„Rannsóknin mín beinist að feðrum sem beitt hafa ofbeldi í nánum samböndum, reynslu þeirra af eigin gjörðum, ferlinu að hætta að beita ofbeldi og fjölmiðlaorðræðunni um feður og ofbeldi.“ Þetta segir Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir, aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, um verkefni sem hún vinnur nú að sem hún kallar „Feður og ofbeldi“. Rannsóknin er hluti af stærra verkefni sem snýr að því að kortleggja sýn karla sem beitt hafa aðra ofbeldi út frá ólíkum sjónarhornum.
Rannsóknir af þessum toga eru mjög brýnar að áliti Rannveigar Ágústu vegna þess að niðurstaða úr slíkum rannsóknum geti hreinlega opnað á leiðir til úrbóta. „Rannsóknir á samfélagslegum grunni veita okkur almennt tækifæri til að meta stöðuna á hverjum tíma, skilja veruleika okkar og samfélagið sem við búum í. Með því að kortleggja vandamál fáum við tækifæri til að vinna með þau og móta tillögur að úrbótum og forvörnum.“
Rannveig Ágústa segir að mikilvægi þess að skoða sérstaklega ofbeldi feðra í nánum samböndum sé tvíþætt. „Í fyrsta lagi er ofbeldi í nánum samböndum kynjaður vandi þar sem meirihluti gerenda eru karlar og margir þessara karla eru auk þess feður. Í öðru lagi hafa feður sem hópur reynst sérstaklega móttækilegir fyrir meðferð þar sem reynsla þeirra sem feður getur virkað hvetjandi á viljann til að breytast.“
Með reynslu í að rannsaka ofbeldi í nánum samböndum
„Ég hef áður rannsakað kynferðisofbeldi í nánum samböndum unglinga út frá reynslu brotaþola og einnig skoðað upplifun brotaþola af kynferðiseinelti í íslenskri skólamenningu. Ég er því með þennan kynjafræðibakgrunn. Ég sé líka mikilvægi þess að öðlast skilning á sýn gerenda sérstaklega þar sem það getur gefið innsýn í leiðir til úrbóta.“
Rannveig Ágústa segist til viðbótar þessu hafa rannsakað vinnumenningu í lögreglunni og þá sérstaklega með hliðsjón af hugmyndum um karlmennsku. „Ég hef þannig reynslu af því að skoða karlmennskuvinkilinn sem nýtist mér vel í þessu tiltekna verkefni.“
Í heildarstefnu Háskóla Íslands er þungi á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, ekki síst í rannsóknum sem unnar eru af vísindafólki skólans. Rannveig Ágústa segir að markmið rannsóknarinnar tali beint inn í tvö af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. „Hér á ég annars vegar við markmið fimm, sem kveður á um aukið jafnrétti kynjanna, en ætlunin með rannsókninni er t.d. að draga úr kynbundnu ofbeldi. Í öðru lagi tengist rannsóknin markmiði sextán um frið og réttlæti þar sem einnig er ætlunin að daga úr ofbeldi.“
Leitar leiða til að draga úr ofbeldi
Rannveig Ágústa hefur nú greint fjölmiðlaumræðuna um feður og ofbeldi sem er liður í verkefninu eins og áður kom fram. Í þeirri umræðu segir hún áberandi að ofbeldi fái birtingu sem ákveðið persónuleikaeinkenni sem aðgreini þá feður sem beitt hafa ofbeldi frá ríkjandi orðræðu um virka og góða feður á Norðurlöndunum. „Í greiningunni á viðtölum við feður sem beitt hafa ofbeldi hef ég skoðað óþægindi feðranna sérstaklega, þá innsýn sem það veitir í sjálfsmyndaflækjuna sem þeir standa frammi fyrir, hindranir við að taka ábyrgð á gjörðum sínum og þá möguleika sem óþægindin geta veitt þeim til breytinga.“
Rannsókn í takti við Heimsmarkmið SÞ
Í heildarstefnu Háskóla Íslands er þungi á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, ekki síst í rannsóknum sem unnar eru af vísindafólki skólans. Rannveig Ágústa segir að markmið rannsóknarinnar tali beint inn í tvö af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. „Hér á ég annars vegar við markmið fimm, sem kveður á um aukið jafnrétti kynjanna, en ætlunin með rannsókninni er t.d. að draga úr kynbundnu ofbeldi. Í öðru lagi tengist rannsóknin markmiði sextán um frið og réttlæti þar sem einnig er ætlunin að daga úr ofbeldi.“