„Karllægri vinnumenningu innan lögreglunnar fylgja einstakar áskoranir vegna hefðbundinna karlmennskuhugmynda og stigveldis innan stofnunarinnar. Það er mikilvægt að löggæslustörf séu opin öllum kynjum og að minnihlutahópar hrekist ekki úr starfi vegna fjandsamlegrar vinnumenningar,“ segir Sólveig María Thomasdóttir sem vann í sumar við að rannsaka viðbrögð við áreitni innan lögreglunnar. Fyrri rannsóknir hafa leitt í ljós að brýn nauðsyn er á breytingum innan lögreglunnar þar sem hugmyndir um karlmennsku eru ríkjandi, en það hefur meðal annars þær afleiðingar að konur hrekjast úr starfi innan stofnunarinnar.
Sólveig María hefur nýverið lokið við diplómanámi í hagnýttri jafnréttisfræði við Háskóla Íslands og var ráðin til rannsóknarinnar með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Finnborg Salome Steinþórsdóttir aðjunkt og Gyða Margrét Pétursdóttir prófessor, sem báðar starfa við rannsóknir og kennslu í kynjafræði innan Stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands, hafa umsjón yfir rannsókninni.
Karllæg vinnumenning innan lögreglunnar
Verkefni Sólveigar grundvallast á fyrri rannsóknum meðal lögreglumanna sem þær Finnborg og Gyða gerðu árið 2013 en niðurstöður þeirra voru birtar í vísindatímaritunum Policing: A Journal of Policy and Practice og Policing and Society. Þær sýna að innan lögreglunnar sé mikil karllæg vinnumenning sem birtist meðal annars í kynferðislegri áreitni, þá sérstaklega í garð kvenna. Sólveig bendir á að þetta spili stóran þátt í hlutfallslega háu brottfalli kvenna úr starfi innan lögreglu.
Verkefnið sem Sólveig hefur unnið að í sumar hefur gengið út á að þróa þjálfunaráætlun gegn kynferðislegri áreitni fyrir starfsfólk innan lögreglunnar í samstarfi við Finnborgu, Gyðu og Laufeyju Axelsdóttur, nýdoktor við Stjórnmálafræðideild, og að innleiða áætlunina í samstarfi við mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar hjá embættis ríkislögreglustjóra. Reiknað er með að innleiðingin hefjist í byrjun árs 2024 með það að markmiði að valdefla lögreglumenn til að taka þátt í að uppræta vinnumenningu sem skilar sér fjandsamlegu starfsumhverfi fyrir mörg.
„Þar sem aðferðir þessarar þjálfunar hafa ekki áður verið prófaðar innan lögreglunnar verður áhugavert að sjá viðbrögð þátttakenda og líklegt er að þjálfunaráætlunin verði áfram þróuð út frá viðtökum og árangri,“ bætir Sólveig við.
Sólveig nefnir að lögð verði áhersla á samtal milli starfsfólks í kringum örsögur, sem tengjast starfsumhverfi lögreglunnar, og gagnvirkt nám í gegnum umræðuhópa. „Markmið þjálfunarinnar er að kynna starfsfólk fyrir hinum ýmsu birtingarmyndum kynferðislegrar áreitni og auka hæfni þeirra til þess að koma í veg fyrir slík atvik á vinnustað,“ bætir Sólveig við. Við vinnuna nýta rannsakendur sér efni tengt gagnvirku námi, kynjuðum valdatengslum, karlmennskuhugmyndum, lögreglumenningu og viðbrögðum vitna til þess að þróa þjálfunaráætlunina svo hún eigi við innan lögreglunnar.
Vona að niðurstöður leiði til breytinga
Rannsakendur vona að við lok þjálfunarinnar muni þátttakendur upplifa valdeflingu til breytinga sem leiða muni til bætts starfsumhverfis innan stofnunarinnar. „Þar sem aðferðir þessarar þjálfunar hafa ekki áður verið prófaðar innan lögreglunnar verður áhugavert að sjá viðbrögð þátttakenda og líklegt er að þjálfunaráætlunin verði áfram þróuð út frá viðtökum og árangri,“ bætir Sólveig við.
Að sögn Sólveigar hefur reynst erfitt að uppræta karllæga vinnumenningu innan vinnustaða þar sem hefðbundin karlastörf eru ráðandi. „Rannsóknir hafa sýnt að karlmennskuhugmyndir innan karllægra vinnustaða geta haft skaðleg áhrif á allt starfsfólk en í þessu tilviki eru það sérstaklega konur sem hverfa úr starfi vegna kynferðislegrar áreitni sem inngróin er í starfsumhverfið. Áreitni á vinnustað getur einnig haft neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu starfsfólks og á framleiðni og starfsmannaveltu. Það skiptir því miklu máli að unnið sé að breytingum á vinnumenningu lögreglunnar þegar kemur að kynferðislegri áreitni,“ segir Sólveig.