastjórnunar í lok námskeiðs.

Samhliða því að þátttakendur námskeiðsins tileinki sér færnina sjálfir og æfi hana, eru kenndar leiðir til að miðla til - og þjálfa annað fagfólk í notkun aðferðanna. 

Vinnulag

Námskeiðið skiptist í vinnu í tímum og verkefni („heimavinnu“) á milli tíma sem þátttakendur geta prófað í eigin starfi og nýtt þannig beint til þróunar á eigin starfsháttum. Kennsla fer fram með umræðum, æfingum og fjölbreyttum sameiginlegum viðfangsefnum. Námsmat byggist á lestri kafla og greina, skilaverkefnum sem unnin eru með barna- og unglingahópum sem tengjast þátttakendum, samhliða miðlun til annars fagfólks og virkri þátttöku í umræðum um viðfangsefni námskeiðsins.

Miðað er við kennslu í rauntíma, á Zoom eða á staðnum (í staðlotum), átta hálfa daga á tímabilinu ágúst til nóvember, þar sem unnið er með þætti námskeiðsins og gerðar æfingar. Þátttakendur reyna aðferðirnar sjálfir með sínum barnahópum í verkefnum á milli tíma.

Námskeiðið er vettvangs- og samstarfsmiðað. Þátttakendur fá tækifæri til að læra saman og styðja hvern annan í að þróa árangursríka starfshætti með börnum. Grunnhugmyndin er að þátttakendur líti á það sem sameiginlegt verkefni allra í skóla- og frístundasamfélaginu að nota uppbyggilegar og gagnreyndar aðferðir til að stuðla að góðri aðlögun barna og starfsánægju fagfólks.

Námskeiðið hentar öllum kennurum, tómstunda- og félagsmálafræðingum og öðrum sem vinna með hópa barna og unglinga í leikskóla, grunnskóla- og frístundastarfi.

X

Svefn, heilsa og endurheimt (ÍÞH049F)

Í námskeiðinu verður fjallað almennt um svefn en einnig verður fjallað um svefn í tengslum við íþróttir, heilsu og almenna vellíðan. Fjallað verður um svefn uppbyggingu, svefn hinna ýmsu aldurshópa og svefn í tengslum við heilsu, íþrótta- og afrekshópa, kvíða og algengar svefnraskanir. Námskeiðið verður byggt á útgefnu efni um lífeðlisfræði svefns og rannsóknum á svefni tengdum lýðheilsu og íþróttum.

X

Heilsuefling, íþróttir og tómstundir – fræði og vettvangur (HÍT101F)

Námskeiðið er ætlað nemendum sem eru að hefja framhaldsnám í Deild heilsueflingar, íþrótta- og tómstunda. Í því verður ljósi varpað á mikilvæg hugtök og kenningar sem notuð eru í þeim fræðigreinum sem kenndar eru í deildinni. Í námskeiðinu verður lögð áhersla á að rýna í hvernig ólíkir þættir, svo sem heilsuhegðun og félagslegt umhverfi, og sampil þeirra hafa áhrif á heilsu og lífsgæði fólks. Fjallað verður um viðfangsefni sem eru efst á baugi í samfélaginu og varða hreyfingu, næringu, heilsueflingu, lífsleikni, nám og þroska og tengsl þeirra við andlega, líkamlega og félagslega velferð einstaklinga. Lögð er áhersla á að nemendur tileinki sér gagnrýna og skapandi nálgun á viðfangsefni sem tengjast náið þeim vettvangi sem þeir munu starfa á að námi loknu. Nemendur æfa í því skyni teymisvinnu og efla samskipti út frá hugmyndafræði þverfræðilegrar samvinnu. Nemendur fá tækifæri til að dýpka þekkingu sína í tilteknu viðfangsefni sem valið er í samráði við kennara og munu í lok námskeiðs setja fram áætlun um nám sitt.

X

Næring í afreksþjálfun (HÍT502M)

Hlutverk næringar í afreksþjálfun með áherslu á árangur í íþróttum er viðfangsefni þessa námskeiðs sem er framhald af námskeiðinu Næring og þjálfun ungmenna. Áhersla er lögð á að dýpka þá þekkingu sem komin er og vinna hagnýt verkefni. Þau byggja á matseðlagerð og rýni í sérþarfir í afreksþjálfun t.d. á keppnistímabili og hvíldartímabilum, við undirbúning, í keppni og í endurheimt. Einnig er skoðuð þyngdarstjórnun í greinum þar sem þyngdarflokkar skipta máli.

Farið verður yfir nýjustu rannsóknir um efnið og takmarkanir og framfarir á stöðu þekkingar á sviðinu skoðaðar. Áhersla er lögð á að geta greint sundur raunverulega stöðu þekkingar samanborið við leiðir sem markaðssettar eru til árangurs eða fá hljómgrunn í ýmsum keppnisgreinum.

Ennfremur er lögð áhersla á þverfræðilega teymisvinnu milli fagaðila og fjallað er um hvernig má hámarka árangur og stuðla að heilsueflingu með samvinnu fagstétta.

Vinnulag
Námskeiðið byggist á fyrirlestrum og verkefnavinnu í smærri hópum. Ætlast er til virkar þátttöku nemenda í umræðum og verkefnavinnu. Gerð er krafa um að einnig sé tekið námskeiðið Næring og þjálfun ungmenna, auk þess sem grunnþekking í næringarfræði er nauðsynleg. Námsmat er byggt á verkefnavinnu.

ATH: Var áður kennt sem hluti af námskeiðinu Íþróttir og næring.

X

Reynslunám, útimenntun og lífsleikni (TÓS101F)

Meginmarkmið námskeiðsins er að efla skilning og þekkingu nemenda á reynslumiðuðu námi, útimenntun, lífsleikni og ígrundandi starfsháttum. Sérstök áhersla er á útimenntun sem fag, aðferð og rannsóknarlegt viðfangsefni.

Út frá reynslumiðuðu sjónarhorni er unnið með viðfangsefnið að leika, læra og þroskast með sérstakri áherslu á tengsl formlegs, hálfformlegs og óformlegs náms og gildi tómstundafræðinnar.

Lögð er áhersla á að nemendur ígrundi hvernig nám á sér stað og að þeir öðlist hæfni til að skipuleggja námsumhverfi sem styður við reynslunám og virkni.

Hægt er að nota reynslunám sem aðferð til að öðlast færni og þess vegna er í þessu námskeiði kannaðir möguleikar á að vinna með reynslumiðuðum hætti með lífsleikni í frístunda- og skólastarfi. Lífsleikni er vítt hugtak sem felur í sér sjálfsþekkingu, samskipti, sköpun og forystu. Á námskeiðinu er skoðað hvernig styðja megi við lífsleikni og skapandi vinnu innan tómstunda- og skólastarfs. Nemendum gefst tækifæri til að kanna rannsóknaraðferðir sem notaðar eru í útimenntun, þar á meðal vettvangsathuganir, rýnihópar og viðtöl.

Fjallað verður reynslunám, lífsleikni, úti- og ævintýranám. Á námskeiðinu verður reynt að veita bæði kennurum og nemendum tækifæri til að kanna dýpra hlutverk og gildi reynslunáms, ígrundunar, útimenntunar í frístunda- og skólaumhverfi og einnig tengsl þeirra við lífsleikni. Í þessu námskeiði viljum við einnig veita nemendum sem hafa áhuga á að nýta aðferðir útimenntunar í samhengi við  farsæld, ævintýra- og náttúrunám.

Vinnulag

Í september, október og nóvember byggir kennslan á umræðu- og vinnutímum á eins til tveggja vikna fresti (miðvikudaga 8.20-10.40) með innleggjum frá nemendum, kennurum og fagfólki á vettvangi. Stefnt er á að vera með langa námslotu frá föstudegi 13. september kl. 15 til sunnudags 15. september kl. 17 (mögulega flytjum við þessa námslotu t.d. á tímabilið 1.-3. nóvember (ræðum það þegar við hittumst) þar sem dvalið verður utan Reykjavíkur. Unnið verður reynslumiðað úti og inni. Við áætlum einning að hittast í Reykjavík 28.okt.–1. nóv.
Nemendur halda ígrundandi leiðarbók (reflective journal) á námskeiðinu og undirbúa og framkvæma reynslunám í verki.

Mætingarskylda er í námskeiðið þar með talin ferðin og umræðu- og vinnutíma á eins til tveggja vikna fresti. Leitast verður við að finna leiðir þannig nemendur sem búa fjarri Reykjavík geta tekið þátt í tímum á miðvikudögum í fjarfundi í rauntíma.

Námsmat og áherslur í námskeiðinu eru mótaðar í samvinnu við nemendur og þannig reynt að vera trú því að vinna með reynslumiðuðum hætti. 

Ferðakostnaður: Reikna má með nokkrum kostnaði vegna ferða á námskeiðinu, allt að 14.000 kr.

X

Einelti, forvarnir og inngrip (TÓS509M)

Þetta námskeið er um einelti og markmiðið er að þeir sem ljúka námskeiðinu öðlist þekkingu, leikni og hæfni til að geta tekist á við og komið í veg fyrir einelti meðal barna og unglinga.

Námskeiðið byggir á kenningum og rannsóknum á einelti. Námskeiðið er bæði fræðilegt og hagnýtt. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem hafa hug á að vinna með börnum og unglingum og hentar því vel fyrir nemendur á menntavísindasviði HÍ. Nemendur á öðrum sviðum eru einnig velkomnir. Á námskeiðinu verður fjallað um fjölmarga þætti sem snúa að einelti, þar á meðal mismunandi birtingarmyndir, árangursríkar aðferðir við forvarnir og inngrip, samstarf við foreldra og forsjáraðila og árangursríka vinnu með þolendum, gerendum og áhorfendum. Námskeiðið fer fram á íslensku en lesefni er á íslensku og ensku.

Námskeiðið byggir á fyrirlestrum, umræðu- og verkefnatímum, reynslusögum af vettvangi og kynningum nemenda.

Skyldumæting er í námskeiðið (lágmark 80%). Skyldumæting er fyrir fjarnema í staðlotur námskeiðsins. Missi þeir af staðlotu verða þeir að vinna það upp með því að mæta í aðra tíma í staðinn. Fjarnemum er frjálst að mæta í aðrar kennslustundir. Fjarnemar vinna virkniverkefni um kennslustundir sem þeir mæta ekki í. 

X

Færni og fæðuval (HHE502M)

Inntak og meginviðfangsefni
Á námskeiðinu verður farið yfir hvernig þjálfa má færni mismunandi hópa við matreiðslu og hafa þannig áhrif á fæðuval þeirra. Aðstæður, þarfir og geta hópa er mismunandi og á námskeiðinu verður farið yfir þessa þætti. Unnið verður námsefni og kennsluleiðbeiningar fyrir valinn hóp með sérþarfir.

Ung börn hafa yfirleitt áhuga á og ánægju af að vinna með foreldrum sínum í eldhúsinu. Þau geta aðstoðað á ýmsan hátt og um leið þjálfað færni og fínhreyfingar. Farið verður yfir helstu atriði matreiðslu með ungum börnum og hugað að næringarþörf þeirra og matarsmekk. Matreiddar verða uppskriftir sem börn geta hjálpað til við að elda og börn vilja gjarnan borða. Kennsluaðferðir og geta hvers aldurs í eldhúsinu verða skoðaðar.

Næringarþörf eldri borgara er að mestu leiti sambærileg næringarþörf annarra hópa en þó þarf að taka tillit til ýmissa þátta við matargerð og fæðuval, s.s. breytingar á búsetuformi, heilsu, hreyfigetu og tækifærum til innkaupa. Á námskeiðinu verður farið yfir þá þætti sem geta haft áhrif á fæðuval og getu til vinnu í eldhúsi. Einnig hvernig best er að haga fæðuvali fyrir þann sem býr orðið einn á efri árum og er jafnvel ekki vanur að matreiða.

Unnið verður að gerð námsefnis og kennsluleiðbeininga fyrir hópa sem þurfa sjónrænni og ítarlegri leiðbeiningar í uppskriftum en almennt gengur og gerist.

Kennslufyrirkomulag
Námið felst í beinni miðlun kennara, verklegum æfingum nemenda, kennsluæfingum, hópverkefnum og sjálfstæðum verkefnum nemenda.

Vinnulag
Námskeiðið er kennt bæði sem staðnám og fjarnám þar sem fyrirlestrar eru teknir upp á settir inn á fjarnámsvef. Á námskeiðinu fá nemendur námsefni miðlað á vef og taka heimapróf á Canvas úr lesefni og vinna einnig fræðileg verkefni. Í innlotum eru aðrir fyrirlestrar og vinnustofur. Staðnemar matreiða í verklegum tímum rétti í samræmi við þarfir ólíkra hópa og fjarnemar gera heima valin verkefni úr þeim tímum í stað þess að mæta í verklega tíma. Skyldumæting er í staðlotur. Námskeiðið felur í sér efnisgjald.

Til að standast námskeið þarf lágmarkseinkunnina 5,0 í sérhverju verkefni og prófi.

X

Rannsóknir og siðfræði (MVS211F)

Viðfangsefni
Fjallað verður um siðfræði rannsókna með sérstakri áherslu á siðferðileg álitamál tengd rannsóknum í raunvísindum og félagsvísindum. Rætt verður um góða starfshætti og siðferðileg álitamál í rannsóknum. Áhersla verður á bæði megindlegar og eigindlegar rannsóknir.  Helstu starfandi siðanefndir í íslensku rannsóknarumhverfi verða kynntar.

X

Heilsufar eldri aldurshópa (ÍÞH051F)

Farið er yfir líffræðilegar og lífeðlisfræðilegar breytingar sem eiga sér stað við öldrum og áhrif þeirra á þrekþætti, hjarta- og æðakerfi og lungu. Skoðuð verða breytingar á helstu kerfum líkamans, s.s. líkamsamsetningu, beinum, vöðvum, hjarta og lungum og hvernig þessar breytingar valda breytingum á styrk, þoli og loftfirrtri getu. Fjallað verður um hreyfingu aldraðara og mikilvægi hreyfingar fyrir líkamsástand og heilsufar. Sérstök áhersla verður lögð á að gera grein fyrir tengslum hreyfingar við þrek, holdafar og ýmsa aðra lífstílsþætti hjá öldruðum. Nemendur fá þjálfun í að greina og meta hreyfifærni og þrek hinna eldri, vinna úr niðurstöðum og hanna einstaklingsmiðaðar þjálfunaráætlanir. Í gegnum verklegar æfingar og fræðilega kennslu er stefnt að því  að nemandi öðlist góðan skilning á ýmsum sérhæfðum þáttum í þjálfun eldri aldurshópa og geti nýtt sér þekkingu við þjálfun aldraðra.

Vinnulag

Kennslustundir skiptast nokkuð jafnt milli verklegra og fræðilegra kennslustunda auk mælinga og verkefnavinnu. Nemendur þjálfast í lestri rannsóknargreina og taka þátt í umræðum um öldrun og hreyfingu. Skipulagðar verða vettvangsheimsóknir og nemendur þjálfast í ýmsum mælingum fyrir hina eldri, eins og mælingar á blóðþrýsting, liðleika, hreyfifærni, styrk og þoli.

Markmið

Markmið námskeiðs er að nemandi

  • Geti gert grein fyrir og skilgreint öldrun
  • Efli þekkingu sína á ýmsum breytingum sem eiga sér stað við öldrun
  • Fræðist og taki þátt í að kynna atriði sem snúa að einstaklingsbundum muni eldri aldurshópa
  • Auki þekkingu sína á mikilvægi markvissar hreyfingar fyrir eldri aldurshópa
  • Geri sér grein fyrir tengslum hreyfingar við almenna heilsu, lýðheilsu og lífsgæði þeirra eldri
  • Auki þekkingu sína á líkamlegri uppbyggingu aldraða, s.s starfsemi hjarta- og æðakerfis, vöðvastyrk, jafnvægi, líkamsstöðu og almennri hreyfingu
  • Fái þjálfun og reynslu í verklegri útfærslu æfinga sem stuðla að bættri lýðheilsu hinna eldri
  • Fái þjálfun í að mæta einföldum mælingum og greiningu á stöðu einstaklinga og hópa
X

Samstarf um farsæld barna í frístunda- og skólastarfi (TÓS202F)

Í þessu námskeiði er sjónum beint að samstarfi ólíkra fagstétta sem tengjast frístunda- og skólastarfi, s.s. á sviði tómstunda- og félagsmálafræði, kennslu, þroskaþjálfafræði og íþróttastarfi. Námskeiðið miðar einnig að þverfaglegu samstarfi þar sem tómstundir koma við sögu, t.d. í starfi með eldri borgurum. Námskeiðið miðar að því að efla þekkingu nemenda á þverfaglegu samstarfi ólíkra fagstétta og hvaða þekking verður til á landamærum þeirra.

Fjallað verður um ávinning og áskoranir í þverfaglegu samstarfi fyrir börn, ungmenni og aðra skjólastæðinga og einnig fyrir starfsfólk, stofnanir og menntakerfi í stærra samhengi. Kenningum um ólíkar víddir samstarfs og fjölbreytt starfssamfélög verður gerð skil sem og rannsóknum á trausti og þekkingu sem byggist upp í þverfaglegu samstarfi.

Ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna verða skoðuð og hvaða tækifæri felast í þeim fyrir þverfaglegt samstarf. Nemendur þjálfast í gagnrýnu hugarfari og borgaralegri virkni með því að vega og meta kosti og galla samstarfsverkefna, sem og hvar samstarf milli stofnana og fagstétta skortir. 

Námskeiðið hentar þeim sem stefna að því að starfa með börnum og ungmennum, hvort heldur er í formlegu, hálfformlegu eða óformlegu uppeldis-, íþrótta, frístunda- eða skólastarfi. Námskeiðið hentar einnig þeim sem hyggjast starfa við tómstundir fólks á ólíkum æviskeiðum, sem og starfsfólki og stjórnendum sem nú þegar starfa að tómstundum og í frístunda-, íþrótta- eða skólastarfi.

Vinnulag og væntingar
Stuðst verður við vendikennslu og kennslustundir nýttar til umræðna og úrvinnslu. Þess er vænst að nemendur taki virkan þátt í umræðu eða skili inn ígrundun ef þeir ekki komast í umræðutíma. 

Alla námsþætti verður að standast með lágmarkseinkunn 5.0. 

X

Hegðun og tilfinningar barna: Áskoranir og úrræði (MAL003F)

Markmiðið með námskeiðinu er að gefa þátttakendum kost á að kynnast völdum þáttum, bæði fræðilegum og hagnýtum, sem auðvelda almennum kennurum og sérkennurum að skilja, meta og bregðast við þörfum nemenda sem eiga við hegðunar- og/eða tilfinningavanda að etja. Fjallað verður um aðferðir við skimun og mat, áhrifaþætti og algengi mismunandi hegðunar- og/eða tilfinningalegra erfiðleika, s.s. mótþróa, þunglyndis og kvíða. Einnig verður fjallað um hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika nemenda með athyglisbrest með ofvirkni (ADHD) eða röskun á einhverfurófinu. Sérstök áhersla er á að auka færni þátttakenda í að sníða skólastarf og skólasamfélag betur að þörfum nemenda með hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika og veita kennurum og skólastjórnendum ráð um hvernig unnt er að gera slíkt og fjarlægja hindranir sem útiloka og einangra nemendur með slíkan vanda.

Nemendur hafi aflað sér grunnþekkingar á helstu hugtökum og sjónarhornum þroskasálfræði eða félagsvísinda á námsferli sínum áður en þeir sækja námskeiðið.  Reynsla af vinnu með börnum eða ungmennum æskileg.

Helstu efnisþættir

  • Mismunandi skilgreiningar á hegðunar- og tilfinningaörðugleikum - alþjóðleg viðmið og flokkunarkerfi.
  • Hegðunar- og tilfinningaörðugleikar í samfélagslegu samhengi.
  • Helstu kenningar um hegðunar- og tilfinningaörðugleika barna og unglinga (conceptual models).
  • Viðbrögð skólasamfélagsins; nemendasýn og skólastefna - skóli án aðgreiningar, sérdeildir eða sérskólar? Ólík sjónarhorn við að skilgreina vandann.
  • Sértæk úrræði innan skólasamfélagsins og fræðilegur bakgrunnur þeirra.
  • Mismunandi aðferðir við virknimat (functional behavioral assessment) til að ákvarða hvaða þættir ýta undir hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika nemenda.
  • Gerð stuðningsáætlunar með margvíslegum aðferðum til að fyrirbyggja erfiða hegðun eða vanlíðan, kenna og styrkja viðeigandi hegðun og bregðast þannig við erfiðri hegðun þannig að dragi úr henni með tímanum og nemendum líði betur.
  • Aðferðir til að auka félagsfærni og sjálfstæð vinnubrögð nemenda með hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika.

Vinnulag
Í staðlotum verða fyrirlestrar auk verkefnatíma. Á kennsluvefnum Canvas verða birtar hljóðglærur og kennslubréf, og þar fara fram umræður úr völdum efnisþáttum. Námskeiðið er kennt með fjarnámssniði en mætingarskylda er í staðlotur. Námsmat er að mestu leyti fólgið í hópverkefnum. 

X

Sálfræði og siðfræði íþrótta og þjálfunar (ÍÞH048F)

Námskeiðið fjallar um hvernig auka megi vellíðan, áhuga og hæfni iðkenda í íþróttum og almennri þjálfun með jákvæðri sálfræði. Hvernig íþróttaiðkun og þjálfun geta snúist upp í andhverfu sína. Nemendur læra um þær sálrænu áskoranir sem geta fylgt þjálfun, afreksmennsku og því að hætta í íþróttum. Einnig verður fjallað um siðfræði í þjálfun með því að rýna hugtök á borð við ábyrgð, heiðarleika og jafnræði.

X

Færniþjálfun á heilsueflingarvettvangi (HHE201M)

Á námskeiðinu fá nemendur tækifæri til að kynnast vettvangi þar sem heilsuefling hefur verið innleidd eða ætlunin er að innleiða heilseflandi verkefni, hvort heldur sem er í skólastarfi, frístundstarfi, íþróttastarfsemi, vinnustað eða annars staðar í samfélaginu. Nemendur gera úttekt á stöðunni og meta það starf sem er í gangi auk þess að taka þátt í undirbúningi og innleiðingu verkefnis eða heilsueflandi starfi sem þegar er í gangi. Þannig fá nemendur tækifæri til að nýta þær aðferðir, verkfæri og hugmyndir sem þeir hafa kynnst í öðrum námskeiðum.

X

Siðfræði og samfélag (MVS210F)

Viðfangsefni
Í námskeiðinu verða greind tiltekin siðferðileg álitamál í íslensku samfélagi. Sjónum verður beint að siðferðilegum spurningum sem til dæmis tengjast heilbrigðis, umhverfis- og menntamálum. Dregið verður fram hvað einkennir sérstaklega siðferðilegan vanda og rætt hvernig hægt er að takast á við hann. Til að nálgast það verkefni verða skoðuð dæmi um siðferðileg málefni í opinberri umræðu í íslensku samfélagi, þau greind þar sem átakalínur og undirliggjandi gildi verða skoðuð. 

X

Heilsuhegðun og fæðuval – áhrifaþættir og mótun (ÍÞH036M)

Viðfangsefni námskeiðsins er heilsuhegðun í víðum skilningi. Fjallað verður um heilsuhegðun mismunandi aldurshópa og samband líffræðilegra þátta, heilsuhegðunar og félagslegra aðstæðna. Farið verður yfir hvernig hegðun einstaklinga, bjargráð og streita hafa áhrif á heilsufar. Hegðun í tengslum við fæðuval og neysluvenjur er sérstaklega skoðuð. Þá verður horft til þess hvernig má móta heilsusamlegar lífsvenjur frá æsku, svo sem hafa áhrif á fæðuval og vinna á matvendni. Samfélagsáhrif og þáttur fjölmiðla eru einnig könnuð. Námsefnið byggir á fræðbókum og vísindagreinum frá mismunandi áttum og ólíkum sviðum sem spanna viðfangsefnið og nálgast það á ólíkan hátt.
Námskeiðið er ætlað nemendum á efri stigum grunnnáms og á meistarastigi og er opið öllum.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Alda Ólína Arnarsdóttir
Alda Ólína Arnarsdóttir
Íþrótta- og heilsufræði

Ég valdi að fara í framhaldsnám í íþrótta- og heilsufræðum við HÍ til að auka vitneskju mína í fræðunum og styrkja stöðu mína á vinnumarkaði í störfum tengdu faginu. Mér líkar námið vel og er það góð viðbót við grunnnámið. Það kom á óvart hversu gott samstarf leiðbeinenda og nemenda er og tel ég það mikilvægan þátt þegar nemendur eru að vinna sýnar fyrstu rannsóknir í fræðunum. Ég tel námið henta þeim sem vilja styrkjar sína stöðu í fræðunum og hafa áhuga á að kafa betur í efni tengd íþróttum- og heilsufræðum leiðbeinendur deildarinnar eru frábærir að vinna með við lokaverkefni til meistaragráðu og er námið heilt yfir mjög skemmtilegt og fræðandi. 

Hafðu samband

Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
Stakkahlíð, 1. hæð í Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs[hja]hi.is

Samfélagsmiðlar

Fylgdu okkur á FacebookInstagram og YouTube!

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.