Skip to main content

Opnar lyfjum leið í líkamann með nýrri tækni

Þorsteinn Loftsson, prófessor við Lyfjafræðideild

„Líkami okkar er að mestu vatn og til að lyf virki verða þau að vera leysanleg í vatni upp að ákveðnu marki. Lyfjasameindir mega heldur ekki vera of vatnssæknar því að þá komast þær ekki í gegnum fitusæknar lífrænar himnur.“ Þetta segir Þorsteinn Loftsson, prófessor í lyfjafræði, um eitt þeirra verkefna sem vísindamenn glíma við þegar nýrra lyfja er leitað. Þótt vatn og fita séu mikilvæg
líkamanum eiga þessi efnaform ekki alltaf samleið og meginverkefni Þorsteins undanfarin ár hefur verið að sætta þessi tvö form efna, fitu og vatn. Markmiðið er að einfalda þeim að komast inn í líkamann.

Þorsteinn Loftsson

Þorsteinn hefur árum saman unnið við rannsóknir á sýklódextrín-fásykrum sem myndast þegar bakteríur melta sterkju. Það sem er merkilegt við þessar fásykrur er að þær geta myndað vatnsleysanlegar efnafléttur með fitusæknum lyfjum.

Þorsteinn Loftsson

Þorsteinn hefur árum saman unnið við rannsóknir á sýklódextrín-fásykrum sem myndast þegar bakteríur melta sterkju. Það sem er merkilegt við þessar fásykrur er að þær geta myndað vatnsleysanlegar efnafléttur með fitusæknum lyfjum. Venjulega leysast þessi fitusæknu lyf illa upp í vatni en með hjálp fásykranna komast þau í gegnum meltingarveginn inn í líkamann. „Sýklódextrín hafa þann eiginleika að auka vatnsleysanleika lyfja án þess að breyta byggingu þeirra eða hæfni til að hafa áhrif í líkamanum,“ segir Þorsteinn.

„Kveikjan að rannsóknum mínum á sýklódextrínum og notkun þeirra í lyfjafræði er sú þróun sem hefur átt sér stað í lyfjaiðnaðinum á undanförnum árum. Með nýrri tækni við leit að lyfjum fást mjög oft lyfjasprotar sem við tilraunir í glösum tengjast lyfjaviðtækjum en sem síðan er nær ómögulegt að láta virka í fólki vegna torleysanleika þeirra í vatni,“ segir Þorsteinn.

Rannsóknir Þorsteins á sýklódextrínum hafa fætt af sér yfir 250 ritrýndar greinar í alþjóðlegum vísindaritum, um 15 einkaleyfi og einkaleyfaumsóknir og fjölmarga bókarkafla og minni greinar. „Í raun- og lífvísindum, sem og á öðrum fræðasviðum, er tækniþekking þjóða metin af ávöxtunum, þ.e. hér hjá okkur af fjölda þeirra fræðigreina sem íslenskir vísindamenn birta í alþjóðlegum vísindaritum og fjölda einkaleyfa frá íslenskum háskólum og fyrirtækjum,“ segir Þorsteinn.

Rannsóknir hans hafa einnig skilað tveimur íslenskum sprotafyrirtækjum, Cyclops ehf., sem rann inn í Íslenska erfðagreiningu, og svo seinna Oculis ehf., sem er eitt af sprotafyrirtækjum Háskóla Íslands.

Þegar horft er til þessa er einfalt að fullyrða að rannsóknir Þorsteins hafi haft mikla þjóðfélagslega þýðingu. „Tækniþekkingin hefur áhrif á uppbyggingu iðnaðar, ásókn erlendra fjárfesta og velmegun þjóðarinnar,“ segir Þorsteinn og bætir við: „Vöxtur lyfjafyrirtækjanna Actavis og Invent Farma var t.d. byggður á lyfjafræðingum, einstaklingum sem luku meistaraprófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands. Sumir þeirra unnu að rannsóknarverkefnum  sem tengjast sýklódextrínum. Við höfum einnig tekið þátt í nokkrum alþjóðlegum rannsóknaverkefnum og unnið verkefni sem tengjast sýklódextrínum fyrir alþjóðleg lyfjafyrirtæki. Sýklódextrínrannsóknirnar hafa einnig leitt af sér rannsóknir og þróun sem ekki tengjast sýklódextrínum beint, svo sem rannsóknir á lýsi. Sprotafyrirtækið Lipid pharmaceuticals ehf., sem er samstarf Lýsis hf., Háskóla Íslands og Landspítala, varð til út úr Oculis ehf. Lipid pharmaceuticals er með lyf í rannsókn sem hugsanlega verður markaðssett innan tveggja ára.“