Langflest íslensk ungmenni eiga í góðum tengslum við foreldra, vini og skóla en sá hópur sem það á ekki við er verulega illa staddur varðandi heilsu, líðan og framtíðarhorfur og mikilvægt er að finna hann og aðstoða. Þetta er meðal niðurstaðna í nýrri rannsókn Ársæls Arnarssonar, prófessors við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem unnin er í samstarfi við starfsfólk á lýðheilsusviði Embættis landlæknis. Hún sýnir jafnframt að samskipti við foreldra hafa mest áhrif á líðan ungmenna en tengsl við skóla mest áhrif á áhættuhegðun.
Skýrsla um rannsóknina, sem ber heitið „Félagstengsl íslenskra ungmenna“, var að koma út en markmið hennar var að kanna tengsl barna í 6., 8. og 10. bekk við foreldra sína, skóla og vini auk ýmissa þátta sem snerta heilsu þeirra og líðan. Skýrslan byggist íslenskum gögnum alþjóðlegu rannsóknarinnar HBSC sem Ársæll hefur komið að um árabil og gerð er með reglulegu millibili.
Á vef landlæknis er fjallað um niðurstöður rannsóknarinnar en þær sýna að tengsl íslenskra ungmenna viðforeldra, vini og skóla eru almennt góð. Í þeim tilvikum þar sem börn hafa einhver slök tengsl er það jafnan aðeins á einu sviði og þá oftast við vini.
„Afar sjaldgæft er að börn og unglingar hafi slök tengsl á öllum þremur sviðunum eða 3% af heildarfjölda. Ef miðað er við fjölda grunnskólanema á hverjum tíma má þó gera ráð fyrir að þessi staða eigi við um 700 börn og unglinga í þessum aldurshópi. Þessi ungmenni eru verulega illa stödd hvað varðar félagslega stöðu, heilsu, líðan og framtíðarhorfur og því mikilvægt að finna þau og aðstoða,“ segir á vef landlæknis.
Þar kemur líka fram að samskipti við foreldra höfðu mest áhrif á líðan ungmenna en tengsl við skóla mest áhrif á áhættuhegðun. „Tengsl við vini höfðu vissulega áhrif á líðan, en mun minni en áhrif foreldra og áhugavert var að sjá að tengsl við vini höfðu engin marktæk áhrif á áhættuhegðun. Þau höfðu hins vegar mest áhrif á einelti. Ungmenni með sterk vinatengsl voru mun ólíklegri til þess að hafa orðið fyrir einelti eða lagt aðra í einelti.“
Langflest íslensk ungmenni eiga í góðum tengslum við foreldra, vini og skóla en sá hópur sem það á ekki við er verulega illa staddur varðandi heilsu, líðan og framtíðarhorfur og mikilvægt er að finna hann og aðstoða. Þetta er meðal niðurstaðna í nýrri rannsókn Ársæls Arnarssonar, prófessors við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem unnin er í samstarfi við starfsfólk á lýðheilsusviði Embættis landlæknis.
Efnahagsstaða foreldra hefur mikil áhrif á tengsl ungmenna
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna enn fremur að þau ungmenni sem sögðust búa við mjög slæman fjárhag höfðu einhver slök tengsl og þriðjungur til helmingur þeirra hafði slök tengsl á öllum sviðum. „Þessar tölur ber þó að túlka með fyrirvara þar sem mjög fá ungmenni eru að baki þeim. Engu að síður draga niðurstöðurnar fram mikilvægan ójöfnuð til heilsu og vellíðanar meðal barna og ungmenna sem gefa þarf nánari gaum,“ segir einnig í frétt á vef Embættis landlæknis.
Niðurstöður skýrslunnar má lesa á vef Embættis landlæknis