„Rannsóknin ber heitið „Hulin þekking kvenna í kjölfar barnsburðar“ og með henni varpa ég ljósi á tímabilið í lífi kvenna eftir fæðingu barns og hvaða áhrif það hefur á mótun sjálfs þeirra,“ segir heimspekineminn Elín Ásbjarnardóttir Strandberg um rannsókn sem hún framkvæmdi fyrir skemmstu með styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna. Nýsköpunarverkefnið er unnið út frá því námi sem hún hefur stundað við Háskóla Íslands. Rannsóknin hefur nú þegar haft talsverð samfélagsleg áhrif.
Elín kynnti sér fræðileg skrif um þetta tímabil og tók svokölluð fyrirbærafræðileg djúpviðtöl við tuttugu konur um upplifun þeirra af meðgöngu, fæðingu og tímabilinu eftir fæðingu, sem oft er kallað sængurlega eða postpartum tímabil.
„Latneska heitið postpartum þýðir „eftir aðskilnað“ sem mér þykir lýsa tímabilinu mun betur en orðið sængurlega auk þess sem sængurlega tekur strangt tiltekið aðeins til fyrstu sex vikna eftir fæðingu. Viðtölin sýndu mér hins vegar ljóslega að konur voru lengur að vinna úr reynslunni af fæðingu og tilkomu barns í líf sitt og töluðu flestar um að það tæki eitt til tvö ár að upplifa sig aftur sem einstakling.“
Skorti heimspekilegar rannsóknir
Elín segir að þegar hún skrifaði BA-ritgerð sína í heimspeki hafi hún og leiðbeinandi hennar, Sigríður Þorgeirsdóttir prófessor í heimspeki við HÍ, uppgötvað að það skorti heimspekilegar rannsóknir á því tímabili sem einkennir líf fæðandi einstaklinga eftir að barn er fætt. Eitthvað hafði að hennar sögn verið skrifað um meðgöngu og fæðingu en svo er eins og tímabilið eftir fæðingu, sem er mikið umbreytingartímabil í lífi manneskju, hafi verið óplægður akur.
„Heimspeki fæst meðal annars við spurningar um mannskilning og hvað það er að vera sjálf. Það er held ég fátt sem breytir manneskju og sjálfsskilningi hennar jafn mikið og að ganga með og fæða barn. Tímabilið eftir fæðingu reynir mjög á þanþol sjálfsins og tengingu einstaklingsins við eigið sjálf. Hin barnshafandi hefur alið innra með sér annað sjálf með eigin ætlan. Eftir að barnið kemur í heiminn er það algjörlega háð konunni og hún skynjar það jafnframt að hún er sjálf á einhvern hátt háð barninu. Hvar barnið byrjar og móðirin endar verður óljóst og móðirin getur upplifað áfram eftir fæðingu að barnið sé enn hluti af hennar eigin líkama og sjálfi. Svona rannsókn er viðleitni í því að draga upp margbreytilega mynd af manneskjunni sem tengslaveru, en ráðandi heimspekilegur mannskilningur hefur lengst af verið einhliða og einstaklingsbundinn enda hefur heimspekin lengst af verið afar karllæg grein,“ segir Elín.
Mikilvægt að rjúfa þögnina
Þegar Elín er spurð um kveikjuna að verkefninu svarar hún því til að þögnin um þetta tímabil hafi verið skerandi „og hluti af þessari þögn er mýtan um bleika skýið sem á að umlykja konur í kjölfar barnsburðar. Hins vegar virðist umræðan um þetta tímabil snúast að drjúgum hluta um fæðingarþunglyndi sem er svolítið þversagnakennt. Áhugi minn beinist að svæðinu milli botnsins og bleika skýsins.“
„Níutíu prósent þeirra upplifðu ekki bleikt ský í kjölfar fæðingar barns síns. Önnur niðurstaða er hversu einangrandi og umlukið einmanaleika fæðingarorlofstímabilið getur verið. Eins kom fram að töluvert margar kvennanna upplifðu skort á nærgætni í samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk í fæðingum. Svo virðist sem sú upplifun sitji oft lengur í konum en erfið fæðingarreynsla,“ segir Elín.
Þegar vikið er að niðurstöðum segir Elín að þær helstu sýni að 95% kvennanna telji sig upplifa breytingu á tengingu sinni við eigið sjálf í barneignarferlinu. Viðmælendur lýsi breytingunni með eigin orðum sem einhvers konar uppfærslu eða stækkun á sjálfinu.
„Níutíu prósent þeirra upplifðu ekki bleikt ský í kjölfar fæðingar barns síns. Önnur niðurstaða er hversu einangrandi og umlukið einmanaleika fæðingarorlofstímabilið getur verið. Eins kom fram að töluvert margar kvennanna upplifðu skort á nærgætni í samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk í fæðingum. Svo virðist sem sú upplifun sitji oft lengur í konum en erfið fæðingarreynsla.“
Elín segir að mikið hafi verið rætt um samskipti heilbrigðisstarfsfólks og skjólstæðinga og viðtölin varpi ljósi á það hversu mikilvæg nærgætni er í samskiptum þegar fólk er berskjaldað.
„Viðhald mannkyns er lykilþáttur í sjálfbærni og aukin þekking á áskorunum þessa tímabils skipta máli fyrir samfélagið. Fræðilega hefur rannsóknin áhrif á heimspekilegan mannskilning og sjaldan sést betur hvernig við erum öðrum háð og önnur háð okkur eins og í tengslum við fæðingarferlið. Þessi uppfærsla sjálfsins er mikilvæg til skilnings á því hvernig við túlkum sjálfið innan heimspekinnar. Hið karllæga sjónarhorn hefur ekki tekið með í reikninginn hversu mikil breyting á sér stað á sjálfinu á þessu tímabili og tel ég það mikilvæga viðbót sem þarft sé að skoða nánar. Konur lýstu postpartum sem tímabili þar sem sjálfið er uppfært,“ segir Elín.
Fræðsla afsprengi rannsóknarinnar
Elín hefur nýtt sér samfélagsmiðla til að miðla mikilvægum upplýsingum til foreldra í formi helstu niðurstaðna rannsóknarinnar. Hún hefur stofnað Instagram-síðuna @viskubrunnur_foreldra þar sem helstu niðurstöðum rannsóknarinnar er deilt sem og glefsum úr viðtölunum til þess að sem flest geti notið þeirrar þekkingar sem konurnar deildu í viðtölunum.
Fyrr á þessu ári fór svo af stað prufukeyrsla á námskeiði hjá Fæðingarheimili Reykjavíkur fyrir nýjar mæður stuttu eftir fæðingu þar sem farið var yfir það helsta sem kom fram í rannsókninni og þeim boðinn vettvangur til samtals sín á milli, fræðsla frá sérfræðingum og myndun tengslanets í raunheimum. Námskeiðið er unnið í samstarfi við Emmu Marie Swift, ljósmóður og lektor við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands. Í haust verða þessi námskeið fastur liður í vetrardagskrá Fæðingarheimilisins.
Elín segist ætla halda áfram að rannsaka málefni sem þessu tengjast með fram námi sínu og er meðal annars að kynna sér enn frekar aðferðir örfyrirbærafræðilegra djúpviðtala. Þar njóti hún góðs af alþjóðlegu rannsóknarverkefni í líkamlega gagnrýnni hugsun sem Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki og leiðbeinandi hennar í verkefninu, leiðir. „Örfyrirbærafræðilega aðferðin reyndist nefnilega vel til að kanna upplifanir eins og postpartum, sem reyna meira á mörk sjálfsins en mörg önnur.“