Skip to main content

Öræfajökull og Hekla undir smásjánni

Fadi Kizel, nýdoktor við Verkfræðistofnun Háskólans

„Á Íslandi geta orðið bæði örar og kraftmiklar breytingar á landslagi sem rekja má ýmist til náttúrulegra ferla eða gjörða mannsins. Þessar breytingar hafa stundum áhrif á samfélagið og til þess að geta greint þær og skilið er nauðsynlegt að geta nýtt fljótvirkar og áreiðanlegar greiningaraðferðir til kortlagningar og eftirlits. Þar gildir að hafa yfirsýn yfir stórt svæði í mikilli upplausn.“ Þetta segir Fadi Kizel, nýdoktor í rafmagns- og tölvuverkfræði, sem tekur þátt í öndvegisverkefninu „Environmental Mapping and Monitoring of Iceland by Remote Sensing (EMMIRS)“ en markmið þess er m.a. að koma á fót fjarkönnunarsetri við Háskóla Íslands.

Fjarkönnun snýst um að taka stafrænar myndir úr flugvélum og gervitunglum á ýmsum tíðnisviðum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðar. Það er ekki einfalt mál að vinna slíkar upplýsingar og því hafa vísindamenn við skólann verið að þróa aðferðir til þess ásamt því að safna og vinna úr fjarkönnunargögnum.

Fjarkönnunartækni hefur m.a. verið notuð hérlendis til þess að fylgjast með bæði breytingum á hafís, gróðri og jöklum en í EMMIRSverkefninu eru eldfjöll í linsuopinu, ef svo má segja. Ætlunin er m.a. að safna gögnum sem tengjast landslagsbreytingum við Heklu og Öræfajökul, en vísindamenn hafa sagt fyrrnefnda eldfjallið búa sig undir að gjósa og þá varð hræringa vart í hinu síðarnefnda í nóvember 2017.

Fadi Kizel

„Rannsókn mín snýst um að þróa nýja algóritma og tæknilausnir sem gera okkur kleift að greina og draga sjálfkrafa út landfræðilegar upplýsingar með aðferðum fjarkönnunar.“

Fadi Kizel

Fadi bendir á að tæknibylting hafi orðið í gervihnatta- og fjarkönnun sem hafi það í för með sér að vísindamenn geti aflað gríðarmikilla gagna á stóru svæði yfir langan tíma á ýmsum tíðnisviðum. „Í öndvegisverkefninu EMMIRS er markmiðið að færa Ísland í fremstu röð í þessum efnum með því að tengja saman þróaða upplýsingavinnslu og kortlagningu á íslensku umhverfi. Rannsókn mín snýst um að þróa nýja algóritma og tæknilausnir sem gera okkur kleift að greina og draga sjálfkrafa út landfræðilegar upplýsingar með aðferðum fjarkönnunar.“

Að verkefninu kemur þverfaglegur hópur vísindamanna og nemenda við Háskóla Íslands, m.a. á sviði fjarkönnunar, landfræði, jarðfræði og umhverfis- og auðlindafræði en verkefnisstjóri þess er Gro Birkefeldt Møller Pedersen, nýdoktor við Jarðvísindastofnun Háskólans.

Það var þessi þverfræðilega nálgun sem dró Fadi að verkefninu. „Samspil þess fræðilega og hagnýta í verkefninu ásamt möguleikum á vinnu bæði á rannsóknastofum og á vettvangi hafði mikil áhrif á þá ákvörðun mína að taka þátt í verkefninu,“ segir hann og bætir við: „Verkefnið gefur okkur gott færi á að þróa og taka í notkun nýstárlega tækni til kortlagningar og eftirlits sem taka sérstaklega mið af jarðfræði og vistfræði Íslands.“

Sigketill í Öræfajökli