Hrafnhildur Ævarsdóttir, MS-nemi við Líf- og umhverfisvísindadeild og Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor við Kennaradeild
Geitafell, Geitháls, Geitaskarð og Geithellnadalur. Þessi örnefni bera því glöggt vitni að íslenska landnámsgeitin hefur skipt verulegu máli fyrir Íslendinga í aldanna rás. Meira að segja er gata nefnd henni til heiðurs í Reykjavík, Geitland. Engu að síður er geitastofninn hér á landi afar fáliðaður og um miðja síðustu öld lá við að hann eyddist með öllu. Í tvígang, frá því að menn fóru að halda skýrslur um fjöldann, hefur geitastofninn farið niður fyrir 100 dýr, í seinna skiptið fyrir aðeins röskum 50 árum. Nú eru innan við þúsund geitur á landinu öllu.
„Íslenski geitastofninn er sérstakur og mikið skyldleikaræktaður. Rannsóknir við Landbúnaðar- háskólann á Hvanneyri hafa sýnt það. Hann er í útrýmingarhættu og okkur ber bæði siðferðisleg skylda og lagaleg að vernda hann,“ segir Hrafnhildur Ævarsdóttir, sem vinnur nú að atferlisrannsóknum á íslensku geitinni.
„Ýmislegt bendir til að afurðir geitanna séu að ýmsu leyti sérstakar og verðmætar, t.d. eru vísbendingar um að mjólkin sé mjög góð fyrir þá sem hafa kúamjólkuróþol,“ segir Hrafnhildur en góð huðna getur gefið af sér tvö til þrjú hundruð lítra af mjólk á ári.
Hrafnhildur Ævarsdóttir og Hrefna Sigurjónsdóttir
„Íslenski geitastofninn er sérstakur og mikið skyldleikaræktaður. Rannsóknir við Landbúnaðar- háskólann á Hvanneyri hafa sýnt það. Hann er í útrýmingarhættu og okkur ber bæði siðferðisleg skylda og lagaleg að vernda hann.“
Rannsókn Hrafnhildar snýst um hegðun, félagsmyndun og fæðuval geitarinnar. Hún hefur kannað hvernig geiturnar verja tíma sínum við misjafnar aðstæður, t.d. eftir þéttleika og búsvæðum. Rannsóknirnar hafa farið fram á Háafelli í Hvítársíðu þar sem langstærsta geitahjörðin er á Íslandi. Hún hafði aðra minni hjörð á Brennistöðum í Flókadal til samanburðar. Hrafnhildur hefur einnig kannað hvort félagskerfi geita svipi til simpansa og höfrunga, sem vitað er að búa yfir hvað mestri greind í dýraríkinu. Alþekkt er að geitur eru greindar og miklir persónuleikar en engar mælingar hafa verið gerðar á greind þeirra hér á landi.
Hrafnhildur segir að í ljós hafi komið að geiturnar verji meiri tíma til beitar þegar þær hafa mikið rými og val um fæðutegundir en þegar þessi gæði eru af skornum skammti. Þær liggja hins vegar meira og hafa meiri samskipti við aðrar geitur, bæði jákvæð og neikvæð, þegar þær hafa minna rými. Vitað er að geitur komast vel af á rýru landi og þurfa kjarnminna hey en önnur húsdýr. „Þær fara um í litlum hópum og huðnurnar eru flestar í vinfengi við ákveðnar aðrar huðnur.“
„Allar upplýsingar um geitina eru verðmætar í ljósi þess að stofninn er í útrýmingarhættu og að þjóðinni ber skylda til að varðveita hann,“ segir Hrefna Sigurjónsdóttir prófessor, sem er leiðbeinandi Hrafnhildar í þessu verkefni. Sá hluti rannsóknarinnar sem sneri að fæðuvistfræði og fæðuvali geitarinnar var gerður í samstarfi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.
Leiðbeinendur: Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor við Kennaradeild, og Anna Guðrún Þórhallsdóttir, prófessor við umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands.